laugardagur, september 20, 2008

Í gær, í dag, á morgun og hinn

Í gær vaknaði ég fyrir allar aldir, pantaði flutningabíl, hreinsaði restina af eigum okkar út úr íbúðinni á Svanevej, hitti húsvörðinn, skrifaði undir útflutningspappíra og skilaði lyklunum, tæmdi búslóðina okkar út úr geymslunni (eða jah, það var reyndar Þórir sem gerði það að mestu), beið eftir flutningabíl sem kom allt of seint, flutti farangurinn sem átti ekki að fara í skipið á hótel, fór í vinnuna (meðan Þórir, Gaui og Ketill fóru með flutningabílnum til Hvidovre og pökkuðu á brettin), borðaði með Gauja, Kristínu og Katli og var þreytt. Ógeðslega þreytt.

Í dag vaknaði ég um tíuleytið, enn frekar fáránlega mygluð, tékkaði út af hótelinu, fór með eina tóma gítartösku í póst, tók lest niður á Kastrup, kvaddi og knúsaði Þóri og bíð nú eftir rútu til Malmö. Þaðan liggur leiðinn á flugvöllinn í Sturup, til Katowice og svo aftur með rútu til Krakár. Þangað verð ég komin um 10 leytið í kvöld og Marta ætlar að bíða eftir mér á rútubílastöðinni :D

Á morgun fer ég og hitti host-manneskjuna mína í Kraká, stefni á að kaupa mér pólskt símanúmer og strætókort og sækja Hjalta á flugvöllinn.

Á mánudaginn hefst síðan skólinn, "information meeting" um morguninn þar sem prógramm næstu tveggja vikna ætti að koma í ljós, og svo tímar strax frá kl. 10!

Við erum búin að hafa svo marvíslegar áhyggjur af öllu mögulegu síðustu daga og vikur að núna, þegar allt virðist vera smollið saman og maður getur farið að hugsa lengra en hálfan dag fram í tímann án þess að fá svima, veit ég varla hvað ég á að gera af mér! Það er góð tilfinning að geta loksins leyft sér að hlakka til næstu vikna án þess að hafa sífellt "en fyrst þarf að..." í bakþankanum. Kraków, here I come! :D