sunnudagur, desember 31, 2006

Gleðilegt nýtt ár öllsömul!

Frekar fúlt að vera föst í vinnunni þegar hátíð gengur í garð á gamlárskvöld... Búin að lofa sjálfri mér því að vera í fríi að ári liðnu!

En ég óska ykkur gleðilegs árs, friðar og hamingju :) Vona að árið 2007 beri eitthvað gott í skauti sér fyrir ykkur öll... may the power be with you and the hair on your toes never fall out! ;)

laugardagur, desember 30, 2006

Hressleiki í morgunsárið

Ég er mætt í vinnuna eftir tveggja tíma svefn. Það er alltaf hresst. En stundum þess virði.

Jólin voru annars fín, langar samt að sofa meira. Og vinna minna. En það verður ekki á allt kosið.

Vona að þið hafið fengið fína jólapakka og að jólaboðin ykkar hafi verið skemmtileg :)

fimmtudagur, desember 21, 2006

Kjáni

Þessi fugl er kjáni. Samt mjög sætur kjáni. Hef mest samviskubit yfir því hvað ég skil hann mikið einan eftir heima meðan ég er í öllum jólaútréttingunum. En hann skemmtir sér allavega vel þegar ég kem heim og hann fær að fara út. Finnst sérstaklega gaman að klifra í fötunum mínum og naga þau. Og borða aðventukransinn. Er alveg að verða búin að ljúka jólainnkaupum. Og í kvöld er litlujóla partý hjá kórnum. Voru líka lítil jól hjá Þjóðbrók í gær. Nóg að gera :)


miðvikudagur, desember 20, 2006

Einn talandi páfugl á grein

Já, ég á orðið páfagauk. Þar sem ég bý í leiguhúsnæði og má ekki vera með nein gæludýr sem fara úr hárum ákvað ég að skella mér á eitt sem fer bara úr fjöðrum. Hann (þetta er að öllum líkindum strákur) er um átta vikna og heitir Cicero. Nördalegt nafn, ég veit, og hann ber það með stolti. Hann er reyndar ekki orðinn talandi páfugl ennþá... en finnst aftur á móti afskaplega gaman að syngja með allri tónlist sem ég spila, sérstaklega ef það er eitthvað klassískt með fiðlum og flautum.

mánudagur, desember 18, 2006

urr urr

Það er ekki sérlega margt sem reitir mig til reiði. En fólk sem keyrir eins og hálfvitar er eitt af því sem getur gert mig virkilega reiða.

Ég keyrði austur í morgun og þar sem ég er að fara upp á nýju mislægu gatnamótin við Suðurlandsveg/Vesturlandsveg tekur fram úr mér jeppi á þvílíkri ferð og það nálægt mér að ég varð að sveigja út í vegkantinn (þetta er á svona stað þar sem tvær akreinar renna í eina). Fyrir framan mig, og nú fyrir framan jeppann, voru tveir vörubílar og eftir að hafa sikk sakkað fyrir framan mig í svona hálfa mínútu komst ökumaður jeppans að þeirri niðurstöðu að hann mætti ekki vera að því að bíða eftir að umferðin á móti gæfi honum færi á að taka fram úr vörubílunum heldur hentist sjálfur út í vegkantinn hægra meginn og brunaði fram úr þar.

Arg, hvað ég var reið! Er ekki nóg að þrjár manneskjur hafi dáið og lítill strákur lamast upp að mitti síðustu tvær vikur vegna óvarlegs framúraksturs? Hvað þarf að gerast til að berja smá skynsemi inn í hausinn á fólki? Við getum ekki þurft að flýta okkur svona mikið.

sunnudagur, desember 17, 2006

Þarf að fara að gera jólainnkaupin

Tók mig til og labbaði í vinnuna í morgun. Kom reyndar til af illri nauðsyn, þar sem að Gulla endaði óvart með bíllyklana mína eftir gærkveldið, en var engu að síður afskaplega hressandi og heilsusamlegt. Vel þess virði að velta því fyrir sér af hverju maður gerir þetta ekki oftar...

Held það sé aðallega svefnpurkuháttur, nenni ekki fram úr hálftíma fyrr en ég kemst upp með þegar ég fer á bíl. En úr því mér tókst það í morgun, eins lítið og ég er búin að sofa síðustu nætur, þá ætti það nú að ganga eftir fullan nætursvefn. Á göngu minni eftir Blómvallagötunni heyrði ég vekjaraklukku bölsótast við opinn glugga í að minnsta kosti tvær mínútur áður en eigandinn bærði á sér... einhvern veginn var illgirnislega notalegt að vita að það ættu fleiri erfitt með að rífa sig á fætur en ég.

Annars er þetta síðasti vinnudagurinn minn á Hótel Klöpp!! Nema ég asnist til að taka aukavakt hér eða skipta við einhvern, sem ég ætla að reyna að halda í lágmarki. Eftir jól fer ég á hið nýja Hótel Þingholt þar sem ég fæ að ganga í einkennisbúningi og díla við gesti sem tíma að borga þrjátíuþúsund fyrir hótelherbergi án morgunverðar. Vei! En það verður ágætt að breyta til og endurnýja kannski metnað sinn í þessu starfi.

Vika til jóla... jahá!

föstudagur, desember 15, 2006

Öll við skulum gleðjast...

Jamm - ég er búin í prófum :D Hefði nú kannski sumt mátt ganga betur, en sjálfsagt var þetta nokkurn vegin eins og ég átti skilið miðað við dugnað minn... nú bíður maður bara með krosslagða fingur eftir einkunnum, sem koma þó varla fyrr en eftir jól.

Samt búin að gera ýmsilegt annað en að lesa síðustu 12 daga, fór í jólaleiðangur í Garðheima með Bryndísi og keypti mér jólablóm, horfði á Love Actually með Þóri, fór á skauta á Ingólfstorgi með Gullu, á "pöbbarölt" með kórfólki síðustu helgi og þynnku-bandí daginn eftir!

Bara tveir vinnudagar og svo er ég komin í jólafrí, gaman gaman :D Tók mig til eina nóttina (þegar ég átti að vera að lesa undir próf) og tók þvílíkt vel til og skreytti heima hjá mér svo að það er ekkert því til fyrirstöðu að komast í jólaskap: fara að útbúa jólakort, klára jólainnkaupin, leika jólasvein (jamm, hvað gerir maður ekki fyrir foreldra sína sem eru grunnskólastjórnendur?) og skipuleggja eitt stykki Litlu-jól. Einhver sem langar að hjálpa mér við eitthvað af þessu? ;)

sunnudagur, desember 03, 2006

Það er kominn desember

Jæja, jæja, eigum við ekki bara að segja að bloggleysi stafi af hörkudugnaði mínum við heimanámið? ;)

Allavega eru tvær ritgerðir í höfn og sú þriðja ekki svo langt undan landi, fáránlega uppsett próf í Hátíðum, leikjum og skemmtunum sömuleiðis frá og allri kennslu lokið... Eftir að ég verð búin að skila síðustu ritgerðinni á morgun verð ég glöð, hver veit nema ég setji bara upp jólaljós jafnvel í gleði minni :D og á föstudaginn um hádegi verð ég enn glaðari, þá verður allt búið nema latínan (og mér hlýtur nú að takast að læra fyrir hana á heilli viku) og þá mun jólaskapið halda innreið sína fyrir alvöru :)

Hlakka til að versla fyrir jólin, kveikja á kertum, pakka inn gjöfum, skreyta jólatré, fara á hestbak (Víðar verður tekinn í bakaríið um leið og ég fer í frí), baka lagtertu, syngja jólalög, ganga með jólasveinahúfu og óska fólki gleðilegra jóla...