mánudagur, janúar 19, 2009

Update

Það er komið net í Bólstaðahlíðina, og meira en 3 mánaða netleysi lokið. Þar með gæti ég líklega farið að blogga reglulega... Spurning hvað gerist. Netleysið hefur eiginlega gert það að verkum að maður er orðinn alveg út úr öllu nethangsi. Í ofanálag virðast flestir kringum mann ekki nenna að blogga heldur... Allir á facebook... En ég fer allavega að verða ínáanleg á msn á ný, sjáumst bara þar! ;)

föstudagur, desember 12, 2008

Flutningar og fleira skemmtilegt

Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég þarf að eiga stórt þvottahús í framtíðinni. Þetta misskilst líklega auðveldlega... mér finnst ALLS EKKI gaman að þvo þvott. Sem er líklega ástæðan fyrir því að þegar ég tek mig og geri það loksins bíða að minnsta kosti 4-6 vélar sem ég vil
þá bara KLÁRA á sem skemmstum tíma. Það útheimtir aftur á móti óhemju þurrk-pláss og þar kemur stóra þvottahúsið inn í myndina, þarf að vera pláss fyrir allar snúrurnar sem ég ætla mér að nota... Eða þá að maður fái sér effektívan þurrkara bara. Annars finnst mér líka hauga leiðinlegt að brjóta saman þvotti, svo að það er ágætt að leyfa fötunum að hanga soldinn tíma á snúrunni svo ég geti safnað orku og kjarki í millitíðinni.

En ég stend sem sagt á haus í þvotti þessa stundina og orðin uppiskroppa með snúrupláss, sveiattan. Hreina þvottinum verður síðan pakkað beint ofan í töskur (meðan töskupláss endist) og smám saman dregst vonandi draslið hérna saman í flutningshæft ástand. Því þrátt fyrir að pappírsvinnan kringum þennan leigusamning hafi gengið öll á afturfótunum í vikunni stefnir allt í að við flytjum núna á sunnudag eða mánudag í það síðasta :D Það verður óskaplega indælt, þá tekst manni kannski að ná upp einhverjum metnaði fyrir að hafa ekki allt í drasli hjá sér og komast vonandi í eitthvað örlítið jólaskap... það gengur nefnilega líka eitthvað voða takmarkað, þrátt fyrir að ég föndri jólaskraut og syngi jólalög í vinnunni flesta morgna. Jólalögin fá allavega að óma meðan ég held áfram að taka til, og aldrei að vita nema ég skrifi á nokkur jólakort milli þvottavéla... og skoli þessu svo öllu niður með smá jólabjór í kvöld ;)

föstudagur, desember 05, 2008

Tilraun til upprisu

Jæja, þá er komið að því að reyna að endurvekja þetta auma blogg, þegar meira að segja mamma mín er farin að tjá sig um þögnina sem hér hefur ríkt...

En ég er sem sagt, eins og ég vona að flestir viti nú, löngu komin heim frá Póllandi og snúin frá Danmörku til Íslands. Það var ekki alveg sársaukalaust, þó að það hafi verið indælt að hitta alla Íslendingana sína á ný tók við ansi langdreginn og leiðinlegur kafli þar sem árangurslaus atvinnuleit og húsnæðisleit ásamt almennum blankheitum og óvissu gerði sálartetrinu gramt í geði. Því er ekki að neita að ég óskaði þess oft á þessum vikum að ég hefði bara verið kyrr í Skandinavíu og þyrfti ekki að pæla í öllu þessu rugli... Hress og sjúskuð partý um hverja helgi bættu ástandið nú samt að einhverju leyti ;) Kórinn hefur alltaf staðið fyrir sínu!

En allt rugl tekur enda um síðir... eða dregur úr því að minnsta kosti. Síðustu 2 vikurnar hef ég verið að kenna forföll upp á næstum hvern dag í Skólanum á Heimsenda og á morgun er stefnan að hitta verðandi leigusalann okkar og skrifa undir húsaleigusamning... Ef allt gengur að óskum verður svo flutt öðru hvoru megin við næstu helgi :D

Akkúrat núna sit ég svo bara með snakk og gos og drekk í mig hámenninguna Mamma Mia með tveimur gelgjum og veikum ketti. Það er þó aldrei að vita nema kvöldið beri eitthvað annað og meira með sér, partý sem býður og spurning að kíkja, þó ekki sé nema til að skála fyrir Þóri - sem rúllaði upp mastersvörninni sinni í morgun og er nú opinberlega orðinn verkfræðingur :D Til hamingju með það, ástin mín ;*

mánudagur, október 20, 2008

Farewell to Poland

Já, þá líður að leiðarlokum...

Ég fer frá Kraków kl. eitt á morgun, rúta til Katowice, flug til Malmö, verð komin til Kaupmannahafnar um sjöleytið vonandi. Á miðvikudaginn þarf ég að redda skrilljón hlutum þar, en á fimmtudaginn lendi ég svo á Íslandinu fagra, og get farið að deila áhyggjum ykkar hinna af the big finance crisis. Hef ekki verið of dugleg að blogga þessa síðustu daga (fremur en endranær), en myndir frá ferðinni koma inn á picasa albúmin mín fljótlega eftir heimkomu. Netið hér hefur einfaldlega verið of hægt til að það sé séns að setja þær inn. Ferðasaga, umfram það sem nú þegar hefur birst, verður svo bara sögð munnlega... Enda er skylda fyrir alla að finna sér tíma til að hitta mig sem fyrst!! Er allavega ekki að koma til lands frosts og fjármálakreppu til að hanga ein með sjálfri mér og láta mér leiðast...!! Svo, gott fólk, nú er um að gera að panta tíma meðan dagskráin mín er enn frekar laus ;)

fimmtudagur, október 09, 2008

Af því allir eru að tala um efnahagsmál...

...bloggað laust fyrir miðnættið í gær, miðvikudag - sökum tæknilegra erfiðleika (lesist: krappý nettengingar sem ég er að stela frá einhverjum í næsta húsi) reyndist ómögulegt að koma færslunni á netið fyrr en nú...

Við stóðum við orð okkar og fórum og skoðuðum Smocza Jama á sunnudaginn. Drifum okkur "snemma" á fætur (m.v. að það var sunnudagur allavega!) og vorum komin af stað í túristaleiðangur um 11 leytið. Þrömmuðum upp í gegnum Wawel kastalann og niður laaaangan hringstiga inn í hellinn, svo kemur maður út við ánna Wisłu.

Drekinn ákvað að spúa eldi einmitt meðan Hjalti var að pósa ;)

Veðrið var gott og við nenntum ekki beint heim aftur að gera ekki neitt, svo að við settumst inn á bátakaffihús á ánni. Þaðan nenntum við enn ekki heim, svo við fengum okkur spássitúr meðfram ánni. Ég var agalega hrifin af útsýninu yfir og við ána, og smellti af einhverjum slatta af myndum, þær enda vonandi á netinu einhvern daginn þegar tengingin mín er hraðari en hér! Á göngunni rákum við augun í þessa byggingu...

...sem reyndist við nánari skoðun vera kirkja + klaustur, kallað Skałka. Þar eyddum við ágætum tíma í að rannsaka garðinn í kring, en þar var bæði einhvers konar brunnur tileinkaður dýrlingi kirkjunar og svo ógurlegt altari, tileinkað sjö öðrum helgum Pólverjum, m.a. var páfinn þarna og einhverjir kóngar og drottningar sem höfðu unnið sér sitthvað til heilagleika. Undir kirkjunni var síðan ógurlegt grafhýsi, þar sem nokkrir vel þekktir Pólverjar liggja grafnir. Frekar flott alltsaman :)

Bliknaði þó í samanburði við það sem blasti við þegar inn í kirkjuna kom, en hún var með þeim fallegri sem ég hef séð. Eyddi löngum tíma í að reyna að sannfæra myndavélina mína um að það væri hægt að taka myndir án flass en í fókus... það tókst svona temmilega ;)


Frá Skałka héldum við svo loks áfram og höfðum ákveðið að rölta inn í Kazimierz til að borða. Á leiðinni rákumst við samt á aðra kirkju, sem við gátum ekki sleppt að kíkja inn í líka. Hún var ekki slæm, meira svona allt gyllt og klassískt... Á báðum stöðum lentum við ofan í sama skólahópnum, sem var greinilega á einhvers konar kirkjurölti (sáum þau svo enn einu sinni fyrir utan þriðju kirkjuna), sem var ágætt, erfiðara að hafa samviskubit yfir að trufla bænagjörð fólks með því að vera að ráfa um og taka myndir þegar 20 unglingar eru hlaupandi um :p

Eftir þennan ofur kirkjurúnt tókum við strikið beint aftur á hljóðfærastaðinn, þar sem við borðuðum um daginn, í Kazimierz. Hann olli ekki vonbrigðum frekar en áður, svo við sátum í næstum 2 tíma og borðuðum og drukkum Paulaner :D

Mér finnst píanóið í gólfinu alveg ógurlega kúl...

Þessi "rólegi sunnudagur með smá túristastælum" varð s.s. alveg frekar brjálaður á endanum. Um kvöldið enduðum við svo á bar með Mörtu og meðleigjundum hennar, þó við sætum nú ekki fram á nótt í þetta sinn ;)

Í gær var aftur á móti mega partý, Marta átti afmæli og hélt veislu á Tygiel pub, þar var dansað, sungið og drukkið af afli fram á nótt! :D Ég veifaði myndavélinni óspart (eða aðrir í minn stað) og myndir eru á leiðinni inn á netið, svona eins hratt og lélega stolna nettengingin mín leyfir... Þær er (eða verður!) að finna hér (ath. ný myndasíða, hin er orðin næstum full...) Mæli endilega með að þið skoðið þær, ekki hægt að troða öllum myndum hér inn... finnst eiginlega full mikið af þeim nú þegar, en svona "svo fórum við og skoðuðum þetta og þetta og þetta" frásagnir eru ekki mjög skemmtilegar annars :/ Hvað er líka gaman af myndum ef maður sýnir þær engum! ;)

laugardagur, október 04, 2008

Fréttir, fréttir og myndir!

Jæja, hvað varð nú um bloggdugnaðinn mikla... Best að reyna að halda honum við ;)

Um síðustu helgi fórum við Hjalti, Marta og Tomek til Lanckorona, gamals smábæjar við rætur fjallanna. Lögðum af stað um hádegi á laugardag að leita að rútunni okkar á ansi frumstæðu og óskipulögðu rútubílastæði niðri í bæ, þar sem smárútur komu og fóru án þess að það virtist vera nein regla í gangi. Þegar við mættum á staðinn var bíllinn okkar hvergi sjáanlegur og ekki hressti það okkur mjög mikið þegar maður vatt sér upp að okkur og útskýrði að næsta rúta á undan, sem átti að fara kl. 10, hefði bara aldrei komið! Allt fólkið sem hafði ætlað með henni var s.s. bara enn að bíða... Við stóðum því og tvístigum í svona 20 mínútur, þar til bölvaður bíllinn mætti loks örfáum mínútum fyrir eitt, þá tók við kapphlaup og troðningur að koma sér inn, þar sem að bíllinn var ekki alveg að höndla þennan tvöfalda skammt af fólki. Það tókst samt og við náðum í sæti aftast í bílnum, sem varð á endanum frekar mikið troðinn...!

Við sátum svo bara eins og sardínur í dós þar til við komumst á leiðarenda. Það kom í ljós að það var einhvers konar ljósmyndanema-ráðstefna í gangi í þessum bæ og í þeim hóp voru krakkar sem Tomek kannaðist við, svo við byrjuðum á að þramma með þeim inn í skóg að leita uppi gamla sundlaug - þurftum hvort eð er að bíða 2-3 tíma eftir að komast inn á hostelið, sem var bara lok lok og læs til kl. 17. En sundlaugin í skóginum var nú bara frekar flott, gat alveg séð fyrir mér að það væri kúl að baða sig þarna á heitum sumardögum...

Alveg sniðið fyrir sundlaugarpartý líka, væri hægt að hafa grill og drykki á bakkanum og svona ;)

En hún hefur víst ekki verið notuð í mörg ár, og stendur venjulega tóm, bara vatn í henni núna því að það var búið að rigna svo mikið. En þetta var einmitt fyrsta helgin í nokkrar vikur sem var gott veður, við heppin :D veðrið var svo reyndar fínt meira og minna í vikunni, nema í dag var hellirigning á ný, ógurlega haustlegt veður og laufin hrundu af trjánum...

Tomek að fara að stinga sér til sunds :D

Eftir að við komumst svo inn á hostelið fórum við og fengum okkur að borða í bænum, sem var voða lítill og sætur með fullt af gömlum tréhúsum frá 19.öld, um kvöldið var svo drukkið á hostelinu, fyrst með ljósmynda-nemunum, en þegar þau (og Tomek) voru farin að ljósmyndanördast full mikið, setja upp stúdíó í einu herberginu og fara út að taka myndir af stjörnunum og svona (grunar að ég viti núna hvernig ekki-kórfólk upplifi söng stemninguna í kórpartýum! :p) enduðum við Marta og Hjalti bara á kojutrúnó í staðinn ;)

Daginn eftir þrömmuðum við upp að kastalarústum sem eru í hlíðinni ofan við bæinn, byggður af Kazimierz mikla á 14.öld skildist mér, og þrömmuðum svo eitthvað meira gegnum skóginn, týndumst smá í leit að einhverri kirkju (sem ég held samt við höfum fundið á endanum, eða þá að við fundum allavega einhverja aðra kirkju) og lágum svo í leti í sólinni á bæjartorginu meðan við biðum eftir rútunni til baka. Myndasyrpa...:

Kastali.

Marta og Tomek í skóginum.

Kirkjugarðurinn við þessa kirkju sem við fundum svo á endanum var frekar voldugur.

Marta, Tomek og Hjalti í sólinni.

Gömlu húsin í Lanckorona.

Við biðum reyndar víst eftir rútunni á vitlausum stað, en hún stoppaði nú samt þó við fengjum smá tiltal fyrir að vera ekki á "réttu stoppistöðinni". Það reyndist aftur á móti vera afar heppilegur misskilningur hjá okkur þar sem að allt ljósmyndara liðið kom upp í þar og bíllinn var á endanum enn troðnari en í fyrra skiptið, en þá vorum við löngu búin að koma okkur vel fyrir í sætunum ;)

Á mánudaginn héldum við svo aftur í skólann. Seinnipartinn fórum við í mjög áhugaverða skoðunarferð til Nova Huta, hverfis sem var planað og byggt að fyrirskipan Stalíns á 6.áratugnum og er hugsað sem eins konar útópísk kommúnistaborg, en ég gleymdi því miður myndavélinni heima :( stefnum samt á að fara þangað aftur seinna, skoða aðeins meira á okkar eigin vegum og taka þá myndir... sjálfsagt nóg overload af myndum í þessari færslu samt! ;)

Síðan þá höfum við bara eytt tíma okkar meira og minna í skólanum á daginn og á kaffihúsum og börum á kvöldin ;) Ég hef ekki verið alveg nógu dugleg að veifa myndavélinni við svoleiðis tækifæri, en suma staði eigum við nú pottþétt eftir að heimsækja aftur, t.d. einn æðislegan stað í Kazimierz hverfinu þar sem allt er skreytt með (mis)gömlum hljóðfærum, mjög töff - og góður matur líka :D Þar smakkaði ég annars einmitt afar spes útgáfu af bjór, hélt ég væri bara að panta venjulegan bjór "með djús" (þá er sett síróp, yfirleitt með hindberjabragði, út í bjórinn, voða vinsælt stelpu-dæmi hér) en þá reyndist hann vera heitur! Mjög sérstakt, og ekki eins vont og það hljómar, en kannski ekki eitthvað sem ég mun leggja í vana minn að drekka heldur ;)

Eitt kvöld tók ég þó myndavélina með, aðallega til að festa nýja háralitinn minn á filmu ;D

Ótrúlega mikið í stíl við vegginn...!

Í gær, föstudag, var svo síðasti kennsludagur úr þessu námskeiði, sem endaði með prófskírteinaafhendingu og kveðjuhófi. Þar var teigaður ókeypis bjór milli 2 og 4, svo þegar við komum heim fannst okkur ekkert taka því að hætta að drekka svo við skelltum í okkur því sem til var af bjór í ísskápnum og héldum svo niður í bæ um sexleytið. Það var þó greinilega ekki mínútu of snemma - háskólinn er nýbyrjaður og allir stúdentarnir greinilega mættir á djammið, svo að það var með naumindum að við fengum borð. Marta og Tomek joinuðu svo aftur síðar um kvöldið, og við sátum að sumbli fram undir miðnótt. Dagurinn í dag fór svo bara í þynnku, pizzuát, þvæling í Galeria Krakowska og árangurslausa sokkaleit, og svo videógláp nú í kvöld. Á morgun stefnum við á að vera hressari, túristast í Smocza Jama (drekahellirinn undir Wawel kastalanum) og hugsanlega tékka á sunnudagsstemningunni á börunum ;) Eftir helgina byrjar nýtt námskeið og þá förum við í framhaldshóp, en þeir byrja ekki fyrr en á þriðjudag, svo það er um að gera að nýta 3 daga helgina ;D

ps. Hef greinilega smitast frekar mikið af mynda-brjálæðis-bloggum frá Birnu, sorry Birna mín að ég sé að herma!

föstudagur, september 26, 2008

Flöskudagur

Nú erum við búin að læra pólsku í viku, og hver skyldi árangurinn vera? Látum okkur sjá...

Mam na imię Sigrun i mam dwadzieścia trzy lata. Jestem z Islandii ale teraz mieszkam w Kopenhadze. Jestem przewodnikiem ale szukam nowej pracy. Szukam też mieszkania na Islandii. Mam na Islandii moja rodzina i mój chłopak. Teraz jestem w Polsce, w Krakowie, bo uczę się języka polskiego. Język polski jest trudny, ale ja interesuję się językami obczymi. Dzisiaj jest piątek i mam piwo!

Ábyrgist þó að það er slatti af stafsetningar/málfræðivillum í þessu ;) Annars er allt hið besta að frétta, veðrið breyttist loks til hins betra í dag og flóa/flugubita faraldurinn sem ég lenti í er í rénun (segi kannski betur frá honum síðar), hætt að líta út eins og nashyrningur en er meira eins og ég sé með svona gasalega myndarlega nornavörtu á nefinu... Læt ekki sjá mig utandyra án plásturs enn allavega :p Stefnan er á bíó í kvöld og ferðalag til Lanckorona á morgun. Þá fæ ég kannski loksins tækifæri til að smella af einhverjum myndum án þess að finnast ég eitthvað furðuleg...

Annars óska ég ykkur bara gleðilegs flöskudags og vona að sem flestir finni sér eitthvað sniðugt að gera um helgina :D Miłego weekendu i na zdrowie!

þriðjudagur, september 23, 2008

Auf Polnisch

Jestem w Krakowie! Og hér er sko fjör...

Búin að vera í tímum í tvo daga, fer alveg að koma að því að maður geti sagt eitthvað af viti. Það er kennt frá 9.30-14 og svo er eitthvað kúltúral prógramm flesta seinniparta. Hingað til höfum við reyndar skrópað báða dagana; í gær slepptum við sightseeing um Kraków til að hafa tíma til að kaupa símakort og strætókort og fara með Mörtu á kaffihús - í dag ákváðum við svo að fórna þjóðdansakennslu til að læra heima. Það verður væntanlega möguleiki á að dansa aftur einhvern daginn í seinni helmingi mánaðarins þar sem prógrammið rúllar á 2ja vikna tímabilum. Ég skellti mér samt í welcome party í gær og endaði á að joina hóp af Þjóðverjum á bar eftir það. Þýskan mín fær kannski álíka þjálfun og pólskan hér, a.m.k. eru vel ríflega helmingur þátttakenda í skólanum þýskumælandi. Jafnvel þeir sem ekki eru frá Þýskalandi (heldur t.d. Úkraínu og Frakklandi) tala oftar en ekki þýsku til að fá að vera með í hópnum... En eftir tvær vikur verða náttúrulega allir orðnir reiprennandi á pólsku sem verður þar með lingua franca næturlífsins, er það ekki!? ;)

Maður er svo annars auðvitað best farinn að kynnast þeim sem eru í sama bekk, enda eyðir maður tæpum 5 tímum á dag í návist þess hóps. Í hópnum okkar eru 11 manns, á öllum aldri og af fimm þjóðernum. Þar er Lynn frá Philadelphia, afskaplega mikill Kani en samt afskaplega næs, líklega sú sem kann mest en finnst hún ekkert vita og neitaði að færa sig upp í erfiðari hóp þegar kennarinn bauð það. Aðrir enskumælandi eru hressi Írinn James og the real English gentleman Carl, svo afskaplega high-middle class Breti að maður verður stundum að passa sig að fara ekki að hlæja. Restin eru svo Þjóðverjar; píanóleikarinn Marianne sem er að læra pólsku til að geta auðveldar farið í framhaldsnám í slavneskumælandi landi og ruglukollurinn Erwin sem virðist ekki alveg vita hvernig hann endaði þarna; hin feimna Corinne, sem á pólskan eiginmann og verður alltaf óskaplega vandræðaleg þegar fólk á í erfiðleikum með að bera fram þýsk-pólska eftirnafnið hennar; Andreas, frekar þögull og til baka en alltaf með allt á hreinu og sneggstur að öllu; og að lokum félagarnir Alfred og Ingo sem eru aldurforsetar hópsins, yndislega indælir en afskaplega kómískir og frekar utan við sig - Hjalti kallar þá Skafta og Skapta og það er víst nokkuð nærri lagi ;)

Í kvöld er annars fyrsta kvöldið í ferðinni sem ég er blá-edrú, þetta er náttúrulega ekki hægt, en inn á milli er nú líka kannski í lagi að taka því rólega :p Á morgun stefnum við á Jazz konsert og þá heimta ég meira fjör! Í millitíðinni finnst mér að þið eigið að kommenta, eruð þið nokkuð öll búin að gleyma mér?!