þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ólánsdagur

Suma daga fer bara OF margt úrskeiðis. Eftir svoleiðis daga er ekkert að gera nema skríða undir sæng og vona að sá næsti verði betri...

mánudagur, janúar 29, 2007

...svona af því ég ætti að vera að læra

Ég er með hræðilegar harðsperrur í höndunum. Klifur er samt fáránlega gaman :D En eftir tvo tíma af misvelheppnuðum tilraunum við að klifra upp 3-4 metra háa, yfirhallandi veggi er maður líka ágætlega búinn. Ég tel mig þess vegna hafa haft ágæta afsökun fyrir því að sofna klukkan hálfellefu fyrir framan sjónvarpið heima hjá Gullu... voðalega er ég skemmtilegur félagsskapur ;)

Annars er það nýjast í fréttum að ég á orðið nýjan síma. Einu sinni fyrir löngu átti ég sem sagt kanínu, sem fannst það upplagt að bíta snúruna á hleðslutækinu mínu í sundur - og þó að það hafi virkað ágætlega á sínum tíma að teipa endana saman gaf það endanlega upp öndina fyrir helgi. Ég sat sem sagt uppi með ágætan síma en ekkert hleðslutæki, og þar sem ég var svo sniðug að kaupa mér síma sem notar einhverja agalega sérhæfða tegund af hleðslutæki þá er hætt að framleiða það núna :( Ó, hvað maður elskar lögmál markaðarins stundum. But the system obviously works, þar sem ég fór og keypti nýjan síma, svo ég get víst ekki kvartað of mikið!

sunnudagur, janúar 28, 2007

I've got the blues

Þá er prófið úr blúsáfanganum mínum yndislega búið. Hefði reyndar verið töluvert yndislegra ef ég hefði mætt alla dagana og lesið allt efnið fyrir prófið, en ég náði nú samt örugglega og get jafnvel vonast eftir ekkert allt of lágri einkunn... vona ég.

Svo er ég líka endanlega hætt í vinnunni minni, eyddi síðustu tveimur vöktunum í að þjálfa eftirmann minn - sem hafði mun meiri áhuga á því að sýna mér myndir af "reverse graffiti" og einhverjum fornaldarhákörlum á netinu en að læra að gera upp reikninga. Var reyndar svolítið sorglegt að kveðja sumt af samstarfsfólkinu, sérstaklega nokkrar af þernunum sem voru voða leiðar yfir því að ég væri að hætta. Spurning hvort maður lætur plata sig í vinnu þarna aftur næsta sumar. Eða kannski er gáfulegra að láta ferli mínum í hótelbransanum bara alveg lokið, búin að vera í þessu samfellt síðan í maí 2005. Gæti annars orðið eitthvað snúið að finna almennilega sumarvinnu þar sem að ég er búin að bóka mér tveggja vikna ferð til Orlando í ágúst :D Langar í vinnu þar sem ég get stjórnað vinnutímanum sjálf og tekið mér frí þegar mér hentar...

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Kexrugluð

Það er allt að gerast...

Ég er búin að segja upp vinnunni minni og hætti væntanlega þessu hótelbraski á næstu vikum (einhver óljós uppsagnarfrestur sem þarf að vinna). Í staðinn ætla ég að halda áfram að hljóðrita og efnisskrá viðtöl á Árnastofnun, og treysti svo bara á að námslánin reddi restinni. Hlakka til að þurfa ekki framar að mæta í vinnuna klukkan átta á morgnana um helgar :D

En það gengur auðvitað ekki annað en að finna sér eitthvað að gera við allan þann frítíma sem ég mun öðlast við þetta, byrjuð á reiðtækninámskeiði með Víðar og búin að skrá mig á klettaklifursnámskeið með Bryndísi :D Svo er náttúrulega aldrei að vita nema leikferillinn fari á blússandi ferð eftir glæsileg tilþrif við upptökur á þessari líka agalega töff Homeblest auglýsingu á þriðjudaginn ;)

Kórbúðir um helgina, víhí! :D

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Veikindi

Nei, mér þótti ekki nóg að vera með hósta og hæsi, varð að ná mér í einhver almennileg veikindi líka. 39° hiti og tilheyrandi höfuðverkur, takk fyrir. Missti af helmingnum af kennslunni í blúsnámskeiðinu og er þá ekki einu sinni viss hvort ég má taka prófið. Ég gæti grátið. En það er víst gáfulegra að skríða bara aftur undir sæng og reyna að láta sér batna fyrir helgi...

mánudagur, janúar 08, 2007

Alvara lífsins

Herbergisfélaginn er snúinn aftur til Finnlands, skólinn byrjaður (þó ég hafi nú átt örlítið erfitt með að halda mér vakandi í tíma í morgun!) og jólahelgin formlega liðin. Búin að fá allar einkunnir :D Stundataflan mín er samt enn í steik og ég veit ekki alveg hvað ég ætla að gera í því. Er sjálf í einhverri svolítilli steik, kenni takmörkuðum svefni og óhollustu um það. Gæti verið sniðugt að fara snemma að sofa í kvöld og reyna kannski að ná endanlega úr mér þessari skemmtilegu hálsbólgu sem ég náði mér víst í á nýársnótt, svona svo ég geti sungið eitthvað á kóræfingu á morgun (jeijei, kórinn er að byrja aftur!) Eða í öllu falli svo að ég mæti á réttum tíma í skólann og nái sæti þar sem ég þarf ekki að vera snúin upp á hlið með ekkert borð (asnalega, allt of litla stofa).

Er ekki einhver sem joinar sund í fyrramálið - alltaf skemmtilegra að hafa félagsskap... ;)