fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Smá pása frá sjálfsævisagnalestrinum

...svona rétt til að láta vita að ég er á lífi.

Ég er s.s. að lesa sjálfsævisögu, afar hresst, þarf að skrifa ritgerð um hana um helgina og skila á mánudaginn. Á þriðjudaginn þarf ég svo að skila útdrætti úr einhverri grein og á fimmtudeginum rúmri viku seinna að skila ritgerð um aðra bók... já, verkefnaskil ákváðu sem sagt að bíta aðeins í rassinn á mér eftir leti febrúarmánaðar.

En það er líka ýmislegt annað sem ég ákvað að væri sniðugt að redda síðustu daga, eins og t.d. að fá mér skattkort (sem gekk brösuglega og er svo í þokkabót eitthvað dularfullt, þarf að láta skoða það nánar...), sækja um vinnu, undirbúa umsókn um húsaleigubætur og reka á eftir því að einkunnirnar mínar sendist til Íslands svo að ég fari að fá fokking námslánin... Urr, bara búin að safna skuldum við bæði bankann og móður mína þennan mánuðinn, og grey Þórir búinn að þurfa að borga flesta hluti... óþolandi ástand - vara hér með alla við sem íhuga skiptinám: gerið ráð fyrir að þurfa að bíða 1,5-2 mánuðum lengur en venjulega eftir námslánunum ykkar! ;( Þegar verkefnahrinunni lýkur get ég svo vonandi klárað að ganga frá húsaleigubótadæminu (asnalegt mál, þurfti að senda pappírana til Árósa til fá einhverjar kvittanir frá þeim sem eiga húsið, og guð má vita hvenær þeim þóknast að senda þá til baka), haldið áfram að reka á eftir námslánunum, sent skattkortið til Dominos og farið að vonast til að þeir borgi mér þessa tíma sem ég vann þar (humm, og kannski líka látið þá vita í leiðinni að ég hafi ekki í hyggju að vinna meira þar... það var víst aldrei almennilega búið að koma fram, suss suss...) - og svo kannski sótt um vinnu á fleiri stöðum, er allavega að spá í að henda inn Nordjobb umsókn og sjá hvað þeir geta boðið í Kaupmannahöfn, Malmö og nágrenni :) Úff, stundum finnst manni maður ekkert hafa að gera og svo loks þegar maður tekur sig til þá sér varla út úr augum fyrir verkefnum! En ég hef þá allavega ástæðu til að drífa mig framúr á morgnana, þó svona snúningar og kerfisvesen sé oftast ótrúlega lýjandi... ég var allavega bæði þreytt og pirruð síðustu tvö kvöld eftir að hafa eytt dögunum í slíkt.

Þá hafiði fengið nýjasta updeit af því sem er að hringsóla í hausnum á mér í bili, þar er allt í einum graut eins og þessi belg-og-biðu texti endurspeglar víst ágætlega! :p

Annars voru svo auðvitað gestir hér alla síðustu viku, fyrst Hjalti og svo Haukur bróðir minn, en ég ætla að geyma mér það að segja ferðasögur þeirra þangað til ég hendi inn relevant myndaalbúmum... Það verður vonandi um helgina :) Það eru annars komnar inn einhverjar myndir frá flutningunum hingað, sem og íbúðinni á Svanevej - ég var byrjuð að henda inn Finnlandsmyndum en það fraus svo allt og eyddist út aftur ;( svo ég geri aðra tilraun með það fljótlega, kannski bara um helgina líka (ef mér leiðist við verkefnaskrifin).

En já, hann Magnús Magnússon býður víst, með spennandi frásagnir úr lífi sínu og starfi... grunar reyndar að ég hafi rétt verið að ljúka við hressustu kaflana; menntaskólaárin og einhverjar stiklur úr fyrstu ástarævintýrum og kynlífsreynslu... og þó, á einn kafla eftir sem virðist fjalla að mestu um drykkjuskap - það gæti orðið hresst líka ;)