fimmtudagur, mars 29, 2007

Drukknandi í setningafræði...

Þegar ég var nýbyrjuð í latínunni í haust og við hófumst handa við að læra um hið stór flókna fyrirbæri ablativus sagði kennarinn okkur frá fornmálabrautar bekk í MR sem fékk þá hugmynd að dimmitera sem mismunandi ablativusar. Þá fannst mér þetta afskaplega nördaleg pæling. Í dag finnst mér þetta aftur á móti ógurlega sniðug pæling. Út frá þjóðfræðilegu sjónarhorni mætti sjálfsagt orða þetta þannig að ég sé farin að tilheyra nýjum "hóp". Eða bara að ég sé orðinn meiri nörd en áður...

þriðjudagur, mars 27, 2007

Áætlanir. Mikið af þeim.

Ég er löt að blogga þessa dagana. Gallinn við það er að þegar mann loks langar að fara að skrifa eitthvað þá er annað hvort frá allt of mörgu að segja og þá nennir maður því varla, eða þá að það er ekki frá neinu að segja og þá nennir maður því ekki heldur. En jæja...

Ég hætti við að vera meira dugleg á Hlöðunni og ákvað að vera frekar dugleg á Árnastofnun. Ástæða? Ég ætla að eyða rúmlega einum þriðja af apríl í Danmörku og þar sem ég get tekið námsefnið með mér en öllu síður pakkað segulbandasafninu og öllum græjunum sem því tilheyra ofan í tösku er víst betra að klára sem mest af vinnuskyldunni þar áður en ég fer og geyma próflestur/verkefnavinnu frekar. Hvort ég verð svo jafn dugleg við að heimsækja bókasöfn og lessvæði KUA og ég er að plana verður svo að koma í ljós... jú, ætli það ekki, andskotinn hafi það, ef það er einhvern tímann tími til að slugsast er það víst áreiðanlega ekki síðustu tvær vikur annarinnar.

Ég þarf svo víst líka að nota tímann í Danmörku til að koma mér í viðtal hjá Thomas nokkrum Højrup (sem er þekktasti núlifandi þjóðfræðingur Dana eða þar um bil) og sannfæra hann um að ég megi sitja masterskúrs sem hann hefur yfirumsjón með að kenna næsta haust. Á maður að reyna þykjast vera ógurlega klár og tjá sig á dönsku......? Annars er allt að skýrast varðandi næsta ár, ég þarf víst að vera skráð í 10 einingar í fjarnámi plús BA ritgerð hérna heima og svo þessar 30 ETCS einingar sem er lágmark að taka til að fá að vera með í Erasmus dæminu. Sem þýðir að ég verð komin með 99,5 einingar næsta vor. Veit ekki alveg hvernig ég fór að því... lélegt skipulag alltaf hreint. En ef ég fæ að taka þetta MA námskeið fæ ég það vonandi metið inn í masterinn hérna heima og þá eru bara tvær einingar sem eru "ónýtar".

Hressandi ekki satt? Ef einhver var að velta því fyrir sér var ég s.s. að koma úr viðtalstíma hjá yfir-þjóðfræðikennaranum... eftir á að hyggja kannski ekki sniðugasti tíminn til að blogga ;D

föstudagur, mars 16, 2007

Björtu hliðarnar

Ég er BÚIN með handrita- og skjalalesturinn.

Allar þessar harðsperrur hljóta að skila sér í ógurlega stinnum vöðvum einhvern daginn.

Tvær vikur eru ekkert svo agalega lengi að líða.

Það er föstudagur og partý :D

Smælum framan í heiminn...

miðvikudagur, mars 14, 2007

Velkomin heim

Mér finnst alltaf jafn skondið þegar flugfreyjurnar bjóða mann velkominn heim við lendingu í Keflavík. Svo voðalega kammó eitthvað. Sama hvað við reynum að sannfæra okkur um að við séum stór og mikilvæg held ég að Íslendingar geti ekki neitað því að þeim finnst ágætt að vera smáþjóð.

Ég er sem sagt orðin 22 ára, búin að halda afmælisveislu og liggja í rúminu vegna þynnku daginn eftir, fara til Danmerkur, skoða skólann sem ég stefni á að fara í næsta vetur, labba Strikið þó nokkrum sinnum fram og til baka, sjá ógrynni af dönskum lögreglubílum og eitthvað töluvert minna af mótmælendum, reyna mitt besta til að lesa leiðabók í rigningu án þess að skemma hana og án þess að líta óhóflega mikið út eins og túristi, elda tælenskan mat (eða hjálpa til allavega), drekka einhver ósköp af tuborg og fyrst og fremst njóta þess að hafa Þóri í töluvert minni fjarlægð en venjulega :) Hvernig getið þið haldið að ég hafi haft tíma til að blogga? ;)

En allt hefur sitt gjald - frá og með gærdeginum er ég flutt upp á Bókhlöðu þar sem ég geri heiðarlega tilraun til þess að minnka heimavinnuskuldir mínar eitthvað. Bara svo þið vitið hvar þið eigið að leita þegar þið farið að sakna mín...

fimmtudagur, mars 01, 2007

Þið segið það...

Það heldur áfram að vera gaman að vera ég :)

Á morgun á ég afmæli og ætla af því tilefni að smala fólki saman á Glaumbar svona um áttaleytið, allir að láta sjá sig! Ekki verra að mæta snemma, þá eigiði séns á fríum bjór og hugsanlega afmælisköku líka ;)

Árshátíðin var æði, þó ég bíði enn í ofvæni eftir myndum (þeir taki til sín sem eiga!). Kórpartý eru alltaf snilld en þetta var óvenju mikil snilld :) Skaðaði heldur ekki að hafa Þóri á svæðinu, en hann flaug heim sérstaklega til að halda uppi fjöri og spila fyrir okkur :D Á miðvikudaginn fer ég svo til Danmerkur. Tóm hamingja á ferð :)

Eina sem ég get kvartað yfir þessa dagana er arfaslök einbeiting við heimanámið. Tekst ómögulega að koma mér í þann gír að langa til að taka viðtöl, þýða latneska texta eða læra einhverjar kenningar um stafréttar uppskriftir handrita, þrátt fyrir að sitja kvöld eftir kvöld með opnar bækur framan við tölvuna. O svei.