miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Back to the student's life

Kunnið þið eitthvað gott orð yfir "juggler" á íslensku (annað en hirðfífl, það passar ekki nógu vel við merkinguna sem ég er að leita að). Og er einhver nákvæm skilgreining til á muninumm á "jester" og "juggler"? Ó hið ástkæra, ylhýra... Annars gengur Gotlandsritgerðin ágætlega :) Vildi að hið sama mætti segja um rannsóknarverkefnið en hvað um það...

Að vandlega athuguðu máli er ég búin að ákveða að þriðjudagskvöld séu málið í vetur, ykkur er öllum hér með boðið að láta draga ykkur á kaffihús og/eða bari á þriðjudagskvöldum, þar sem ég þarf ekkert að mæta í skólann daginn eftir :D

Þjóðfræðin er söm við sig og skilur fyrsta tíma dagsins alltaf eftir auðan en kennir í staðinn langt fram á dag, en reyndar hefur það ekki svo mikil áhrif þar sem ég er bara í einu eiginlegu þjóðfræðifagi þessa önnina, svo er ég í einu fagi úr enskuskor, einu úr sagnfræðiskor og einu úr "skor rómanskra og klassískra mála" (=latínu). Ætti allavega ekki að vera einhæft ;) Tókst samt ekki að troða inn mætingu klukkan átta nema einn dag, sem þurfti þá auðvitað að vera föstudagur. Verð að finna mér einhverja aðra leið til að vakna snemma... hugmyndir?

...og bloggið mitt hefur snúið frá því að fjalla um djamm yfir í að fjalla um skólann. Býst við að það þýði að sumarið sé endanlega búið!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Slæmir hlutir sem geta hent túrista á fylleríi

- Þú vaknar með þynnku dauðans rétt um hádegi, færð vægt sjokk þegar þú kemst að því að flugið þitt fór klukkan tuttugu mínútur yfir sjö og töluvert verra sjokk þegar í ljós kemur að einu flugmiðarnir sem fáanlegir eru til heimalands þíns samdægurs kosta rúmar 80 þúsund krónur
- Þú endar sem strandaglópur uppi í Breiðholti eftir að einhver húmoristi sannfærir þig um að það sé eftirpartí í Dúfnahólum tíu og sambland af tungumálaerfiðleikum og of mikilli drykkju verður til þess að þú og leigubílstjórinn eruð ekki alveg að ná saman
- Þú tekur leigubíl til Keflavíkur beint af djamminu en fattar þegar þú ert að fara að tékka inn að þú gleymdir að koma við á hótelinu og sækja farangurinn þinn, svo að þú þarft að láta senda hann á eftir þér með öðrum leigubíl
- Þú vaknar nakinn í hrúgu af óhreinum handklæðum í þvottahúsi hótelsins þegar þernurnar mæta til vinnu morguninn eftir
- Þú manst ekki herbergisnúmerið þitt, biður um vitlausan lykil og næturvörðurinn sem hefur aldrei séð þig áður lætur þig fá hann, þú uppgötvar síðan mistökin þegar manneskjan sem fyrir er í rúminu fer að öskra á þig
- Þú kemur heim dauðadrukkinn um miðja nótt, rétt í tíma til að ná flugrútunni og ert að flýta þér svo mikið að þú skilur allan farangurinn eftir á ganginum fyrir framan herbergið þitt
- Þú vaknar með blátt hár, og ekki nóg með það heldur eru sængurfötin, helmingurinn af húsgögnunum og veggirnir á baðherberginu líka þaktir slettum af bláum hárlit

...og örugglega margt fleira. I love working weekends!

laugardagur, ágúst 26, 2006

I've got a feeling...

Jæja, ég er snúin aftur frá Svíþjóð. Reyndar löngu snúin aftur. Ef þið eruð ekki búin að lesa eða heyra ferðasögur annarra þjóðfræðinema nú þegar hafið þið líklega ekki mikinn áhuga á því hvað við vorum að gera þarna úti svo að ég sleppi því bara að skrifa mikið um ferðina hér, læt bara nægja að segja að ég skemmti mér afskaplega vel, fór á fullt af tónleikum, söng mikið, hélt á broddgelti og lifði mig alveg inn í miðaldastemninguna... væri alveg til í að fara aftur á þessa hátíð að ári! :D

Verkefnin mín ganga aftur á móti ekki jafn vel, að mestu sökum leti og dugleysis... stefni að því að rífa mig upp úr því hvað úr hverju og gerast duglegur og samviskusamur nemi. Kominn tími til... (segir maður þetta ekki alltaf?)

Og það rignir í Reykjavík...