fimmtudagur, desember 20, 2007

Þrátt fyrir allt sem íþyngir...

Síðasta skólatörnin fyrir jól fór nú ekki alveg eins og ég hafði ætlað mér... Eftir lítinn og lélegan svefn, litla og lélega næringu, stress svo lá við uppköstum og vonlausa baráttu við tímann og allt sem ég átti eftir að gera til að þessi ritgerð mín kæmist á skilanlegt form gafst ég grátandi upp á mánudagsmorguninn og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég hefði klúðrað þessu verkefni. Ég hafði hangið saman á þrjóskunni fram að því, en það er víst bara ekki alltaf nóg...

En þótt þetta sé kannski ekki skemmtilegasta leiðin til að komast í jólafrí, þá er ég nú samt komin í eitt slíkt. Var reyndar ansi svekkt og súr á mánudeginum (plús svefnleysi og orkuleysi, sem ekki var til að létta skapið), og fékk svo aftur skell á þriðjudeginum, þegar veskinu mínu var stolið í strætó, þrem tímum áður en ég átti flug heim, svo ég fékk að enda Danmerkurdvöl mína þessa önnina á símtölum í kortafyrirtæki og skýrslugerð hjá hægvirkustu (langar helst að segja tregustu, en þeir virtust nefnilega ekki beint heimskir, bara sjúklega nákvæmir, ekki baun að flýta sér og ekki of flinkir á tölvukerfið sem þeir notuðu við að fylla út skýrsluna) lögreglumönnum sem ég hef fyrir hitt. Flugið heim var svo heldur ekki til að hrópa húrra fyrir, vatn lekandi úr loftinu, sætaraðir sem voru svo þröngar að það var varla pláss fyrir mínar litlu lappir og loftræsting sem vildi bara annað hvort hafa 30°hitamollu eða 12 vindstiga blástur með tilheyrandi loftkælingu...

EN! ég er allavega komin heim í frí, búin að vera rúman sólarhring á landinu og nýt þess að kúra í gamla herberginu mínu hjá pabba og mömmu, búin að lesa heila sakamálasögu, baka laufabrauð og hitta þjóðfræðinema, hlusta á systur mína spila á jólatónfundi og fara í jólaklippingu... á morgun er það svo jólaskemmtun í skólanum hjá hinni systur minni (sem á að vera Sandy í Grease í einhverri sýningu - ofur töff auðvitað!), jólagjafainnkaup og fleira jólalegt stúss :) Kannski tekst mér m.a.s. að draga eitthvað af því fólki sem hefur verið að hóta að hitta mig á kaffihús!

Já, jólin fara að koma... þrátt fyrir allt :)

miðvikudagur, desember 12, 2007

Allt í steik

Ég afrekaði það að læra alla aðfaranótt mánudagsins, að glósa fyrir færeyskupróf og skrifa uppkast að ritgerð sem ég þurfti að skila til kennara á mánudagsmorgni fyrir vejlednings tíma á þriðjudag. Síðan afrekaði ég það að sofa allan mánudaginn, frá hádegi og eiginlega bara fram á næsta morgun. Og vakna svo með magapest á þriðjudagsmorgninum. Fuss.

Einhvers staðar þarna í millitíðinni afrekaði ég það líka að ná færeysku, meira að segja bara með sóma, fékk 10 skv. furðulega danska einkunnaskalanum (sem er orðinn enn furðulegri eftir nýleg afskipti menntamálaráðuneytisins) - en það myndi líkast til samsvara ca. 9 á Íslandi. Það sorglega er reyndar að mér finnst ekki ólíklegt að þetta verði hæsta einkunnin mín á önninni, og hún verður ekki einu sinni metin :( En, reyndar þá fæ ég víst bara "staðið/fallið" fyrir alla skiptinámsáfanga inn á íslenska einkunnaspjaldið, svo það breytir kannski ekki öllu. Finnst það samt pínu sorglegt...

En jæja, næst á dagskrá er víst bara að hrista af sér þessi f**king veikindi og reyna að klóra sig sem best út úr lokaverkefninu mínu í Musik og identitet... og ákveða einhvers staðar þar á milli hvað ég ætla að skrifa um í seinni ritgerðinni í Globale moderniteter og kokka upp eitthvað rugl til að segja kennaranum í vejledning fyrir það á föstudaginn (dettur ekki í hug að byrja á henni fyrr en eftir jól samt, þarf ekki að skila fyrr en 14.jan.)... ó hvað ég verð hamingjusöm kl. 15 á mánudaginn, þegar ég verð komin í jólafrí!

laugardagur, desember 08, 2007

Nokkrar staðreyndir úr lífi mínu þessa stundina

Ég er þreytt.

Ég má samt ekki vera að því að vera þreytt því að fyrir hádegi á mánudag þarf ég bæði að vera búin að taka lokapróf í færeysku og skila drafti að 15 síðna rannsóknarritgerð á dönsku (sem ég er auðvitað ekki komin of langt með, frekar en mér er lagið þegar svona verkefni eiga í hlut) ásamt fylgiskjölum, þ.á.m. viðtölum og spurningalistum sem ég þarf líka að þýða á dönsku.

Það væri því mun gáfulegra að afneita þreytunni og fara að læra, en að liggja hér og blogga um það að ég sé þreytt.

Eftir 9 daga verð ég búin (eða er að minnsta kosti eins gott að ég verði búin...) að skila öllu af mér sem ég þarf að klára í skólanum fyrir jól.

Eftir 10 daga, að kvöldi 18.desember kem ég heim í jólafrí, og þarf þá ekki að hugsa meira um dönsku, verkefni, próf eða neitt annað í svona 2-3 vikur. Einhvern tímann milli 7. og 14.jan. þarf ég samt að snúa aftur og halda áfram með verkefnavinnu og prófundirbúning, held að ég verði ekki formlega búin í prófum fyrr en um 20.jan. En a.m.k. svona aðeins fram yfir áramót ætla ég að leyfa mér að vera áhyggjulaus í jólafríi.

Ég er búin að ákveða að framlengja Erasmus samninginn minn um eina önn, til að geta tekið eitt auka námskeið hér, og náð þar með nógu mörgum einingum til að ég fái sumarlán. Bæði alþjóðaskrifstofan hér og heima virðast bara voða happy með það að ég verði skiptinemi áfram, en ég á samt eftir að ganga frá því... vona að það verði ekki of seint loks þegar ég kem því í verk.

Við erum búin að flytja, og meira að segja koma okkur sæmilega fyrir. Nú búum við víst orðið á mörkum Nørrebro og Bispebjerg (sem er hverfi í NV-Kaupmannahöfn). Hef alla trú á að hér verði gott að vera, sérstaklega þegar sólin fer að hækka á lofti við getum farið að liggja í sólbaði á svölunum.

Einhvern tímann þegar ég er ekki þreytt og á að vera að pikka inn viðtöl eða læra fyrir færeyskupróf þá kannski set ég inn myndir af nýju heimkynnunum. Og jafnvel, hugsanlega Finnlandsferðinni minni og einhverju fleiru sem gerst hefur síðan um mánaðamótin september-október, svona í leiðinni.

Oh... ég er samt svo þreytt...