föstudagur, september 14, 2007

Góður dagur

Á fyrsta fundinum sem ég fór á í skiptinemaprógramminu hér fengum við smá fyrirlestur um "kulturshok", eins og þeir vilja stafsetja það hér ;) Þar var því haldið fram að flestir skiptinemar gengu í gegnum ferli sem byrjaði á "tourist/honeymoon period" (allt er nýtt og spennandi og svo margt að gera og skoða), svo kæmi "shock period" (hversdagsleikinn tekur yfir, maður fer að reka sig á veggi, sakna heimalandsins og ergja sig yfir öllu sem er öðruvísi en það sem maður þekkir) og endi svo á "acceptance period" (farinn að læra á kerfið og skilja hvernig hlutirnir virka, lendir sjaldnar í veseni og fer að leggja sig fram um að passa inn í samfélagið).

Ég held að þegar maður fer milli landa / samfélaga sem eru jafn lík og tengd og Ísland og Danmörk þá verði þetta meira þannig að maður upplifi öll þessi "stig" í einu. A.m.k. sveiflast ég núna milli þess að finnast einn daginn allt vera voðalega skemmtilegt og spennandi, gaman í skólanum, ákveðin í að finna út úr öllu því sem ég er ekki enn að fatta við kerfið hérna og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera, en næsta dag er ég ekki mönnum sinnandi því allt er svo ömurlega mikið vesen og leiðindi, ég skil ekki neitt og ekkert vill ganga upp hjá mér...

En í dag er allavega búinn að vera góður dagur :) Ég fór og keypti áskriftarkort í lestirnar, sem er búið að standa til lengi, stofnaði mér reikning í dönskum banka og fór svo og talaði við námsráðgjafa í tónlistarfræðideildinni, svo að ég geti skráð mig þar, svo að ég megi taka prófið í kúrsinum sem ég er í þar og til að ég fái aðgang að bókasafninu þar, en allt lesefni fyrir umræddan kúrs er geymt þar og svo á maður bara að ljósrita... síðan kom ég heim, þvoði allan þvottinn, tók til og skúraði og ætla núna að fara að baka snúða, og svo erum við að fara út að borða sushi í kvöld, í tilefni þess að Björn, vinur Þóris, var að verja mastersverkefnið sitt í morgun og því líkast til formlega orðinn verkfræðingur. Og tölvan mín ákvað meira að segja að henni þóknaðist að tengjast netinu, svona í tilefni dagsins! :D

En ég var samt búin að lofa einhverjum myndum, áður en ég fer að baka... ;)

Við fórum s.s. í siglingu á svona bát í síðustu viku, og sigldum um síkin í Kaupmannahöfn.

Í bakgrunni eru höfuðstöðvar Maersk, "húsið með bláu augun"... Að sögn Dana er Maersk næst þekktasta danska vörumerki í heiminum (næst á eftir Carlsberg auðvitað!), en ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að það væri danskt... hefði helst giskað á hollenskt. En það var víst líka gaurinn sem á Maersk sem lét byggja þetta óperuhús, sem stendur beint á móti Amalienborg.
Danir eru mjög hrifnir af nýstárlegum arkitektúr... á öðrum stað við sama kanal er svo verið að byggja nýtt þjóðleikhús sem er ekki alveg jafn funky og þetta, en samt frekar spes.

Hér eru gosbrunnarnir í Amalienborg, ef vel er gáð má sjá sama óperuhúsið í bakgrunninum ;) þetta stendur s.s. í beinni línu, sitthvoru megin við kanalinn, og bak við Amalienborg er síðan Friðrikskirkjan/Marmarakirkjan, sem mér skilst að sé með eitt stærsta hvolfþak í Evrópu.

Þórir á torginu í Amalienborg að lesa leiðabók:

Þar voru líka svona skemmtilegir hallarlífverðir að marsera, láðist samt að taka mynd af þeim... almennt séð hef ég greinilega verið mun duglegri að taka myndir af húsum en fólki, en það helgast kannski af því að ég hef ekki haft neitt ógurlega mikið af fólki að taka myndir af, og þó Þórir sé náttúrulega sætur dugar kannski ekki að birta eintómar myndir af honum ;)

Varð líka að skella hér inn einni mynd af kóngastyttu, af þeim er nú víst sannarlega nóg! Minnir að þetta hafi verið Friðrik IV... þori samt ekki að sverja fyrir það, þeir eru allir meira og minna eins. Þessi skartar þó afar skemmtilegu höfuðskrauti, ef vel er að gáð...