föstudagur, september 26, 2008

Flöskudagur

Nú erum við búin að læra pólsku í viku, og hver skyldi árangurinn vera? Látum okkur sjá...

Mam na imię Sigrun i mam dwadzieścia trzy lata. Jestem z Islandii ale teraz mieszkam w Kopenhadze. Jestem przewodnikiem ale szukam nowej pracy. Szukam też mieszkania na Islandii. Mam na Islandii moja rodzina i mój chłopak. Teraz jestem w Polsce, w Krakowie, bo uczę się języka polskiego. Język polski jest trudny, ale ja interesuję się językami obczymi. Dzisiaj jest piątek i mam piwo!

Ábyrgist þó að það er slatti af stafsetningar/málfræðivillum í þessu ;) Annars er allt hið besta að frétta, veðrið breyttist loks til hins betra í dag og flóa/flugubita faraldurinn sem ég lenti í er í rénun (segi kannski betur frá honum síðar), hætt að líta út eins og nashyrningur en er meira eins og ég sé með svona gasalega myndarlega nornavörtu á nefinu... Læt ekki sjá mig utandyra án plásturs enn allavega :p Stefnan er á bíó í kvöld og ferðalag til Lanckorona á morgun. Þá fæ ég kannski loksins tækifæri til að smella af einhverjum myndum án þess að finnast ég eitthvað furðuleg...

Annars óska ég ykkur bara gleðilegs flöskudags og vona að sem flestir finni sér eitthvað sniðugt að gera um helgina :D Miłego weekendu i na zdrowie!

þriðjudagur, september 23, 2008

Auf Polnisch

Jestem w Krakowie! Og hér er sko fjör...

Búin að vera í tímum í tvo daga, fer alveg að koma að því að maður geti sagt eitthvað af viti. Það er kennt frá 9.30-14 og svo er eitthvað kúltúral prógramm flesta seinniparta. Hingað til höfum við reyndar skrópað báða dagana; í gær slepptum við sightseeing um Kraków til að hafa tíma til að kaupa símakort og strætókort og fara með Mörtu á kaffihús - í dag ákváðum við svo að fórna þjóðdansakennslu til að læra heima. Það verður væntanlega möguleiki á að dansa aftur einhvern daginn í seinni helmingi mánaðarins þar sem prógrammið rúllar á 2ja vikna tímabilum. Ég skellti mér samt í welcome party í gær og endaði á að joina hóp af Þjóðverjum á bar eftir það. Þýskan mín fær kannski álíka þjálfun og pólskan hér, a.m.k. eru vel ríflega helmingur þátttakenda í skólanum þýskumælandi. Jafnvel þeir sem ekki eru frá Þýskalandi (heldur t.d. Úkraínu og Frakklandi) tala oftar en ekki þýsku til að fá að vera með í hópnum... En eftir tvær vikur verða náttúrulega allir orðnir reiprennandi á pólsku sem verður þar með lingua franca næturlífsins, er það ekki!? ;)

Maður er svo annars auðvitað best farinn að kynnast þeim sem eru í sama bekk, enda eyðir maður tæpum 5 tímum á dag í návist þess hóps. Í hópnum okkar eru 11 manns, á öllum aldri og af fimm þjóðernum. Þar er Lynn frá Philadelphia, afskaplega mikill Kani en samt afskaplega næs, líklega sú sem kann mest en finnst hún ekkert vita og neitaði að færa sig upp í erfiðari hóp þegar kennarinn bauð það. Aðrir enskumælandi eru hressi Írinn James og the real English gentleman Carl, svo afskaplega high-middle class Breti að maður verður stundum að passa sig að fara ekki að hlæja. Restin eru svo Þjóðverjar; píanóleikarinn Marianne sem er að læra pólsku til að geta auðveldar farið í framhaldsnám í slavneskumælandi landi og ruglukollurinn Erwin sem virðist ekki alveg vita hvernig hann endaði þarna; hin feimna Corinne, sem á pólskan eiginmann og verður alltaf óskaplega vandræðaleg þegar fólk á í erfiðleikum með að bera fram þýsk-pólska eftirnafnið hennar; Andreas, frekar þögull og til baka en alltaf með allt á hreinu og sneggstur að öllu; og að lokum félagarnir Alfred og Ingo sem eru aldurforsetar hópsins, yndislega indælir en afskaplega kómískir og frekar utan við sig - Hjalti kallar þá Skafta og Skapta og það er víst nokkuð nærri lagi ;)

Í kvöld er annars fyrsta kvöldið í ferðinni sem ég er blá-edrú, þetta er náttúrulega ekki hægt, en inn á milli er nú líka kannski í lagi að taka því rólega :p Á morgun stefnum við á Jazz konsert og þá heimta ég meira fjör! Í millitíðinni finnst mér að þið eigið að kommenta, eruð þið nokkuð öll búin að gleyma mér?!

laugardagur, september 20, 2008

Í gær, í dag, á morgun og hinn

Í gær vaknaði ég fyrir allar aldir, pantaði flutningabíl, hreinsaði restina af eigum okkar út úr íbúðinni á Svanevej, hitti húsvörðinn, skrifaði undir útflutningspappíra og skilaði lyklunum, tæmdi búslóðina okkar út úr geymslunni (eða jah, það var reyndar Þórir sem gerði það að mestu), beið eftir flutningabíl sem kom allt of seint, flutti farangurinn sem átti ekki að fara í skipið á hótel, fór í vinnuna (meðan Þórir, Gaui og Ketill fóru með flutningabílnum til Hvidovre og pökkuðu á brettin), borðaði með Gauja, Kristínu og Katli og var þreytt. Ógeðslega þreytt.

Í dag vaknaði ég um tíuleytið, enn frekar fáránlega mygluð, tékkaði út af hótelinu, fór með eina tóma gítartösku í póst, tók lest niður á Kastrup, kvaddi og knúsaði Þóri og bíð nú eftir rútu til Malmö. Þaðan liggur leiðinn á flugvöllinn í Sturup, til Katowice og svo aftur með rútu til Krakár. Þangað verð ég komin um 10 leytið í kvöld og Marta ætlar að bíða eftir mér á rútubílastöðinni :D

Á morgun fer ég og hitti host-manneskjuna mína í Kraká, stefni á að kaupa mér pólskt símanúmer og strætókort og sækja Hjalta á flugvöllinn.

Á mánudaginn hefst síðan skólinn, "information meeting" um morguninn þar sem prógramm næstu tveggja vikna ætti að koma í ljós, og svo tímar strax frá kl. 10!

Við erum búin að hafa svo marvíslegar áhyggjur af öllu mögulegu síðustu daga og vikur að núna, þegar allt virðist vera smollið saman og maður getur farið að hugsa lengra en hálfan dag fram í tímann án þess að fá svima, veit ég varla hvað ég á að gera af mér! Það er góð tilfinning að geta loksins leyft sér að hlakka til næstu vikna án þess að hafa sífellt "en fyrst þarf að..." í bakþankanum. Kraków, here I come! :D

mánudagur, september 15, 2008

Líður að lokum

Í dag er mánudagur. Á laugardaginn yfirgef ég Nørrebro og Kaupmannahöfn og held á vit ævintýranna í Kraká! Það er kannski eins gott að maður er að láta sig hverfa; nýnasista-vinir nágranna okkar í Hells Angels og innflytjendagengin hér í hverfinu eru eitthvað hvumpnir hverjir út í aðra þessa dagana og taka upp á því 2-3x á dag að skjóta eitthvað út í loftið. Ég er reyndar greinilega hálf-blind og heyrnarlaus gagnvart þessu því að aldrei verð ég vör við neitt, fyrr en það birtist í fréttum. En það er heldur engin ástæða til þess að bíða eftir því að maður lendi á vitlausum stað á vitlausum tíma...

Er í óðaönn að leysa upp heimilið þessa dagana, pökkunin er hætt að fylgja neinum rökréttum flokkunarlögmálum heldur ráfa ég bara um íbúðina og gríp það sem ég kem auga á og get sannfært mig um að þurfi ekki að nota þessa fáu daga sem eftir eru. Í síðustu tösku (jámm, við erum uppiskroppa með kassa en eigum nóg af töskum) lentu þrjár þykkar skólabækur, kökukefli, hárþurrka, skotapils, stuttbuxur, pönnukökupanna, skype-heyrnatól og tvær þykkar peysur. Í þeirri sem stendur opin á gólfinu núna eru so far brauðgrill, steikarpanna, sigti og kortabók. Var að ljúka við að bera kassa og plast-innpökkuð húsgögn niður í geymslu, fyrr í dag tætti ég svo sundur fataskápinn og kom honum út í gám svo að nú er gólfið í íbúðinni að mestu þakið haugum af fötum. Það litla borðpláss sem enn er eftir er hulið eldhúsáhöldum og pappírum sem ég veit ekki hvað ég á að gera við. Það verður annað hvort á morgun eða föstudaginn sem við losum okkur við öll húsgögn og á fimmtudaginn þarf að þrífa hátt og lágt og skila lyklum á föstudagsmorgun. Þá verður vonandi hægt að eyða næsta mánuðinum í pólskunám og fjör með góðri samvisku! :D

Mér finnst alltaf hálf dramatískt að flytja, en kannski bara af því að það er töluvert meira fyrirtæki að flytja milli landa. Formlega flyt ég reyndar ekki frá Danmörku fyrr en ég kem til Íslands - kringum 20.okt, þið getið farið að telja niður! ;) - en engu að síður kem ég ekki til með að eiga heimili aftur fyrr en okkur verður búið að takast að finna eitthvað húsnæði sem okkur hugnast að fjárfesta í á Íslandi. Vonandi verður það ekki of langt þvælingstímabil... þó að það sé gaman að þvælast og flakka er nefnilega þægilegra að eiga eitthvað "heim" til að snúa aftur til...

mánudagur, september 08, 2008

Arftaki Bjarkar?

Heyrt í vinnunni:

Pirrandi Dani með aulahúmor: Hey, ertu frá Noregi?
Ég: Nei, frá Íslandi reyndar.
Daninn: Ah, þekkirðu þá ekki Bobby Fisher? hahahah...

Viðkomandi virtist reyndar ekki þekkja betur til Fisher málsins en svo að það kom honum mjög á óvart að heyra að hann væri dauður og grafinn, svo maður ætti kannski ekki að ergja sig of mikið... ;)

Ég ætlaði annars að vera voðalega dugleg í dag, en afrek dagsins fram að þessu hafa ekki innihaldið meira en verkjatöfluát, svefn, msn og bloggerfikt. Og jú, ég setti reyndar í þvottavél. Mér finnst að það ætti ekki að vera leyfilegt að vera svona tuskulegur þegar maður hefur nóg annað við tímann að gera! Ætlaði að fara að horfa á Hvem vil være millionær? en komst svo að því að Zattoo (sjónvarpsveitan mín á netinu) er hætt að virka nema maður borgi fyrir hana. Svindl. Ég held þá bara áfram að bíða eftir að Wall-E downloadist. Flutningar á næsta leyti, íbúðaleit í fullum gangi. Þekkir nokkurt ykkar einhvern hér í Kaupmannahöfn sem vantar sárlega stóran (!) ikea-fataskáp? Gefins og allt... Og hvar á maður að leita sér að vinnu á Íslandi???