laugardagur, mars 29, 2008

Þreytu- og gleðiblogg!

Úff, ég ákvað að það væri sniðugt að blogga... en svo sit ég bara og stari á tóman skjáinn og dettur ekkert í hug að segja.

Hmm... nr. 1: Ég er komin með vinnu hér í Kaupmannahöfn, búin að ráða mig sem guide á kanalabátum og byrja formlega að vinna á þriðjudaginn - var að koma heim núna eftir seinni þjálfunardaginn minn þar sem ég fékk að guida í næstum 9 klukkutíma! Pínu uppgefin, en líka voðalega ánægð, þar sem ég er búin að vera frekar stressuð yfir þessari þjálfun allri - það er örlítið meira en að segja það að blaðra allan daginn á þremur mismunandi útlenskum hverri ofan í aðra og satt best að segja þá var ég á tímabili pínu hrædd um að ég myndi ekki meika þetta! En, um miðjan daginn í dag þá var yfir-guidinn orðinn nógu ánægður með mig til að sleppa mér einni út á sjó með túristana :D Þó að það vanti enn alveg helling upp á ýmsa hluti; danski framburðurinn minn er nú ekkert allt of frábær, danskan og þýskan eiga það gjarna til að þvælast fyrir hvor annarri, um suma staði þarf ég greinilega að lesa aðeins betur og vera fljótari og öruggari á textanum... svona ýmislegt sem hægt er að bæta - þá er ég allavega sloppin í gegnum oplærings-prósessinn og það er mikill léttir :) Verður gott að fá aðeins fleiri plús-tölur inn í heimilisbókhaldið og ég vonast til þess að eiga eftir að skemmta mér vel í vinnunni í sumar, þegar ég verð hætt að hnjóta um orðin og farin að geta notið þess að dreifa ofur-nördalegri vitneskju minni um helstu kennileyti Kaupmannahafnar til túristanna (múhahah!)

Hmm... já, þetta var númer eitt, nr. 2: LOKSINS búin að fá útborgað frá Dominos, vei vei, þá þarf ég ekki að pæla í því máli meir. Nie mehr Dominos, það held ég að sé alveg víst!

Nr. 3 - Wacken miðar eru komnir í hús, úje og húrra, það verður mega gaman :D

Nr. 4 - Um næstu helgi er fyrirhuguð ferð til Noregs, þar sem við Þórir ætlum að heimsækja Hafdísi í Kristianssand - djamm og skemmtilegheit á dagskrá :D

Nr. 5 - Flugferðir og næstum öll gisting fyrir Póllandsferð - sem er nú eiginlega orðin að Evrópureisu, þar sem við verðum fyrst í París í 3 daga og joinum svo kórferðina í Berlín og förum þaðan til Póllands - er nú bókuð og borguð (lesist: komin á vísað), svo þá verður líka mega fjör og djamm og skemmtilegheit með öllu frábæra kórfólkinu! :D

Af þessari upptalningu má sjá að mér veitir víst ekki af því að vinna fyrir einhverjum krónum, til að eiga fyrir öllu djamminu og flakkinu sem fyrirhugað er á næstu mánuðum... danskar krónur eru allavega mun sniðugri en íslenskar þessa dagana, þ.e.a.s. þegar um innkomu er að ræða ;)

En pizzan sem Þórir er búinn að vera svo myndarlegur að baka bíður eftir mér, namm namm, og ég man heldur ekki eftir neinu fleiru til að telja upp í bili...

ps. ég er búin að komast að því að öll dönsk orð sem innihalda hljóðasamsetninguna -ag eru ill... drage og flag og slag eru sérstakir óvinir mínir!

miðvikudagur, mars 12, 2008

Upp og ofan

Einkunnir síðustu annar (og þar með námslán og fjármálin í heild) eru enn í rugli, ég er búin að hringja tvisvar í skrifstofu félagsvísindadeildar og þarf víst að ræða málin við einhverja manneskju sem aldrei er við og svarar ekki þó ítrekað sé búið að biðja hana að hafa samband við mig ;( pirringur...

Í ergelsi mínu eftir síðasta símtal (sem át í þokkabót upp alla inneignina mína) nennti ég ekki í bili að pæla meira í rannsóknarspurningunni "Er Færeyinga saga sérstök saga?", sem ég þarf þó að vera búin að skrifa uppkast að ritgerð um á mánudag/þriðjudag, heldur ákvað að hanga soldið á netinu og horfa á þýsk videó... UN-leikskólinn er nýja uppáhaldið mitt, þetta finnst mér fyndið :D Langar samt að vita hvað Dabbeljunior þýðir (ef það þýðir eitthvað sérstakt...)

En, það er víst best að halda áfram að læra, nóg er að gera!

mánudagur, mars 10, 2008

Jeg keder mig...

Já, mér hálfleiðist. Í augnablikinu allavega, þó ég hafi varla ástæðu til þess, gæti verið að lesa fullt af (mis)skemmtilegum námstengdum bókum, horfa á I, Claudius, hanga á Facebook, ganga frá eftir kvöldmatinn eða skúra gólfið... en ekkert af þessu hljómar neitt of heillandi þessa stundina og ég sit bara fyrir framan skjáinn og hangi.

Í ljósi þess sem að ofan er talið líkar mér reyndar ágætlega hvernig Danir orða þetta ástand, jeg keder mig gefur mun betri mynd en mér leiðist, þar sem sögnin er ópersónuleg og fornafnið í þágufalli... hjá Íslendingum er leiði eitthvað sem þvingað er upp á fólk og það hefur lítið sem ekkert um málið að segja - Danir horfast aftur á móti í augu við það að leiði er sjálfskapað ástand sem ég kalla yfir mig.

Jámm, einmitt, þessi litla hugleiðing vakti ykkur væntanlega til íhugunar og fyllti hjörtun gleði... ef ekki þá mæli ég með að þið tékkið á myndaalbúmunum, þar sem ég er loks búin að láta verða af því að dæla inn öllum Finnlandsferðarmyndum m.m. - meira að segja búin að skrifa undirtexta við allt nema myndirnar frá Tallinn, það gerist kannski einn daginn þegar ég er í stuði :)

Bendi á að albúmið "heimilismyndir" er alltaf í smávegis endurnýjun, ýtti því aðeins ofar í röðina til að undirstrika það ;)

mánudagur, mars 03, 2008

Örstutt

Ég hef fengið endurnýjaða staðfestingu á því að tequila er illt og ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að koma inn fyrir mínar varir, ekki einu sinni örfáir dropar af því.

Búin með fyrsta verkefni vetrarins, afrekaði það í morgun að fara á fætur kl. 8 og vera komin í lærdómsstellingar kl. 9. Ætli þetta sé fyrirboði nýrri og duglegri tíma?

Bestu þakkir fyrir allar afmæliskveðjurnar :) Fékk mér sushi í tilefni dagsins, partý verður haldið síðar (kannski bara á 24 ára afmælinu...? eða fyrr, hugsanlega).

Svo mörg voru þau orð.