Brjálæðislega dugleg...?
Jamm, ég er gjörsamlega að komast að því að ég er alveg út úr (blogg)heiminum þessa dagana... allt að gerast og ég bara veit ekki neitt.
Annars gerðist ég gasalega dugleg áðan þegar ég kom úr skólanum og... nei, ég fór ekki að læra, hvernig dettur ykkur það í hug? ;) heldur ákvað ég að þrífa húsið mitt að utan, eða sem sagt þann hluta þess sem ég á eitthvað í, sem er aðallega bara stigagangurinn og einhver smá stétt... en þetta var sem sagt allt saman mega ógeðslegt og ég eyddi alveg tveim klukkutímum í þetta með uppþvottabursta, vatnskönnu og nokkrar verulega blautar og ógeðslegar tuskur að vopni. Nú þarf ég bara að fá einhvern til að lána mér bíl svo ég geti keyrt gólfdúkinn sem verður víst að vera þarna á bílaþvottastöð og sprautað af honum mestu drulluna áður en ég kem honum fyrir aftur. Svo er bara að kaupa sér strákúst til að sópa stéttina og þá verður orðið ótrúlega fínt hjá mér...
Það er samt svo asnalegt við svona lagað að þrátt fyrir að ég hafi í alvöru verið mjög dugleg að koma þessu í verk (þetta er búið að vera ótrúlega drulluskítugt og pirrandi alveg síðan ég flutti inn) finnst mér ég samt eiginlega ekki hafa verið neitt dugleg því að ég hefði frekar átt að vera dugleg við að gera eitthvað annað, eins og til dæmis að taka til innanhúss eða lesa undir menningararfspróf eða eitthvað þannig... alveg eins og núna, þegar ég sit hérna geðveikt dugleg að blogga en ætti í raun frekar að vera dugleg við eitthvað allt annað eins og að svara öllum þessum e-mailum sem bíða mín í vinnunni eða upphugsa eitthvað gáfulegt fyrir verkefnin mín í skólanum...
Já, það er erfitt að vera ég ;)