mánudagur, september 24, 2007

Ég verð að blogga oftar...

...svo að þetta verði ekki alltaf svona ógurlega langt hjá mér! En hvað um það...

Ég er búin að vera á leiðinni að setja í þvottavél í meira en klukkutíma... en það er allt of erfitt að standa upp úr stólnum og labba niður í kjallara. Held ég sé búin að ákveða að ég nenni ekki fram að þvo fyrr en ég þarf hvort eð er að fara fram og elda... sem verður eftir svona 20 mínútur... best að blogga þangað til!

Fæturnir mínir hafa samt ástæðu fyrir að vera latir og nenna ekki að labba niður í þvottahús, ég var nefnilega svo ógurlega dugleg að skokka einhver ósköp áðan. Komst að því í síðustu viku að það er voðalega hentugt að skokka í svona garði/skógi/órækt sem er hérna bara rétt hinumegin við 3 götur. Komst aftur á móti að því í dag að það er líklegast best að gera það meðan er enn bjart, það var allavega frekar drungalegt inn á milli trjánna í myrkrinu (Dönum finnst götulýsing ekki góð hugmynd nema upp að því marki sem er algerlega nauðsynlegt) og ég átti allan tímann hálfpartinn von á því að einhverjir rónar og heimilisleysingjar tækju upp á því að birtast út úr runnunum og bögga mig... en ég hljóp þá kannski bara hraðar fyrir vikið ;)

Það eina sem er ekki nógu sniðugt við þessa uppgötvun mína er að við erum að fara að flytja héðan eftir bara 2 daga... og þá þarf ég að finna mér nýjan stað til að vera dugleg og skokka á! Flutningarnir eru aftur á móti mjög sniðugir að öllu öðru leyti :D ég hlakka til að eiga meira pláss, eldhús sem ég þarf ekki að deila með heilli hæð af fólki og m.a.s. fínasta borðstofuborð :) Við fáum nefnilega öll húsgögn með íbúðinni, sem við erum að fara að leigja af norskri stelpu fram að áramótum. Eftir að hafa skoðað alla möguleika sem okkur duttu í hug í íbúðamálum síðustu 2-3 vikurnar vorum við komin að þeirri niðurstöðu að kollegíin væru ekkert að fara að flýta sér að bjóða okkur húsnæði, svo að þetta var ágætis millibilslausn :) En nýtt aðsetur okkar, frá og með miðvikudeginum, verður s.s. í Vanløse, sem er hverfi aðeins norðvestan við miðbæinn í Kaupmannahöfn. Lofa nýjum myndum þegar við verðum flutt ;)

Svo er ég að fara til Finnlands 12.október; mamma, pabbi, Helga og Hildur koma í heimsókn 24.október og Marta og Tomek ætla að koma 29.nóvember :D

Og þá er ég farin að elda...!

föstudagur, september 14, 2007

Góður dagur

Á fyrsta fundinum sem ég fór á í skiptinemaprógramminu hér fengum við smá fyrirlestur um "kulturshok", eins og þeir vilja stafsetja það hér ;) Þar var því haldið fram að flestir skiptinemar gengu í gegnum ferli sem byrjaði á "tourist/honeymoon period" (allt er nýtt og spennandi og svo margt að gera og skoða), svo kæmi "shock period" (hversdagsleikinn tekur yfir, maður fer að reka sig á veggi, sakna heimalandsins og ergja sig yfir öllu sem er öðruvísi en það sem maður þekkir) og endi svo á "acceptance period" (farinn að læra á kerfið og skilja hvernig hlutirnir virka, lendir sjaldnar í veseni og fer að leggja sig fram um að passa inn í samfélagið).

Ég held að þegar maður fer milli landa / samfélaga sem eru jafn lík og tengd og Ísland og Danmörk þá verði þetta meira þannig að maður upplifi öll þessi "stig" í einu. A.m.k. sveiflast ég núna milli þess að finnast einn daginn allt vera voðalega skemmtilegt og spennandi, gaman í skólanum, ákveðin í að finna út úr öllu því sem ég er ekki enn að fatta við kerfið hérna og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera, en næsta dag er ég ekki mönnum sinnandi því allt er svo ömurlega mikið vesen og leiðindi, ég skil ekki neitt og ekkert vill ganga upp hjá mér...

En í dag er allavega búinn að vera góður dagur :) Ég fór og keypti áskriftarkort í lestirnar, sem er búið að standa til lengi, stofnaði mér reikning í dönskum banka og fór svo og talaði við námsráðgjafa í tónlistarfræðideildinni, svo að ég geti skráð mig þar, svo að ég megi taka prófið í kúrsinum sem ég er í þar og til að ég fái aðgang að bókasafninu þar, en allt lesefni fyrir umræddan kúrs er geymt þar og svo á maður bara að ljósrita... síðan kom ég heim, þvoði allan þvottinn, tók til og skúraði og ætla núna að fara að baka snúða, og svo erum við að fara út að borða sushi í kvöld, í tilefni þess að Björn, vinur Þóris, var að verja mastersverkefnið sitt í morgun og því líkast til formlega orðinn verkfræðingur. Og tölvan mín ákvað meira að segja að henni þóknaðist að tengjast netinu, svona í tilefni dagsins! :D

En ég var samt búin að lofa einhverjum myndum, áður en ég fer að baka... ;)

Við fórum s.s. í siglingu á svona bát í síðustu viku, og sigldum um síkin í Kaupmannahöfn.

Í bakgrunni eru höfuðstöðvar Maersk, "húsið með bláu augun"... Að sögn Dana er Maersk næst þekktasta danska vörumerki í heiminum (næst á eftir Carlsberg auðvitað!), en ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að það væri danskt... hefði helst giskað á hollenskt. En það var víst líka gaurinn sem á Maersk sem lét byggja þetta óperuhús, sem stendur beint á móti Amalienborg.
Danir eru mjög hrifnir af nýstárlegum arkitektúr... á öðrum stað við sama kanal er svo verið að byggja nýtt þjóðleikhús sem er ekki alveg jafn funky og þetta, en samt frekar spes.

Hér eru gosbrunnarnir í Amalienborg, ef vel er gáð má sjá sama óperuhúsið í bakgrunninum ;) þetta stendur s.s. í beinni línu, sitthvoru megin við kanalinn, og bak við Amalienborg er síðan Friðrikskirkjan/Marmarakirkjan, sem mér skilst að sé með eitt stærsta hvolfþak í Evrópu.

Þórir á torginu í Amalienborg að lesa leiðabók:

Þar voru líka svona skemmtilegir hallarlífverðir að marsera, láðist samt að taka mynd af þeim... almennt séð hef ég greinilega verið mun duglegri að taka myndir af húsum en fólki, en það helgast kannski af því að ég hef ekki haft neitt ógurlega mikið af fólki að taka myndir af, og þó Þórir sé náttúrulega sætur dugar kannski ekki að birta eintómar myndir af honum ;)

Varð líka að skella hér inn einni mynd af kóngastyttu, af þeim er nú víst sannarlega nóg! Minnir að þetta hafi verið Friðrik IV... þori samt ekki að sverja fyrir það, þeir eru allir meira og minna eins. Þessi skartar þó afar skemmtilegu höfuðskrauti, ef vel er að gáð...

mánudagur, september 10, 2007

Framhald...

Jámm, byrjunin á þessu málæði mínu er hér í næstu færslu á undan. Hvert var ég nú komin...

Já, það fór s.s. þannig að þessir gaurar sem héldu því fram að þeir þekktu mig settust hjá hópi af krökkum sem þeir þóttust líka þekkja, en þekktu samt ekki neitt eins og ég komst að þegar ég fór að tala við það. Frank Jensen fannst hann endilega þurfa að kenna mér að kynnast fólki svo mér leiddist ekki svona mikið, en m.v. hans hugmyndir um hverja hann þekkti og hverja ekki fannst mér það ólíklegt til árangurs. Þegar ég fór svo að tala við stelpuna sem sat á móti mér við borðið kom í ljós að hún þekkti heldur ekkert af þessu fólki, hafði bara sest þarna og þóst þekkja einhvern af því að vinkona hennar var búin að vera úti að reykja í 2 klukkutíma og henni leiddist. Ég veit ekki alveg... ég er greinilega ekki alveg nógu outgoing til að finnast í lagi að setjast inn í einhvern hóp þar sem ég þekki engan og "þykjast" vera með... en svoleiðis virkar það kannski bara hér?

Að minnsta kosti endaði ég á því næsta klukkutímann að eiga ógurlegt samtal við Christel, fyrsta árs nema í grísku, þar sem vinkona hennar var ekkert á því að snúa aftur úr reykingapásunni. Jensen-gaurarnir voru ekki alveg nógu sáttir við það áhugaleysi sem þeim var sýnt, a.m.k. fóru þeir á klósettið og komu aldrei aftur. Við söknuðum þeirra ekkert agalega og héldum bara áfram að drekka bjór, skammast yfir fullum strákum og erfiðum vinum, hrista hausinn yfir misgáfulegu tónlistarvali og tala einhver ósköp um Ísland og Danmörku. Þegar reykingavinkonan sneri svo loks til baka þá var það til að tilkynna að farið þeirra heim til Gentofte (sem er úti í buskanum = engar lestir á næturnar) væri að bíða, og þar sem drukkna liðið á svæðinu var um þetta leyti enn drukknara en áður nennti ég ómögulega að vera eitthvað ein aftur svo ég fór bara heim... Ágætis kvöld samt sem áður, þrátt fyrir furðulegheit ;)

Á laugardaginn sváfum við fram að hádegi og elduðum svo lasagna heima hjá Gaua og Kristínu. Síðan var eitthvað á planinu mínu að fara í annað skólapartý, fyrir skiptinema, en þar sem Gaui og Þórir þurftu fyrst að fara og hjálpa Katli að blanda mojito fyrir partý á Grønjords og ég var ómögulega að nenna að fara aftur ein að djamma horfði ég bara á Transformers með Kristínu í staðinn. Seinna um kvöldið þegar við Þórir gerðum tilraun til að joina þetta partý var staðurinn svo orðinn það fullur að þeir voru ekkert á því að hleypa of mörgum inn í viðbót. Svo við fórum bara heim að sofa.

Á sunnudaginn sváfum við aftur fram að hádegi og gerðumst svo ógurlega menningarleg og tókum 3ja tíma göngutúr um söguslóðir í miðbænum. (Myndir frá því og kanal-siglingunni sem við fórum í á miðvikudaginn og var líka einstaklega menningarleg koma kannski á netið einhvern tímann...) Þrátt fyrir þann dugnað var ég greinilega búin að klára svefn kvótann yfir helgina og lá andvaka af þreytuleysi næstum alla síðustu nótt - einkar óhentugt þar sem ég var aldrei þessu vant búin að plana að vakna eldsnemma og heimsækja skrifstofu í kollegíi sem við erum að reyna að komast inn á og er bara opin milli 8 og 9. Það hafðist samt (að vakna þ.e.a.s.) þó að fólkið á þessari skrifstofu hafi nú ekki haft neitt af viti að segja...

Og þetta allt saman er s.s. ástæðan fyrir því að ég sat hér í svefngalsa klukkan níu í morgun og reytti af mér aulabrandarana og ákvað svo að rekja ævisögu mína síðustu 3 dagana í minimalískum detailum. Þannig var nú það 8-)

Sitt lítið af hverju og allt of mikið af öllu

Meðan ég er að vinna upp bloggletina verðið þið bara að sætta ykkur við langlokur, hef allt of margt að segja til að það komist fyrir í samlokum! (hohoho... ég er svo sniðug...) Aulafyndnin á sér samt sínar skýringar, sem munu væntanlega koma fram einhvers staðar í sögunni. En byrjum á þessu:

Tölvan mín er með endalaust bögg, sem gerir mig óendanlega pirraða þar sem nýjir hlutir eiga að mínu mati að virka og sleppa því að vera með leiðindi. Ég hef ákveðið að kenna Windows Vista um vesenið og er því núna að bíða eftir að fá senda stýrikerfis diska fyrir xp að heiman til að skipta því út. Eins gott að það virki! Annars verð ég enn meira en óendanlega pirruð og hendi tölvunni örugglega út um gluggann... eða eitthvað í þá átt.

Núna í millitíðinni er ég einkum að stelast í tölvuna hans Þóris, eða nota "IT" tölvurnar í skólanum (eins og núna)... sem verður til þess að ég er mjög dugleg að rugla saman dönskum og íslenskum lyklaborðsstillingum og skrifa nafnið mitt með "øu" í staðinn fyrir ú og víxla endalaust ð og å.

Á föstudaginn ákvað ég að kíkja í einhvers konar partý sem skorin mín hélt í tilefni af skólabyrjun. Það var mjög spes á allan hátt. Planið var að draga Þóri og jafnvel einhverja fleiri með en þar sem hann lá í rúminu endaði ég á að fara ein. Djammið var haldið í skólanum, búið að leggja stofurnar í 1-2 álmum undir diskótek og bari, reisa hljómsveitarsvið fyrir framan sagnfræðibókasafnið og setja upp einhvers konar "rómantísk" borð (með kertaljósum og bleikum kreppappír) eftir einum ganginum. Þetta var svona eins og sambland af skemmtistað og sveitaballi í tjaldi, fólk var ansi duglegt að hella bjór á gólfið (gjarna með viðkomu á fötum þeirra sem næst stóðu), það var bara eitt (!!!) kvennaklósett sem virkaði á öllu svæðinu, hvert sem maður sneri sér sá maður a.m.k. eitt kófdrukkið par í innilegu keleríi og yfir allt saman var blastað Greased Lightning og It's my life.

Eftir að hafa ráfað um í svona hálftíma-klukkutíma, drukkið tvo bjóra, pælt svolítið í því hvað það þætti súrrealískt á Íslandi að halda svona samkomu í skóla, gert eina árangurslausa tilraun til að komast á þetta eina kvennaklósett, flúið tvo útúr drukkna sagnfræðinema og einn fornleifafræðinema sem vildu endilega tala við mig en voru í engu standi til að halda uppi samræðum... þá settist ég niður og ákvað að skrifa eitt sms heim til Íslands og væla yfir því að mig vantaði einhvern að djamma með, svona áður en ég færi að koma mér heim. Ég var rétt sest þegar einhver slær í öxlina á mér og segir "hey, á ekki einu sinni að segja hæ?!" Ég sný mér við, eitt spurningamerki, og horfi framan í einhvern strák sem ég hef aldrei séð áður. "Manstu ekki eftir mér, við hittumst síðasta föstudag?"

Ehm... Þannig hófust s.s. kynni mín af Frank Jensen og vini-hans-Jensen (sem hét einhverju ómögulegu nafni sem ég gat ekki borið fram) sem stóðu á því fastar en fótunum að ég hefði hitt þá í einhverju partíi í Hvidovre síðasta föstudag og fannst allt tal um að ég hefði nú eiginlega verið veik heima á Íslandi það kvöld bara vera léleg afsökun fyrir að muna ekki eftir þeim. En þar sem ég var frekar desperat eftir einhverjum félagsskap þarna og þeir voru þó aðeins minna drukknir en aðrir sem höfðu gert tilraun til að tala við mig fram að þessu, og vildu þar að auki endilega kynna mig fyrir einhverju fólki lét ég til leiðast og settist með þeim hjá einhverjum hóp af krökkum við næsta borð.

...úps, ég þarf að mæta í færeyskutíma, framhald verður birt að því loknu, eða kannski í kvöld... eða kannski bara eftir svona hálftíma ef tíminn skyldi falla niður, sem hafa verið örlög allra færeyskutímanna minna fram að þessu. En allavega... sagan er ekki búin ;)

föstudagur, september 07, 2007

Mér finnst...

...að þið eigið að vera dugleg að halda áfram að kommenta á færsluna hér fyrir neðan - eða bara setja kommentin við þessa í staðinn ;) I know you're out there!

Annars vildi ég bara segja ykkur að ég er komin með danskt númer og mun því ekki sjá ef þið reynið að ná í mig í því íslenska... nýja númerið er +45 2730 4093

fimmtudagur, september 06, 2007

Og svo kom haust

Já, tíminn líður víst. Vona nú að flest ykkar hafi meiri tengsl við líf mitt en svo að þið dettið algerlega út þegar ég tek upp á því að sleppa að blogga í 6 vikur, en svona just in case þá er hér smá yfirlit ;)

Marta kom til Íslands 3.ágúst og ég náði að eyða svolitlu af verslunarmannahelginni með henni og Tomek, tókum m.a. Golden Circle rúnt á sunnudeginum, sötruðum bjór og eitthvað svona.

10.ágúst hætti ég að vinna og fór til Florida með Helgu og Hildi :D ég sólbrann ítrekað (þó alltaf á nýjum stöðum), Anna Guðrún kom í heimsókn, stelpurnar urðu húkt á Nickelodeon, ég komst að því að það er ekki hægt að ganga berfætt á malbiki/stétt í 35°C hita og sól, við fórum í Sea world og Disney world, misstum af rútunum heim úr báðum þessum görðum og urðum að taka strætó í staðinn (sem var mismikið mál), ég eignaðist nýja tölvu, fékk ógeð á steiktum mat og pönnukökum, við fórum á strönd, í dýragarð, villtumst nokkrum sinnum á leiðinni milli Orlando og Tampa þar sem að Budget lét okkur fá bilað GPS tæki, versluðum fullt af fötum (og geisladiskum!)... og já, örugglega fullt í viðbót :) Það var allavega bara mjög gaman ;)

24.ágúst komum við heim... þann dag varð Þórir bróðir tvítugur og við fórum út að borða í tilefni af því, daginn eftir fórum við í sumarferð með gleðikórnum og á sunnudeginum í skírnarveislu hjá litlu frænku minni og nöfnu í Kálfholti.

Á mánudegi var svo tekið til við að pakka og á miðvikudag fórum við að transporta fyrstu kössunum. Á miðvikudeginum fór ég líka og lét rífa úr mér restina af endajöxlunum... og hélt svo áfram að flytja. Á föstudagskvöld var íbúðin loksins tóm og bæði líkamleg og andleg heilsa mín á þrotum - endalausir verki í kjálkanum, höfðinu og hálsinum í bland við flutninga, farangur sem ekki passaði ofan í töskurnar mínar og tilheyrandi reddingar og stress var ekki alveg að gera sig. Á laugardeginum fór ég aftur til tannlæknisins og fékk þá að vita að verkirnir stöfuðu af því að neðri gómurinn væri ekki að gróa rétt, var látin fá einhverjar grisjur til að troða ofan í sárið og sagt að halda svo bara áfram að éta verkjalyf næstu 10 daga meðan þetta væri að jafna sig og verkurinn að fara. Fussum svei...

En jæja, á sunnudegi flugum við svo til Kaupmannahafnar, á mánudegi byrjaði ég í skólanum og nú er kominn fimmtudagur og ég er ekki alveg jafn lost og ég var fyrsta daginn. Geri mitt besta til að tala og skilja dönsku en það kemur svo sem alveg fyrir að ég panikka og skipti yfir í enskuna, einkum þegar einhverjar mikilvægar praktískar upplýsingar um hluti sem ég skil ekki eiga í hlut. Skriffinnskukerfið í KU er ekki það aðgengilegasta í heimi. En maður lærir vonandi á þetta á endanum... ;)