sunnudagur, febrúar 26, 2006

There is no such thing as a fresh start...

Það er alltaf gaman að læra í vinnunni, einkum að skrifa ritgerðir. Það er aftur á móti leiðinlegt að vera þreytt, bæði þegar maður er í vinnunni og þegar maður er að skrifa ritgerðir.

Ég komst að því í gær að ég er meiri stereótýpa en ég hélt. Er að læra þjóðfræði og latínu, spila á orgel, syng í kirkjukór, vinn í ferðaþjónustu og er í hestum... En það þurfti svo sem einhvern til að vega upp á móti öllu þessu viðskiptafræði- og íþróttaliði þarna.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Allt of snemma á laugardagsmorgni

Mér leiðist að mæta í vinnuna klukkan átta um helgar. Ég er svo mikil svefnpurka...

Í gær var ég hræðilega þunn. Frír bjór er ekki sniðug pæling nema upp að vissu marki :p

Það er svo margt sem ég þarf að gera einhvernveginn og samt geri ég ekki neitt. Tossalisti kæmi að góðum notum en ég veit ekki hvort ég legg í að skrifa þetta allt niður. Þá finnst mér ég líklega bara vera enn óduglegri.

Síðan hefur enn eitt afmælisbarn bæst við á síðustu dögum... það er hún Silja sem varð 24 ára 17.febrúar! Reyndar komið soldið síðan, en henni skal samt sem áður óskað innilega til hamingju :D

mánudagur, febrúar 20, 2006

Afrek helgarinnar

Ég tók fyrsta viðtalið í rannsókninni minni fyrir Þjóðfræði barna og unglinga... fór í skírn hjá tengdafjölskyldunni og tókst að klína meiki í hvíta bolinn minn (don't ask how... ég er bara snillingur)... var ekki viðstödd þegar fína bolluskálin mín var vígð í þrítugsafmæli hjá Ármanni og Lindu... fór á hestbak og kenndi 9 ára systur minni frystikistulagið... horfði ekki á Sylvíu Nótt vinna Eurovision en söng aftur á móti þetta blessaða lag alltof oft inni í eldhúsi hjá Kristrúnu... bætti fyrir það með því að marsera upp Bankastrætið með Hjalta og öskra "Niður með Sylvíu Nótt"... smakkaði Gammeldansk sem er sko ógeðslega vont!... hitti ótal MH-inga sem ég var svo sannarlega búin að gleyma að væru til og fékk meira að segja einn þeirra til að kaupa handa mér áfengi... ráfaði um Suðurgötukirkjugarð í óratíma og þráttaði við Kristján um það hver væri styðsta leiðin heim (hann hafði rétt fyrir sér)... söng á tónleikum og þið verðið bara að fyrirgefa mér góða Langholtskirkjukórsfólk þó ég segi að þeir voru frekar hundleiðinlegir, úff... og las EKKI bókina sem ég hélt fyrirlestur um í Efnismenningu í dag...

All on all var þetta bara eiginlega frábær helgi :D og veitti ekki af...

Þið hafið aftur á móti ekki afrekað mörg komment... spurning hvort að ég þurfi að reyna að skrifa eitthvað skemmtilegra?

föstudagur, febrúar 17, 2006

Þá er komið að því

Þið fáið nú einstakt tækifæri til að tjá hvað ykkur raunverulega finnst um mig ;)

Eitt svona frekar jákvætt próf þar sem þið getið tjáð mannkosti mína almennt og annað með neikvæðum möguleikum þar sem þið getið komið því á framfæri ef eitthvað við mig fer sérstaklega í ykkur! :D

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Klukk frá Jóhönnu...

Ég hef unnið á miklu meira en fjórum stöðum, en af þeim má nefna skrifstofu í Blóðbankanum, Fossvogskirkjugarð, Domino's og Fosshótel. Skil "hef unnið á" sem svo að núverandi vinna telji ekki ;)

Ég mun seint þreytast á því að horfa á Lord of the Rings, Love Actually, Fuglastríðið í Lumbruskógi og No man's land.

Ég hef búið í Rofabæ í Árbænum, Marklandi í Fossvoginum, Birkihlíð við Aspargrund í Kópavogi og á Digranesvegi í Kópavogi. Eins og með núverandi vinnuna fær núverandi heimili mitt ekki að vera með.

Ég glápi einkum á Law and Order: SVU, Sex and the city, The king of Queens og House. Finnst þeir allir skemmtilegir en er samt ekki beint svona manneskja til að eiga uppáhalds sjónvarpsþætti. Eins og sjá má er þetta allt á Skjá einum sem segir líklega meira um sjónvarpsáhorf mitt en margt.

Ég hef farið til ágætlega margra útlanda en sjaldnast í fríum! Af slíkum stöðum má þó nefna Suður-Holland, París, Færeyjar og Kraków.

Ég fer nú líklega nokkuð daglega inn á ugluna, háskólapóstinn og hotmail og svo líklega bara þessa síðu! til að tékka hvort þig hafið kommentað... ;)

Mér finnst mexíkóskur matur ótrúlega góður, sérstaklega Fajitas, en grillað folaldakjöt, saltkjöt og grjónagrautur eru líka í uppáhaldi.

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef lesið Harry Potter bækurnar flestar oftar en einu sinni :p Auk þess Ronju ræningjadóttur og Fagra Blakk (var einhvernveginn miklu duglegri að lesa sömu bækurnar aftur þegar ég var krakki!) og hugsa að líklega gæti ég lesið Óbærilegan léttleika tilverunnar ansi oft áður en ég fengi ógeð :)

Akkúrat núna væri ég mjög til í að vera í Kraków (fyrir utan að allir eru í fríi uppi í fjöllum!), undir sæng með Kristjáni :D (það gerir veðrið sjáiði til), í sólbaði á Krít eða á skemmtisiglingu í einhverjum heimshluta þar sem er sumar!

Og ég ætla að klukka Hjalta, Silju Rún, Ciliu og Mörtu... ef eitthvert ykkar er búið að fá klukk áður þá er bara enn meiri ástæða til að gera það núna! ;)

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Minns langar í bækur!

Háskólanám hefur að mörgu leyti slæm áhrif á mann. Aðallega í því skyni að espa upp um helming nördinn sem blundaði þó líklega í manni fyrir.

Top three á "bækur sem ég féll fyrir af Amazon"
1. Medieval Folklore : A Guide to Myths, Legends, Tales, Beliefs, and Customs
2. Tolkien and the Invention of Myth: A Reader
3. Church Treasury of History, Custom and Folklore

en þrátt fyrir nýtilkomna tilveru vísakortsins míns þarf maður samt víst líka að eiga pening til að geta keypt nördalegar bækur á internetinu... svo enn um sinn verða kennslubækurnar víst að nægja í því skyni! ;)

laugardagur, febrúar 11, 2006

Mér finnst ég vera orðin gömul þegar...

...meirihluti þáttakenda í idol er yngri en ég

...ég er nánast eina manneskjan í skólahópnum mínum sem er ekki í sambúð

...fólkið sem ég djamma með þarf að redda pössun

...rifrildin við litlu bræður mína eru orðin "málefnaleg"

...það sem mig langar mest af öllu að fá í afmælisgjöf er ryksuga

...ég er rukkuð fyrir afnotagjöldin af ríkissjónvarpinu

...kyntáknin í kvikmyndaheiminum eru á mínum aldri

...það eru fleiri kort í veskinu mínu en peningarnir sem eru inn á þeim

...helsta umhugsunarefni mitt á leiðinni heim úr vinnunni er það, hvað ég á að hafa í kvöldmatinn

...pólitískar ádeilubækur vekja meiri áhuga minn í bókabúðum en glanstímarit

...ég forðast að taka mér frí í vinnunni því "ég hef ekki efni á því"

...ég get ekki hugsað mér að mæta þunn í vinnuna

...lítil börn í strætó kalla mig "konu"


Já... ég er að verða alltof fullorðin held ég!

föstudagur, febrúar 10, 2006

Örstutt

Jæja, ég fór ekki á fyllerí í gær eins og nærri má geta... var samt bara ágætlega fegin, hefði ekki veið til í að vera jafn þunn og Óli var þreyttur í study-groupinu okkar í morgun ;)

Svo er það bara áframhaldandi lestur... þetta er ótrúlegur andskoti!

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Tilvistarkreppa

Ég hef ákveðið að beila á tækifæri mínu til að fara á fimmtudagsfyllerí í þágu vonandi betri einkunnar úr prófinu mínu á laugardaginn... það er að segja ef mér tekst yfir höfuð að fá frí í vinnunni til að mæta í prófið! þetta nýja fólk sem byrjaði um áramótin er ekki næstum jafn tilbúið til að skipta á vöktum og fólkið sem hætti, bölvað vesen :/

En já, sem sagt, ég ætla að vera góð og gáfuleg manneskja í kvöld og sitja heima og læra í stað þess að fara á kosningavöku og detta í það... held ég. Á hinn bóginn hef ég frekar miklar áhyggjur af almennt dvínandi tengslum mínum við fólk, svo kannski er ákvörðun mín ekki alveg endanleg. Hvernig er annars með ykkur - saknið þið mín ekkert jafn mikið og ég sakna ykkar?? Eða eruð þið bara jafn ódugleg og ég að gera eitthvað í því...?

Svo hafa tvö afmælisbörn til viðbótar bæst í hópinn, Leifur átti 21 árs afmæli 6.febrúar og hún Telma varð 22 ára þann 7.feb. Þeim er hér með óskað innilega til hamingju!!

mánudagur, febrúar 06, 2006

Brjálæðislega dugleg...?

Jamm, ég er gjörsamlega að komast að því að ég er alveg út úr (blogg)heiminum þessa dagana... allt að gerast og ég bara veit ekki neitt.

Annars gerðist ég gasalega dugleg áðan þegar ég kom úr skólanum og... nei, ég fór ekki að læra, hvernig dettur ykkur það í hug? ;) heldur ákvað ég að þrífa húsið mitt að utan, eða sem sagt þann hluta þess sem ég á eitthvað í, sem er aðallega bara stigagangurinn og einhver smá stétt... en þetta var sem sagt allt saman mega ógeðslegt og ég eyddi alveg tveim klukkutímum í þetta með uppþvottabursta, vatnskönnu og nokkrar verulega blautar og ógeðslegar tuskur að vopni. Nú þarf ég bara að fá einhvern til að lána mér bíl svo ég geti keyrt gólfdúkinn sem verður víst að vera þarna á bílaþvottastöð og sprautað af honum mestu drulluna áður en ég kem honum fyrir aftur. Svo er bara að kaupa sér strákúst til að sópa stéttina og þá verður orðið ótrúlega fínt hjá mér...

Það er samt svo asnalegt við svona lagað að þrátt fyrir að ég hafi í alvöru verið mjög dugleg að koma þessu í verk (þetta er búið að vera ótrúlega drulluskítugt og pirrandi alveg síðan ég flutti inn) finnst mér ég samt eiginlega ekki hafa verið neitt dugleg því að ég hefði frekar átt að vera dugleg við að gera eitthvað annað, eins og til dæmis að taka til innanhúss eða lesa undir menningararfspróf eða eitthvað þannig... alveg eins og núna, þegar ég sit hérna geðveikt dugleg að blogga en ætti í raun frekar að vera dugleg við eitthvað allt annað eins og að svara öllum þessum e-mailum sem bíða mín í vinnunni eða upphugsa eitthvað gáfulegt fyrir verkefnin mín í skólanum...

Já, það er erfitt að vera ég ;)

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Sunnudagur

Helgin er að verða búin... þorrablót á föstudaginn, oh, hvað það var gaman :D og gott að vera búin að hrista þetta af herðum sínum, nú get ég aftur um frjálst höfuð strokið... eða frjálsara allavega...

En í stað þess að nýta nýfengið frelsi mitt til að lesa undir próf í menningararfi (sem er um næstu helgi - AAAHHH!!) slæpist ég hér og geri ekkert af viti, blogga, tapa fyrir sjálfri mér í Accordion og bíð eftir því að þvottavélin klári svo ég komist heim að taka til... I really am beyond aid!

Annars bið ég ykkur bara vel að lifa og óska nýorðnum afmælisbörnum - Hjalta (20 ára 26.jan), Dísu (20 ára 4.feb) og Óla (27 ára 4.feb) innilega til hamingju með að vera orðin aðeins eldri og vonandi vitrari en áður ;)

Óskið mér nennu í lærdóminn! Tschau...