mánudagur, september 24, 2007

Ég verð að blogga oftar...

...svo að þetta verði ekki alltaf svona ógurlega langt hjá mér! En hvað um það...

Ég er búin að vera á leiðinni að setja í þvottavél í meira en klukkutíma... en það er allt of erfitt að standa upp úr stólnum og labba niður í kjallara. Held ég sé búin að ákveða að ég nenni ekki fram að þvo fyrr en ég þarf hvort eð er að fara fram og elda... sem verður eftir svona 20 mínútur... best að blogga þangað til!

Fæturnir mínir hafa samt ástæðu fyrir að vera latir og nenna ekki að labba niður í þvottahús, ég var nefnilega svo ógurlega dugleg að skokka einhver ósköp áðan. Komst að því í síðustu viku að það er voðalega hentugt að skokka í svona garði/skógi/órækt sem er hérna bara rétt hinumegin við 3 götur. Komst aftur á móti að því í dag að það er líklegast best að gera það meðan er enn bjart, það var allavega frekar drungalegt inn á milli trjánna í myrkrinu (Dönum finnst götulýsing ekki góð hugmynd nema upp að því marki sem er algerlega nauðsynlegt) og ég átti allan tímann hálfpartinn von á því að einhverjir rónar og heimilisleysingjar tækju upp á því að birtast út úr runnunum og bögga mig... en ég hljóp þá kannski bara hraðar fyrir vikið ;)

Það eina sem er ekki nógu sniðugt við þessa uppgötvun mína er að við erum að fara að flytja héðan eftir bara 2 daga... og þá þarf ég að finna mér nýjan stað til að vera dugleg og skokka á! Flutningarnir eru aftur á móti mjög sniðugir að öllu öðru leyti :D ég hlakka til að eiga meira pláss, eldhús sem ég þarf ekki að deila með heilli hæð af fólki og m.a.s. fínasta borðstofuborð :) Við fáum nefnilega öll húsgögn með íbúðinni, sem við erum að fara að leigja af norskri stelpu fram að áramótum. Eftir að hafa skoðað alla möguleika sem okkur duttu í hug í íbúðamálum síðustu 2-3 vikurnar vorum við komin að þeirri niðurstöðu að kollegíin væru ekkert að fara að flýta sér að bjóða okkur húsnæði, svo að þetta var ágætis millibilslausn :) En nýtt aðsetur okkar, frá og með miðvikudeginum, verður s.s. í Vanløse, sem er hverfi aðeins norðvestan við miðbæinn í Kaupmannahöfn. Lofa nýjum myndum þegar við verðum flutt ;)

Svo er ég að fara til Finnlands 12.október; mamma, pabbi, Helga og Hildur koma í heimsókn 24.október og Marta og Tomek ætla að koma 29.nóvember :D

Og þá er ég farin að elda...!