mánudagur, febrúar 11, 2008

Óregla og mórall

Sólarhringurinn hér á þessu heimili er í eitthvað frekar miklu fokki. Í gær tókst okkur að slá öll met, fórum ekki á fætur fyrr en klukkan hálf-fimm (eftir að hafa vaknað upphaflega klukkan tvö og ákveðið að "kúra í svona 10 mínútur" áður en við færum framúr)... Þar með var auðvitað út úr myndinni að sofna fyrr en undir morgun í nótt og plan mitt um að byrja vikuna með dugnaði og sjálfsaga frekar ónýtt :( Gældi reyndar við þá tilhugsun að drífa mig bara á lappir eftir svona 3-4 tíma svefn og snúa svefnmynstrinu á farsælli hlið með valdi, en þegar það er ekkert sem bráðnauðsynlega þarf að sinna, og hin svefnpurkan á heimilinu liggur áfram værðarleg undir sænginni, þá er ég greinilega ekki nógu staðföst fyrir svoleiðis plön...

Meikaði loks að vakna upp úr eitt, dró Singer of Tales upp í rúm til mín, sofnaði ofan í hana svona 35-40 bls. seinna, og vaknaði aftur klukkan korter í fimm ;( Ég er glötuð... missti af kickbox tímanum sem byrjaði klukkan fimm, og er svo bara búin að sitja hér og vera pirruð út í sjálfa mig í tæpa tvo tíma. Fuss og svei... það er orðið of dimmt til að ég þori að fara út að skokka (alltaf verið að skjóta eitthvað fólk hér í nágrenninu, reyni að forðast að þvælast mikið ein úti í myrki!) og bölvaða sundlaugin lokar klukkan 16 á mánudögum, þannig að úrræði til að bæta upp fyrir leti mína eru af skornum skammti. Svo ég held bara áfram að vera örg og pirruð þar til mér dettur eitthvað skárra í hug.