sunnudagur, nóvember 26, 2006

Speaking words of wisdom

Bara að láta vita að ég er enn á lífi og ekki drukknuð í lærdómi, reyndar búin að gera heldur minna af því að læra en ég hefði helst átt! Samt alveg búin að vera soldið dugleg... ekki alveg nógu dugleg til að koma mér í gott skap kannski eins og planið var í síðustu færslu, en í þessari viku er bara að duga eða drepast - fyrsta próf á fimmtudag!

En það voru fínir tónleikar í gær, gekk bara ótrúlega vel held ég :) Borðuðum saman og fórum svo í partí, mjög gaman, enda er svo skemmtilegt fólk í þessum kór :D

...og svo er bara mánuður í jól?!

mánudagur, nóvember 20, 2006

Eirðarleysi og ófærð í Reykjavík

Nú er alvöru snjór í Reykjavík... með tilheyrandi skemmtilegheitum í umferðinni þar sem annar hver bíll er á sumardekkjum og önnur hver gata falin undir sköflum. Bíllinn minn var einmitt inni í einum slíkum skafli í gær, svo við gátum skemmt okkur við að moka hann út... og tókst síðan að festa hann í einhverri botnlangagötu. Og samt er ég á nöglum!

Annars tókst mér líka að krækja mér í veikindi í snjónum... það er sem sagt ansi takmarkað sniðugt að vaða skafla berfættur í sandölum, þó mér hafi fundist það góð hugmynd á sínum tíma.

Og með hálsbólgu, hita og hósta undir sæng í gær fékk ég fyrsta panic kastið yfir því að þessi önn væri að verða búin og ég yrði væntanlega að fara að gera eitthvað dramatískt í málunum ef ég ætlaði að klára hana með ásættanlegum árangri... sem leiddi svo af sér frekar dapurt andlegt ástand þar sem ég sat og vorkenndi mér yfir því að vera búin að koma mér í þetta klandur og lét allt fara í taugarnar á mér (já, ég á það til að fá svona "allt er ómögulegt" köst þegar ég er lasin og leið). Eeeeen.... það dugar víst ekki að væla og gera ekkert í málunum. Mun líklegra að skapið batni ef ég pakka eirðarleysinu, kæruleysinu og einbeitingarleysinu niður og dríf mig í að ljúka þessu með stæl!

Engin ástæða til að láta sér leiðast þegar þrjár ritgerðir og jafnmörg próf bíða manns... er það nokkuð? ;)

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Vonda veður alltaf hreint

Held ég sé ekki að ýkja þó ég haldi því fram að það sé búið að vera einstaklega brjálað veður í haust. Ef það er ekki úrhellisrigning þá er rok svo jaðrar við stormviðvörunum eða 10 stiga frost - eða bara hvort tveggja eins og í dag. Elsku Ísland.

Eftir mánuð verð ég búin í prófum. Hjálp! Einbeiting til ritgerðarskrifa óskast, helst gefins...

mánudagur, nóvember 13, 2006

Zetu syndrómið

Hvað er málið með Z? Einu orðin sem mér finnst eðlilegt að setja zetur í eru "pizza" og "bezt" í samhenginu "Ísland - bezt í heimi". Getur reyndar kannski verið töff á nördalegan hátt að nota zetur eftir gömlu stafsetningareglunum, ef maður kann þær nógu vel til að gera það rétt (sem ég kann ekki).

Aftur á móti virðist óskaplega margt fólk í kringum mig ganga í gegnum einhvers konar z-tímabil, þar sem þykir voðalega töff að setja zetur í sem flest samhengi. MH-inga vinahópurinn minn tók upp á þessu einn veturinn, sjálfsagt annan veturinn sem ég var þar, og þá var enginn maður með mönnum nema honum tækist að klína eins og einni, helst tveimur, zetum inn í nafnið sitt. Litlu systur mínar eru heldur fyrr í að taka þetta úr, en þær eru núna búnar að stofna "saunghóp" með því skemmtilega nafni "angelz girlz". Já, hvað er málið með Z?

laugardagur, nóvember 11, 2006

Yfir fannhvíta jörð

Það er alhvít jörð í Reykjavík í kvöld. Nágrönnum mínum á Kaplaskjólsveginum hefur greinilega fundist þetta hið besta tilefni til að skella upp jólaseríum í eins og þrjá glugga. Eru jólin virkilega farin að nálgast svona mikið? Annars finnst mér snjórinn fallegur, verst með bölvaða hálkuna.

ps. ég er alveg rétt að fara að verða móðguð yfir kommentaleysi... where are you people?

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Blaut um hárið

Það er brjáluð rigning. Ég fékk þá snilldar hugmynd klukkan korter yfir níu að skreppa út á Bókhlöðu til að sækja eina bók sem ég var búin að sjá út að gæti verið sniðugt að lesa og þrátt fyrir vont veður fannst mér ekki taka því að fara á bíl... Endaði auðvitað á því að þegar ég kom inn á safnið lak af mér rigningin og ef ég hefði verið með sjampó brúsa í vasanum hefði ég líkast til getað þvegið á mér hárið á leiðinni heim.

En leigði allavega fjórar gáfulegar bækur sem ættu að auka mér gleði um helgina - hef ákveðið að sýna einstakan dugnað og læra alla helgina, veitir sjálfsagt ekki af þar sem að það verður tómt djamm næstu tvær helgar þar á eftir og svo bara vika í próf!!

Verið svo góð lömbin mín og ekki gera neitt af ykkur um helgina sem ég myndi ekki gera... ;)

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Endurtekið efni

Þegar maður vaknar við það að heyra varla í vekjaraklukkunni fyrir roki og rigningu er ekki sérlega freistandi að fara fram úr. Bölvuð sunnudagsvinna alltaf hreint. Reyndar mun minna mygluð í dag en í gær, 12 tíma vinnudagar eftir svefnlausar nætur eru heldur ekki freistandi. Allavega búin að komast að því að ofneysla orkudrykkja er sjálfsagt best í hófi... ;) Og svo á ég nú reyndar eftir þessa helgi þrjár fríhelgar í röð þannig að það er best að kvarta ekki of mikið! :)

Annars er ég búin að búa mér til myndaalbúm á netinu... vá, hvað webshots hefur breyst mikið (til batnaðar) síðan ég átti svona albúm síðast. En allavega, ef þið viljið kíkja á hestamyndir og kórpartýmyndir - þá er það community.webshots.com/user/sigrunisl... Mun svo örugglega bæta fleiri myndum inn fljótlega :)

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Too much reading will fuck you up

Þar sem ég er að reyna að vera duglegur námsmaður þessa dagana sat ég fram á nótt við að lesa Tolkien. Ætlaði reyndar að komast út fyrir kaflann um Beren og Lúthien en endaði á að sofna ofan í frásögnina af Dagor Bragollach - "The Battle of Sudden Flame".

Að sjálfsögðu dreymdi mig svo orustur í anda Tolkiens alla nóttina. Eftir mikla baráttu um fjöll og sléttur voru hetjurnar króaðar af í einhvers konar gettói þar sem barist var á bílskúrsþökum og gangstéttarhellur notaðar sem barefli. En herir Morgoths urðu greinilega eitthvað þreyttir á þessu á endanum og tefldu fram flota af rauðum flugvélum sem vörpuðu sprengjum yfir allt saman. Þeir einu sem komust af voru þeir sem földu sig í stigagangi afskaplega blárrar blokkar, þar sem stóð með stórum stöfum að íbúð 3A ætti þrif á sameign þessa viku.

Ætli svona draumur tákni eitthvað...?