miðvikudagur, maí 30, 2007

Sumar

Já, sumarið hætti sem betur við að hætta við að koma og það er orðið skaplega hlýtt aftur. Skilst að við eigum bráðum að fá að finna fyrir áhrifum hitabylgjunnar í Rússlandi og þar sem ég er agaleg kuldaskræfa finnst mér það hið besta mál. Bara betri ástæða til að fara í sund og borða ís, sem er að sjálfsögðu það sem sumarið snýst um. Fyrir utan að fara í ferðalög og skemmta sér, en það lítur út fyrir að það verði coverað ágætlega líka :)

Ég er komin á nýjan bíl sem er hinn ágætasti fyrir utan að mér líður agalega mikið eins og ég sé 35 ára þriggja barna móðir á leiðinni að sækja einhvern á fótboltaæfingu eða í tónlistartíma þegar ég rúnta um á honum. Þið munuð vita hvað ég á við ef þið sjáið mig einhvern tímann á honum ;) En það venst... örugglega. Allavega nóg pláss í honum, og hann er hvorki yfir tíu ára gamall né rétt að fara að gefa upp öndina eins og síðustu tveir bílar sem ég hef haft afnot af. Og hver hefði trúað því að mér tækist að skrifa tíu línur um bíla!? ekki ég...

Annars mótmæli ég hér með harðlega kommenta-letinni sem er í gangi hér! Ekki nema ein athugasemd við síðustu fjórar færslur, þarf ég kannski að halda dramatíkinni hér á hærra stigi til að þið nennið að tjá ykkur...? ;)

föstudagur, maí 25, 2007

Kvef

Ég hata kvef. Sérstaklega þegar það er svo margt og mikið að gerast, tónleikar, Þórir nýkominn heim, löng helgi framundan... og mig langar að vera ofur hress og skemmtileg en er bara endalaust þreytt með hausverk og sjúgandi upp í nefið. Agalega heillandi.

Panodil, te og lýsi... er það ekki málið? ;)

þriðjudagur, maí 22, 2007

Þjóðvísa

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,
þagnar kliður dagsins.
Guð er að bjóða góða nótt
í geislum sólarlagsins.

miðvikudagur, maí 16, 2007

ótitilhæft

Mig langar að fá einkunnir! Urr...

mánudagur, maí 14, 2007

Ópersónulegu sagnirnar ráða ríkjum

Mig verkjar í ljóta brunasárið sem ég fékk í síðustu viku. Akkúrat núna lítur það frekar mikið út eins og helmingurinn af skinninu á fingrinum hafi ákveðið að deyja og rotna af. Ekki geðslegt og fjandi vont.

Mig langar út í góða veðrið. Á hestbak, í sund, að spila fótbolta eða bara liggja í leti einhvers staðar og láta sólina skína á mig. Vona að það verði gott veður í allt sumar svo að ég geti gert eitthvað skemmtilegt þegar fleiri eru komnir í frí :)

Mig skortir algerlega einbeitingu við að læra. Fussumsvei. Á eftir að klára eina fjandans ritgerð sem að þýðir ekki að sitja endalaust yfir. Þyrfti að fá smá spark í rassinn til að koma mér af stað.

Mig dreymir tóma vitleysu þessa dagana. Aðfaranótt laugardagsins dreymdi mig ógurlega langloku um sjóræningja og risaeðlur sem hefði sómt sér vel í hrollvekju fyrir börn. Var ekki einhvern tímann einhver sem fékk svo miklar martraðir að hann ákvað að hafa skrifblokk við rúmið og skrifa alltaf niður draumana sína um leið og hann vaknaði og meikaði svo milljónir á því að skrifa handrit að hryllingsmyndum? Kannski það sé góð leið til að safna fyrir afborgunum af námslánunum...

fimmtudagur, maí 10, 2007

Just so typically me

Hversu mikill klaufabárður er hægt að vera á einu kvöldi? Ansi mikill greinilega þegar ég á í hlut...

Raunasagan byrjaði á því að mér þótti ekki nóg að skera niður lauk í matinn minn heldur varð ég að sneiða svolítið framan af einum fingri líka. Jæja, ekkert stórmál, slíkt gerist þegar ég og hnífar eru annars vegar svo að ég skellti bara plástri á puttann og hélt áfram að elda.

Eftir matinn ákvað ég að það væri sniðug hugmynd að færa til eins og eina bókahillu sem mér fannst ekki vera á nógu góðum stað. En efsta hillan ("þakið") var greinilega ekki sérlega vel föst og ég tók eitthvað vitlaust á henni svo að hún hreinlega rifnaði af og naglarnir, sem ekki gat þóknast að halda hillunni saman, réðust á næsta putta. Vei.

Jæja. Þegar ég var búin að skella plástri á fingur númer tvö, þrífa blóðið af hillunni og negla hana betur saman kom mamma í heimsókn svo að ég ákvað að laga kaffi. Slæm hugmynd... Það var víst eitthvað pappírssnifsi undir kaffikönnunni, sem byrjaði að brenna á hellunni með tilheyrandi brunalykt, svo að ég kippti könnunni upp til að finna út hvað væri að. En hún var auðvitað full af sjóðandi kaffi sem mér tókst að sulla yfir hendina á mér og fyrstu viðbrögð við þeim sársauka voru að leggja könnuna frá mér. Á gólfið. Sem er með plastdúk. Æjæjæj...

Svo nú sit ég uppi með plástra á fjórum fingrum, kringlótt gat í eldhúsgófinu og samsvarandi kringlótt plaststykki undir botninum á kaffikönnunni minni. Föstudagurinn þrettándi hvað...

þriðjudagur, maí 08, 2007

Kosningar

Það hringdi í mig stelpa í gær og byrjaði samtalið á því að óska mér til hamingju með kosningaréttinn. Ég tilkynnti henni, sármóðguð að sjálfsögðu, að ég væri nú búin að njóta þess réttar í þónokkur ár. Kannski hef ég verið voðalega grimm og leiðinleg, allavega voru tilraunirnar til að sannfæra mig um hvað ég ætti að kjósa, sem fylgdu í kjölfarið, frekar aumingjalegar.

Ég verð að viðurkenna að ég er agalega lítið spennt fyrir komandi kosningum. Ég nenni ekki einu sinni að fylgjast nógu vel með til að vera með á nótunum hvað það er sem hinir pólitískari vinir mínir eru að þræta um á bloggsíðum sínum. Kannski ætti ég að gera það samt, þar sem að ég hef enn voða litla hugmynd um það hvað ég ætla að kjósa. Reyndar finnst mér alltaf ógurlega lítið upp úr því að hafa hverju stjórnmálamenn lofa og hóta síðustu vikur fyrir kosningar. Mun betra að fylgjast með því hvað þeir gera af sér restina af kjörtímabilinu.

En ég tók þó allavega svona próf:
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 50%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 23%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Hvað ætli sé svo að marka þetta?

sunnudagur, maí 06, 2007

Tveir tímar í próf...


Próflestur á það til að fara illa með andlegt ástand manns... Mér fannst það ótrúlega sniðug hugmynd um ellefuleytið í gær að skrifa upp latneskar fallbeygingar á fataskápinn minn (blöðin í stílabókinni voru of lítil sjáiði til). Tek það reyndar fram að þessi skápur er á leiðinni á haugana. En nú er latínan allavega búin í bili :)

þriðjudagur, maí 01, 2007

Hópþrýstingur

Ætli maður verði þá ekki bara að fara að læra eins og allir aðrir...