mánudagur, september 10, 2007

Framhald...

Jámm, byrjunin á þessu málæði mínu er hér í næstu færslu á undan. Hvert var ég nú komin...

Já, það fór s.s. þannig að þessir gaurar sem héldu því fram að þeir þekktu mig settust hjá hópi af krökkum sem þeir þóttust líka þekkja, en þekktu samt ekki neitt eins og ég komst að þegar ég fór að tala við það. Frank Jensen fannst hann endilega þurfa að kenna mér að kynnast fólki svo mér leiddist ekki svona mikið, en m.v. hans hugmyndir um hverja hann þekkti og hverja ekki fannst mér það ólíklegt til árangurs. Þegar ég fór svo að tala við stelpuna sem sat á móti mér við borðið kom í ljós að hún þekkti heldur ekkert af þessu fólki, hafði bara sest þarna og þóst þekkja einhvern af því að vinkona hennar var búin að vera úti að reykja í 2 klukkutíma og henni leiddist. Ég veit ekki alveg... ég er greinilega ekki alveg nógu outgoing til að finnast í lagi að setjast inn í einhvern hóp þar sem ég þekki engan og "þykjast" vera með... en svoleiðis virkar það kannski bara hér?

Að minnsta kosti endaði ég á því næsta klukkutímann að eiga ógurlegt samtal við Christel, fyrsta árs nema í grísku, þar sem vinkona hennar var ekkert á því að snúa aftur úr reykingapásunni. Jensen-gaurarnir voru ekki alveg nógu sáttir við það áhugaleysi sem þeim var sýnt, a.m.k. fóru þeir á klósettið og komu aldrei aftur. Við söknuðum þeirra ekkert agalega og héldum bara áfram að drekka bjór, skammast yfir fullum strákum og erfiðum vinum, hrista hausinn yfir misgáfulegu tónlistarvali og tala einhver ósköp um Ísland og Danmörku. Þegar reykingavinkonan sneri svo loks til baka þá var það til að tilkynna að farið þeirra heim til Gentofte (sem er úti í buskanum = engar lestir á næturnar) væri að bíða, og þar sem drukkna liðið á svæðinu var um þetta leyti enn drukknara en áður nennti ég ómögulega að vera eitthvað ein aftur svo ég fór bara heim... Ágætis kvöld samt sem áður, þrátt fyrir furðulegheit ;)

Á laugardaginn sváfum við fram að hádegi og elduðum svo lasagna heima hjá Gaua og Kristínu. Síðan var eitthvað á planinu mínu að fara í annað skólapartý, fyrir skiptinema, en þar sem Gaui og Þórir þurftu fyrst að fara og hjálpa Katli að blanda mojito fyrir partý á Grønjords og ég var ómögulega að nenna að fara aftur ein að djamma horfði ég bara á Transformers með Kristínu í staðinn. Seinna um kvöldið þegar við Þórir gerðum tilraun til að joina þetta partý var staðurinn svo orðinn það fullur að þeir voru ekkert á því að hleypa of mörgum inn í viðbót. Svo við fórum bara heim að sofa.

Á sunnudaginn sváfum við aftur fram að hádegi og gerðumst svo ógurlega menningarleg og tókum 3ja tíma göngutúr um söguslóðir í miðbænum. (Myndir frá því og kanal-siglingunni sem við fórum í á miðvikudaginn og var líka einstaklega menningarleg koma kannski á netið einhvern tímann...) Þrátt fyrir þann dugnað var ég greinilega búin að klára svefn kvótann yfir helgina og lá andvaka af þreytuleysi næstum alla síðustu nótt - einkar óhentugt þar sem ég var aldrei þessu vant búin að plana að vakna eldsnemma og heimsækja skrifstofu í kollegíi sem við erum að reyna að komast inn á og er bara opin milli 8 og 9. Það hafðist samt (að vakna þ.e.a.s.) þó að fólkið á þessari skrifstofu hafi nú ekki haft neitt af viti að segja...

Og þetta allt saman er s.s. ástæðan fyrir því að ég sat hér í svefngalsa klukkan níu í morgun og reytti af mér aulabrandarana og ákvað svo að rekja ævisögu mína síðustu 3 dagana í minimalískum detailum. Þannig var nú það 8-)