mánudagur, september 15, 2008

Líður að lokum

Í dag er mánudagur. Á laugardaginn yfirgef ég Nørrebro og Kaupmannahöfn og held á vit ævintýranna í Kraká! Það er kannski eins gott að maður er að láta sig hverfa; nýnasista-vinir nágranna okkar í Hells Angels og innflytjendagengin hér í hverfinu eru eitthvað hvumpnir hverjir út í aðra þessa dagana og taka upp á því 2-3x á dag að skjóta eitthvað út í loftið. Ég er reyndar greinilega hálf-blind og heyrnarlaus gagnvart þessu því að aldrei verð ég vör við neitt, fyrr en það birtist í fréttum. En það er heldur engin ástæða til þess að bíða eftir því að maður lendi á vitlausum stað á vitlausum tíma...

Er í óðaönn að leysa upp heimilið þessa dagana, pökkunin er hætt að fylgja neinum rökréttum flokkunarlögmálum heldur ráfa ég bara um íbúðina og gríp það sem ég kem auga á og get sannfært mig um að þurfi ekki að nota þessa fáu daga sem eftir eru. Í síðustu tösku (jámm, við erum uppiskroppa með kassa en eigum nóg af töskum) lentu þrjár þykkar skólabækur, kökukefli, hárþurrka, skotapils, stuttbuxur, pönnukökupanna, skype-heyrnatól og tvær þykkar peysur. Í þeirri sem stendur opin á gólfinu núna eru so far brauðgrill, steikarpanna, sigti og kortabók. Var að ljúka við að bera kassa og plast-innpökkuð húsgögn niður í geymslu, fyrr í dag tætti ég svo sundur fataskápinn og kom honum út í gám svo að nú er gólfið í íbúðinni að mestu þakið haugum af fötum. Það litla borðpláss sem enn er eftir er hulið eldhúsáhöldum og pappírum sem ég veit ekki hvað ég á að gera við. Það verður annað hvort á morgun eða föstudaginn sem við losum okkur við öll húsgögn og á fimmtudaginn þarf að þrífa hátt og lágt og skila lyklum á föstudagsmorgun. Þá verður vonandi hægt að eyða næsta mánuðinum í pólskunám og fjör með góðri samvisku! :D

Mér finnst alltaf hálf dramatískt að flytja, en kannski bara af því að það er töluvert meira fyrirtæki að flytja milli landa. Formlega flyt ég reyndar ekki frá Danmörku fyrr en ég kem til Íslands - kringum 20.okt, þið getið farið að telja niður! ;) - en engu að síður kem ég ekki til með að eiga heimili aftur fyrr en okkur verður búið að takast að finna eitthvað húsnæði sem okkur hugnast að fjárfesta í á Íslandi. Vonandi verður það ekki of langt þvælingstímabil... þó að það sé gaman að þvælast og flakka er nefnilega þægilegra að eiga eitthvað "heim" til að snúa aftur til...