þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Af danskri drykkjumenningu og fleiri furðum

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við hverfið okkar er hvað þetta er alltsaman yndislega mikill suðupottur. Á götunum heyrist iðullega alls konar sambland af dönsku, ensku, spænsku, arabísku, persnesku og áreiðanlega fleiri tungumálum sem ég kann ekki að greina (furðu lítið af íslensku, annars, miðað við suma aðra hluta Kaupmannahafnar), flestar verslanir auglýsa bæði á dönsku og arabísku, út um allt eru alls konar sérverslanir með asíska og afríska matvöru, international calling cards eru mikið auglýst vara og ef maður hefur áhuga á "þjóðlegum" miðausturlenskum listviðburðum þá er hægt að finna nóg af upplýsingum um slíkar uppákomur innan um bleðlana sem auglýsa "andelsbolig til salg" eða "bliv slank på den fede måde" á Nørrebro station og auglýsingatöflum stórmarkaðanna. Reyndar fylgja líka neikvæðari hliðar með í menningarblöndunni og árekstrar virðast vera ansi tíðir. Brotnar og sprungnar rúður í verslunarhúsnæði, auglýsingaskiltum og strætóskýlum eru nánast dagleg sjón og þó maður hafi blessunarlega ekki orðið vitni að því (ennþá...) þá berast reglulega fréttir af vopnuðum átökum í nágrenninu.

En það var svo sem ekki það sem ég ætlaði að tala (eða skrifa) um. Við erum búin að detta niður á eina svona etníska verslun rétt hjá lestarstöðinni sem virðist vera nokkuð sniðug, þrátt fyrir að vera hvorki vel skipulögð né snyrtileg/aðlaðandi, þá hefur hún það sér til ágætis að selja ýmis konar paste, krydd, baunir og annað gums sem okkur finnst sniðugt að blanda út í matinn okkar, auk þess að vera opin að því er virðist alltaf. Það sem mér fannst eiginlega áhugaverðast í tengslum við "uppgötvunina" á þessari verslun (og þá komum við aftur að danska elementinu í fjölmenningunni) er að við hliðina á henni er lítil bodega, svona gamaldags, reykmettuð, dönsk krá, sem auglýsir stórum stöfum fyrir utan: TILBOÐ MILLI 08.00 OG 12.00 - STÓR BJÓR + SKOT/SNAPS Á 20 KR. Fyrst ákvað ég með sjálfri mér að þeir hlytu að vera að meina átta að kvöldi til miðnættis, en þegar ég sá að hinumegin á skiltinu var annað tilboð sem gilti frá 12-15, þá... æj, Danir...

Í nauðum okkar vegna sjónvarpsleysis (þ.e. sjónvarpsstöðvaleysis) erum við búin að fjárfesta í rúmlega sólarhring af sjónvarpsþáttum í dag, þar af 21 klst. af rómverskum keisurum (Rome I + I, Claudius) og þar til viðbótar kvikmyndinni Gladiatior. Það verður því rómverskt þema hér næstu dagana, hugsanlega brotið upp inn á milli af Blackadder, sem á heiðurinn af klukkutímunum sem upp á vantar. Það þarf sko víst að hafa fyrir því að vera latur... hmm. Eða, já, þú veist, eitthvað... kominn matur!