fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Smá pása frá sjálfsævisagnalestrinum

...svona rétt til að láta vita að ég er á lífi.

Ég er s.s. að lesa sjálfsævisögu, afar hresst, þarf að skrifa ritgerð um hana um helgina og skila á mánudaginn. Á þriðjudaginn þarf ég svo að skila útdrætti úr einhverri grein og á fimmtudeginum rúmri viku seinna að skila ritgerð um aðra bók... já, verkefnaskil ákváðu sem sagt að bíta aðeins í rassinn á mér eftir leti febrúarmánaðar.

En það er líka ýmislegt annað sem ég ákvað að væri sniðugt að redda síðustu daga, eins og t.d. að fá mér skattkort (sem gekk brösuglega og er svo í þokkabót eitthvað dularfullt, þarf að láta skoða það nánar...), sækja um vinnu, undirbúa umsókn um húsaleigubætur og reka á eftir því að einkunnirnar mínar sendist til Íslands svo að ég fari að fá fokking námslánin... Urr, bara búin að safna skuldum við bæði bankann og móður mína þennan mánuðinn, og grey Þórir búinn að þurfa að borga flesta hluti... óþolandi ástand - vara hér með alla við sem íhuga skiptinám: gerið ráð fyrir að þurfa að bíða 1,5-2 mánuðum lengur en venjulega eftir námslánunum ykkar! ;( Þegar verkefnahrinunni lýkur get ég svo vonandi klárað að ganga frá húsaleigubótadæminu (asnalegt mál, þurfti að senda pappírana til Árósa til fá einhverjar kvittanir frá þeim sem eiga húsið, og guð má vita hvenær þeim þóknast að senda þá til baka), haldið áfram að reka á eftir námslánunum, sent skattkortið til Dominos og farið að vonast til að þeir borgi mér þessa tíma sem ég vann þar (humm, og kannski líka látið þá vita í leiðinni að ég hafi ekki í hyggju að vinna meira þar... það var víst aldrei almennilega búið að koma fram, suss suss...) - og svo kannski sótt um vinnu á fleiri stöðum, er allavega að spá í að henda inn Nordjobb umsókn og sjá hvað þeir geta boðið í Kaupmannahöfn, Malmö og nágrenni :) Úff, stundum finnst manni maður ekkert hafa að gera og svo loks þegar maður tekur sig til þá sér varla út úr augum fyrir verkefnum! En ég hef þá allavega ástæðu til að drífa mig framúr á morgnana, þó svona snúningar og kerfisvesen sé oftast ótrúlega lýjandi... ég var allavega bæði þreytt og pirruð síðustu tvö kvöld eftir að hafa eytt dögunum í slíkt.

Þá hafiði fengið nýjasta updeit af því sem er að hringsóla í hausnum á mér í bili, þar er allt í einum graut eins og þessi belg-og-biðu texti endurspeglar víst ágætlega! :p

Annars voru svo auðvitað gestir hér alla síðustu viku, fyrst Hjalti og svo Haukur bróðir minn, en ég ætla að geyma mér það að segja ferðasögur þeirra þangað til ég hendi inn relevant myndaalbúmum... Það verður vonandi um helgina :) Það eru annars komnar inn einhverjar myndir frá flutningunum hingað, sem og íbúðinni á Svanevej - ég var byrjuð að henda inn Finnlandsmyndum en það fraus svo allt og eyddist út aftur ;( svo ég geri aðra tilraun með það fljótlega, kannski bara um helgina líka (ef mér leiðist við verkefnaskrifin).

En já, hann Magnús Magnússon býður víst, með spennandi frásagnir úr lífi sínu og starfi... grunar reyndar að ég hafi rétt verið að ljúka við hressustu kaflana; menntaskólaárin og einhverjar stiklur úr fyrstu ástarævintýrum og kynlífsreynslu... og þó, á einn kafla eftir sem virðist fjalla að mestu um drykkjuskap - það gæti orðið hresst líka ;)

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Af danskri drykkjumenningu og fleiri furðum

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við hverfið okkar er hvað þetta er alltsaman yndislega mikill suðupottur. Á götunum heyrist iðullega alls konar sambland af dönsku, ensku, spænsku, arabísku, persnesku og áreiðanlega fleiri tungumálum sem ég kann ekki að greina (furðu lítið af íslensku, annars, miðað við suma aðra hluta Kaupmannahafnar), flestar verslanir auglýsa bæði á dönsku og arabísku, út um allt eru alls konar sérverslanir með asíska og afríska matvöru, international calling cards eru mikið auglýst vara og ef maður hefur áhuga á "þjóðlegum" miðausturlenskum listviðburðum þá er hægt að finna nóg af upplýsingum um slíkar uppákomur innan um bleðlana sem auglýsa "andelsbolig til salg" eða "bliv slank på den fede måde" á Nørrebro station og auglýsingatöflum stórmarkaðanna. Reyndar fylgja líka neikvæðari hliðar með í menningarblöndunni og árekstrar virðast vera ansi tíðir. Brotnar og sprungnar rúður í verslunarhúsnæði, auglýsingaskiltum og strætóskýlum eru nánast dagleg sjón og þó maður hafi blessunarlega ekki orðið vitni að því (ennþá...) þá berast reglulega fréttir af vopnuðum átökum í nágrenninu.

En það var svo sem ekki það sem ég ætlaði að tala (eða skrifa) um. Við erum búin að detta niður á eina svona etníska verslun rétt hjá lestarstöðinni sem virðist vera nokkuð sniðug, þrátt fyrir að vera hvorki vel skipulögð né snyrtileg/aðlaðandi, þá hefur hún það sér til ágætis að selja ýmis konar paste, krydd, baunir og annað gums sem okkur finnst sniðugt að blanda út í matinn okkar, auk þess að vera opin að því er virðist alltaf. Það sem mér fannst eiginlega áhugaverðast í tengslum við "uppgötvunina" á þessari verslun (og þá komum við aftur að danska elementinu í fjölmenningunni) er að við hliðina á henni er lítil bodega, svona gamaldags, reykmettuð, dönsk krá, sem auglýsir stórum stöfum fyrir utan: TILBOÐ MILLI 08.00 OG 12.00 - STÓR BJÓR + SKOT/SNAPS Á 20 KR. Fyrst ákvað ég með sjálfri mér að þeir hlytu að vera að meina átta að kvöldi til miðnættis, en þegar ég sá að hinumegin á skiltinu var annað tilboð sem gilti frá 12-15, þá... æj, Danir...

Í nauðum okkar vegna sjónvarpsleysis (þ.e. sjónvarpsstöðvaleysis) erum við búin að fjárfesta í rúmlega sólarhring af sjónvarpsþáttum í dag, þar af 21 klst. af rómverskum keisurum (Rome I + I, Claudius) og þar til viðbótar kvikmyndinni Gladiatior. Það verður því rómverskt þema hér næstu dagana, hugsanlega brotið upp inn á milli af Blackadder, sem á heiðurinn af klukkutímunum sem upp á vantar. Það þarf sko víst að hafa fyrir því að vera latur... hmm. Eða, já, þú veist, eitthvað... kominn matur!

mánudagur, febrúar 11, 2008

Óregla og mórall

Sólarhringurinn hér á þessu heimili er í eitthvað frekar miklu fokki. Í gær tókst okkur að slá öll met, fórum ekki á fætur fyrr en klukkan hálf-fimm (eftir að hafa vaknað upphaflega klukkan tvö og ákveðið að "kúra í svona 10 mínútur" áður en við færum framúr)... Þar með var auðvitað út úr myndinni að sofna fyrr en undir morgun í nótt og plan mitt um að byrja vikuna með dugnaði og sjálfsaga frekar ónýtt :( Gældi reyndar við þá tilhugsun að drífa mig bara á lappir eftir svona 3-4 tíma svefn og snúa svefnmynstrinu á farsælli hlið með valdi, en þegar það er ekkert sem bráðnauðsynlega þarf að sinna, og hin svefnpurkan á heimilinu liggur áfram værðarleg undir sænginni, þá er ég greinilega ekki nógu staðföst fyrir svoleiðis plön...

Meikaði loks að vakna upp úr eitt, dró Singer of Tales upp í rúm til mín, sofnaði ofan í hana svona 35-40 bls. seinna, og vaknaði aftur klukkan korter í fimm ;( Ég er glötuð... missti af kickbox tímanum sem byrjaði klukkan fimm, og er svo bara búin að sitja hér og vera pirruð út í sjálfa mig í tæpa tvo tíma. Fuss og svei... það er orðið of dimmt til að ég þori að fara út að skokka (alltaf verið að skjóta eitthvað fólk hér í nágrenninu, reyni að forðast að þvælast mikið ein úti í myrki!) og bölvaða sundlaugin lokar klukkan 16 á mánudögum, þannig að úrræði til að bæta upp fyrir leti mína eru af skornum skammti. Svo ég held bara áfram að vera örg og pirruð þar til mér dettur eitthvað skárra í hug.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Og ég held áfram að tala við sjálfa mig

Ojæja, þið eruð greinilega öll hætt að kíkja hér inn, enda kannski ekki von á öðru miðað við blogg-letina. Ég ætlaði samt að blogga í fyrradag, en þar sem við vorum enn netlaus og sváfum of lengi til að ég hefði tíma til að fara niður í skóla í tölvuverið þar, þá varð ekki af því. Svo þið sjáið að ég er algerlega fórnarlamb aðstæðna...

En það er nú ekki búinn að vera neinn ofur dugnaður í gangi síðan við snerum aftur til Danmerkur. Ég afrekaði það reyndar í gær að fá okkur nettengd, með löngu og flóknu símtali þar sem ég fékk að stafa nafnið mitt 3x (og það stendur samt sem áður Sigrul (!) á samningnum, urr...) og komst að því eftir mikinn misskilning að @ táknið heitir "snigla-A" eða eitthvað álíka á dönsku.
Svo dreif ég líka í að skila loks bókum sem voru komnar það langt fram yfir að ég var farin að fá bleik hótunarbréf í pósti frá bókasafninu... Ein ikea-ferð er frá, og önnur á planinu á morgun (stólarnir sem við ætluðum að kaupa voru uppseldir, bansettir) og þá verður orðið alveg ógvulega fínt hérna... jah, þarf reyndar að taka smá til kannski líka, en það er annað mál. Svo fer ég rétt að gera alvöru úr síendurteknum hótunum mínum um að henda fleiri albúmum inn á netið, læt ykkur vita! Og eins og glöggir lesendur taka kannski eftir þá er kominn linkur á albúmin hér til hliðar (Myndir 2007-) svo það ætti ekki að vera vandamál að finna þær ;)

En já og jæja, komið nóg af sundurlausu blaðri í bili... but stay tuned!

föstudagur, febrúar 01, 2008

Nýtt lúkk á nýju ári

Já, það var víst alveg kominn tími á að flikka smá upp á útlitið, það varð ekki næstum jafn skemmtilegt eftir að drekinn minn hvarf (linkurinn sem vísaði á myndina hvarf bara! illa fólk...) og þar sem ég fann engan nógu flottan dreka til að koma í staðinn fann ég mig tilneydda til að fá mér einhverja nýja mynd og þá passaði miklu betur að breyta letrinu á titlinum aðeins og setja skemmtilegtri bakgrunn og þá var græna litaþemað ekki lengur að virka, og já... mér leiddist víst líka bara eitthvað í tölvuverinu í Odda í gær.

Veit samt ekki alveg hvort ég er endanlega sátt við útkomuna, sérstaklega litinn á aðalrammanum (og litaþema á stöfum fer náttúrulega mikið eftir honum) - og svo var ég líka að fatta að ég steingleymdi að breyta copyright rammanum neðst á síðunni! Svo að þið verðið að vera dugleg að fylgjast með og sjá hvað úr þessu öllu verður ;) Og dugleg að kommenta líka og koma skoðunum ykkar á útlitsbreytingu á framfæri...

Svo kemur kannski að því einhvern daginn að ég kem mér í að skrifa eitthvað af viti á ný, þegar síðan er orðin svona ný og fersk...!