föstudagur, júlí 27, 2007

Sumar í bloggheimum

Endalaus sól... ekki furða að fólk nenni sem minnstu í þessu veðri og þá allra síst að blogga.


Það eru allir að telja niður að einhverju í sumar, þjóðhátíð virðist vera vinsælt efni hjá þeim sem eru hvorki að fara að gifta sig eða flytja erlendis. Sjálf þori ég varla að telja niður dagana að mínum flutningum, en geri það nú samt. 37 dagar... 14 þangað til ég fer til Florida, 14 dagar þar og 9 dagar heima eftir það. Eiginlega akkúrat núna á ég eftir að vinna 10 vinnudaga í sumar. Svo bara frí og flutningar. Útlönd og meiri útlönd.

Mér finnst eiginlega bæði spennandi og sorglegt að vera að flytja. Gaman að fara í nýjan skóla, kynnast nýju landi og þurfa að láta reyna á dönskuna sem maður á víst að kunna. Vera aðeins meira miðsvæðis í Evrópu og eiga þá vonandi betri möguleika á að hitta vini sem hafa verið að planta sér sitthvoru megin við Eystrasaltið síðustu ár. Svo tekst mér líka vonandi að vinna ógurlega skemmtilegt BA verkefni næsta sumar sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug ef ég væri staðsett á Íslandi. Aftur á móti finnst mér leiðinlegt að þurfa að skilja eftir hestinn minn og hætta í kórnum og hef lúmskar áhyggjur af því að missa voða mikið samband við fólkið sem ég er búin að vera að kynnast síðustu 1-2 ár.

En hvað er ég að röfla... það er sumar og sól og þá er skylda að vera glaður! ;)

föstudagur, júlí 13, 2007

Brottför staðfest

Jámm, sunnudaginn 2. september mun ég yfirgefa ykkur og líklega ekki snúa aftur fyrr en um jól. Búið að staðfesta skólavistina, erasmus samninginn, flugið og bara allt. 50 dagar í brottför... Og svo eru náttúrulega bara fjórar vikur í Bandaríkjaferð, veóveó...

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Wikipedia

Þó að ég vinni mikið á tölvur og sé alveg ágætlega dugleg að fikta mig áfram í þeim þá á ég það til að vera herfilega lengi að tileinka mér ýmsa möguleika. Það eru t.d. ekki nema svona 3-4 mánuðir síðan ég fattaði Wikipediu almennilega... en núna er ég orðin ógurlega húkt, ekki síst þegar ég þarf að fletta upp tilgangslausum staðreyndum til að nota í vinnunni.

(Ó)kosturinn við Wikipediu er samt sem áður sá að maður endar oft á því að komast að einhverju allt öðru en maður var að leita að í byrjun - þannig endaði leit mín að tímasetningum Heklugosa á 20.öld í dag á því að ég varð þess vísari að ég á sama afmælisdag og Kurt Weil, Dr. Seuss, Mikhail Gorbachev, Lou Reed og Bon Jovi... jú sko , ég er víst merkileg! ;)