þriðjudagur, október 31, 2006

Trick or treat...?

Hrekkjavaka í dag... hrekkjavökupartí um síðustu helgi :) og hrekkjavöku-búninga-afmæli hjá litlu systur í dag, ósköp erum við orðin amerísk!

Annars er það helst í fréttum að...
- til viðbótar við píanóið er ég búin að sníkja gítar af Þóri bróður, heimilið sem sagt orðið fullt af hljóðfærum sem draga athygli frá náminu, mjög gaman en ekki sérlega sniðugt.
- velvild mín í garð skyr.is er minni en nokkru sinni, eyddi átta tímum í það um helgina að reyna að sannfæra fólk um að smakka eitthvað sem ég borða ekki sjálf. Bölvuð hræsni, en ágætis fjáröflun eigi að síður.
- mig langar í saumavél. Langar ykkur ekki öll að slá saman í jólagjöf handa mér? ;)
- Nobili verður ekki starfandi í vetur :'( ef ég á að vera hreinskilin er ég pínu hrædd um að þetta þýði endalok þess ágæta kórs, en mun þó bíða og vona fram á næsta haust... Annars verða bara allir að hlusta á diskinn!

...og þá er afmælisbarnið komið í hús svo að það er best að hætta þessu röfli - ciao elskurnar!

miðvikudagur, október 25, 2006

Aðeins eitt

Píanóið er komið á sinn stað! Húrrahúrra :D

Kristján og Eggert fá bestu þakkir fyrir að hjálpa mér við flutninginn, svo og stelpurnar í vinnunni fyrir að redda þessari pínu glötuðu tímasetningu!

Nú er ég kát :)

sunnudagur, október 22, 2006

Ég vaknaði á sunnudagsmorguninn...

Af því að ég er svo ógurlega menningarleg þessa dagana þá ákvað ég í gær að breyta stillingunni á útvarpinu í bílnum mínum af FM957 (sem hefur verið fast þar síðan í sumar, svona er að ferðast of mikið með tíu ára systur sinni) og lenti beint inn á viðtali við Greifana, um feril þeirra og eitthvað slíkt. Meðal annars fór einn þeirra að tala um söguna á bak við Frystikistulagið, og vá! hvað það kom ekki vel út... að minnsta kosti held ég að ef þetta hefði verið kærastinn minn þá hefði ég sko hent honum út og aldrei talað við hann aftur. Samt fínt lag... ;)

Bryndís er búin að lofa að kenna mér á gítar ef ég kenni henni á píanó... grey hún! Hugsa samt að ég sé verri kennari en nemandi... en það kemur í ljós!

laugardagur, október 21, 2006

Tími á blogg?

Airwaves er ekki vinsæll tími hjá hótelstarfsfólki. Reyndar ekki enn nógu margt búið að fara til fjandans til að toppa síðasta Airwaves, en sunnudagsmorguninn er líka eftir. Kannski get ég þá bætt fleiri hlutum á "slæmir hlutir sem henda túrista á fylleríum" listann alræmda ;)

Annars held ég að líf mitt snúist orðið óhóflega mikið um lærdóm, eins og Marta benti réttilega á. Og samt mjakast voðalega lítið með öll þessi verkefni sem ég á að vera að gera. Hlýtur að vera einhver einbeitingarskortur í gangi.

Og já - aðalfréttirnar! Ég er að fara að fá píanó heim til mín :D :D :D búin að umsnúa stofunni minni til að gera pláss fyrir það, panta flutningabíl og auglýsa eftir burðarmönnum, á bara eftir að reikna út hvort ég þarf að skrúfa niður skilrúmið í eldhúsinu mínu til að koma því inn um dyrnar. Og svo skal spilað... :D Kannski ég ætti bara að beila á þessu háskólanámi og fara aftur í tónlistarskóla? ;)

þriðjudagur, október 17, 2006

Maria montesque promittunt

Latneskar beygingar kvöld eftir kvöld eru kannski ekki svo sniðugar. Þegar maður er farinn að gera tilraun til þess að beygja töluorðið "einn" í fleirtölu fer maður að minnsta kosti að efast. Nema ég sé bara svona mikil ljóska... það er reyndar vel líklegt. Sérstaklega þegar mér tekst á sama kvöldi að setja kanelsykur út í te í þeirri trú að það sé venjulegur sykur. Silly me...

Enn annað sem bendir sterklega til þess að háraliturinn hafi raunverulega einhver áhrif á fattarann í mér er það að ég komst bara að því í gær að það falla niður öll fög hjá mér þessa vikuna nema eitt - lesvika í hugvísindadeild. Ég sem stóð í þeirri trú að ég væri í félagsvísindafagi... en svo sem ágætt þar sem ég er hálflasin og þarf þá ekki að hafa samviskubit yfir því að vera heima og sofa.

Latínupróf á fimmtudag (vá, hvað mér finnst ég ekki hafa hugsað um annað í meira en viku!) svo ég held áfram að tileinka mér óregluleg nafnorð og perfectum beygingu samhljóðastofna... magna est veritas et semper praevalebit - já, kennslubækurnar mínar eru fullar af visku.

sunnudagur, október 15, 2006

Íþróttir og háskólinn

Lét loksins verða af því að prófa kórbandí um helgina :D reyndist vera mjög gaman, þrátt fyrir að ég hafi komist að því að ég er greinilega í hræðilegu formi...! Lungun mín mótmæltu harðlega eftir fyrstu fimm mínúturnar og ég er með ótrúlega miklar harðsperrur. En maður hefur nú gott af þessu öllu in the end ;) Ef ég væri bara ekki að vinna svona mikið um helgar... væri alveg til í að mæta á fleiri æfingar!

Eyddi svo mest öllum seinnipartinum í að búa til félagsskírteini fyrir Þjóðbrók (sem mér fannst nú bara nokkuð fín... :) þrátt fyrir að ég hafi endað á að klippa þau til í höndunum svo að þau eru kannski ekki aaaalveg þráðbein) sem kostaði miklar hremmingar... keyrði fjórar ferðir vestan úr bæ og upp í Hörðuvallaskóla, sem er sko eins langt út í buskanum og hægt er að komast í Kópavoginum, kannski ég ætti bara að rukka Þjóðbrók um bensínpening? ;)

Held annars að það sé ekki ofsögum sagt að Háskólinn sé búinn að yfirtaka líf mitt nokkuð gjörsamlega, HÁSKÓLAnámið, HÁSKÓLAnemendafélagið, HÁSKÓLAkórinn og hlutir tengdir þessu á einn eða annan hátt skipta tíma mínum bróðurlega á milli sín... eina sem ég geri þessa dagana og er ekki beintengt Háskólanum virðist vera er að sitja hér og þykjast vinna... þegar ég er í raun að blogga um HÁSKÓLANN ;) Jams, ég get sjálfsagt farið að líta á mig sem nema í fullu starfi :D

miðvikudagur, október 11, 2006

Dugnaðardagur

Þar sem ég er ekki í neinum tímum á miðvikudögum vill það oft verða þannig að ég geri fátt eitt af viti fyrir klukkan fjögur þessa daga (þá mæti ég í vinnuna... umdeilanlegt sjálfsagt hvort það flokkast undir að gera eitthvað "af viti").

En í dag var ég ofur dugleg, sat stjórnarfundi frá tíu til hálfeitt í morgun, fór síðan í banka, skilaði einhverjum reikningi frá Hjalta til Reykjavíkurborgar, fór í apótek, tók til og hélt hálfgerðan ritstjórnarfund gegnum msn... Að minnsta kosti er samviskubitið sem ég svona hálfpartinn hafði yfir því að vera óduglegur stjórnar- og ritstjórnarmeðlimur búið að minnka slatta :)

Á morgun verða síðan mótmæli... nei afsakið, MEÐmæli með aukinni menntun á Austurvelli kl. 15.30... spurning hvort maður sleppir því að mæta í latínu (síðasti tími fyrir próf :/) eða reynir að sannfæra kennarann um að gefa frí... allavega: Allir sem eru ekki í tímum - endilega mætið og "með"mælið fyrir mína hönd, ef ég skyldi nú vera föst í skólanum!

Ciao babes... ;)

þriðjudagur, október 10, 2006

Jebb, þetta fannst mér fyndið...

Hvað er líkt með kynlífi og brids?
-Þú þarft ekki á félaganum að halda ef þú ert með nógu góða hendi...

Já, ég er sjálfsagt með frekar afbrigðilegan húmor.

laugardagur, október 07, 2006

Haustlitirnir

Þá er komin ný helgi... finnst þetta haust líða eitthvað dularfullt hratt! Sumarið er allavega alveg búið, næturfrost og treflar eru alveg málið þessa dagana.

En já, vinna alla helgina, ekki mikið svigrúm til þess að gera neitt af sér þar, þó maður kíki kannski á kór-video-kvöld í kvöld... sjáum til. Ég var annars að telja saman að næstu 16 daga verð ég að vinna eitthvað alla nema 3!! Skil ekki hvernig ég fer að því að koma mér í eitthvað svona, verð alvarlega að fara að velta því fyrir mér að vinna minna held ég. Huggun þó að aðeins tvær af þessum þrettán vöktum eru 12 tíma...

Fór austur eftir vinnu í gær að líta á sjúklinginn minn, það voru ósköp að sjá hann :( Er víst farinn að hressast en ég veit ekki hvernig hann hefur þá verið fyrstu dagana, fannst hann hræðilega daufur. Sex til sjö vikur í viðbót verða það líklega þar til má fara að hreyfa hann. En hann er að minnsta kosti í góðum höndum :)

Ég er annars að farast núna, mig langar svo í söngtíma... sit við hljómborðið mitt tímunum saman að spila og syngja (í stað þess að læra, jæks...) og endurraða íbúðinni í huganum þannig að það sé pláss fyrir píanóið, sem ég er búin að láta mömmu lofa að lána mér ef ég kem því fyrir. Dísa skvís, er ekkert að frétta af Nobili...? Mig er farið að langa ógurlega að syngja Ceremony of Carols. Tvær kóræfingar á viku eru greinilega engan veginn að duga mér ;)

Langar annars einhvern í sumarbústaðapartý næstu helgi? Sýnist þáttakan ekki vera það mikil að það verður pottþétt pláss fyrir gesti, ég býð ef það vill einhver koma með mér...! ;)

þriðjudagur, október 03, 2006

Samvinna, nánd og gleði

Jæja, eftir helgina er ég búin að fá það staðfest að kórbúðir eru alveg málið :D það var vægast sagt ótrúlega gaman, hef ekki farið í svona skemmtilegt partý í langan tíma og er þó samkeppnin hörð! Er samt svo langt síðan ég kom heim að ég er búin að kjafta öllum skemmtilegustu pörtunum í ykkur flest... ;) og svo er búið að staðfesta dagsetningu á sumarbústaðapartýi Þjóðbrókar, stanslaus gleðskapur í gangi bara :D Svona inn á milli ritgerðarskila, latínuprófa, viðtala og fleira skemmtilegs...

ps. er samt á því að "Betri með hverjum bjór" hafi ekki verið verra slagorð, þó að hitt hafi kannski átt betur við ;)