mánudagur, september 10, 2007

Sitt lítið af hverju og allt of mikið af öllu

Meðan ég er að vinna upp bloggletina verðið þið bara að sætta ykkur við langlokur, hef allt of margt að segja til að það komist fyrir í samlokum! (hohoho... ég er svo sniðug...) Aulafyndnin á sér samt sínar skýringar, sem munu væntanlega koma fram einhvers staðar í sögunni. En byrjum á þessu:

Tölvan mín er með endalaust bögg, sem gerir mig óendanlega pirraða þar sem nýjir hlutir eiga að mínu mati að virka og sleppa því að vera með leiðindi. Ég hef ákveðið að kenna Windows Vista um vesenið og er því núna að bíða eftir að fá senda stýrikerfis diska fyrir xp að heiman til að skipta því út. Eins gott að það virki! Annars verð ég enn meira en óendanlega pirruð og hendi tölvunni örugglega út um gluggann... eða eitthvað í þá átt.

Núna í millitíðinni er ég einkum að stelast í tölvuna hans Þóris, eða nota "IT" tölvurnar í skólanum (eins og núna)... sem verður til þess að ég er mjög dugleg að rugla saman dönskum og íslenskum lyklaborðsstillingum og skrifa nafnið mitt með "øu" í staðinn fyrir ú og víxla endalaust ð og å.

Á föstudaginn ákvað ég að kíkja í einhvers konar partý sem skorin mín hélt í tilefni af skólabyrjun. Það var mjög spes á allan hátt. Planið var að draga Þóri og jafnvel einhverja fleiri með en þar sem hann lá í rúminu endaði ég á að fara ein. Djammið var haldið í skólanum, búið að leggja stofurnar í 1-2 álmum undir diskótek og bari, reisa hljómsveitarsvið fyrir framan sagnfræðibókasafnið og setja upp einhvers konar "rómantísk" borð (með kertaljósum og bleikum kreppappír) eftir einum ganginum. Þetta var svona eins og sambland af skemmtistað og sveitaballi í tjaldi, fólk var ansi duglegt að hella bjór á gólfið (gjarna með viðkomu á fötum þeirra sem næst stóðu), það var bara eitt (!!!) kvennaklósett sem virkaði á öllu svæðinu, hvert sem maður sneri sér sá maður a.m.k. eitt kófdrukkið par í innilegu keleríi og yfir allt saman var blastað Greased Lightning og It's my life.

Eftir að hafa ráfað um í svona hálftíma-klukkutíma, drukkið tvo bjóra, pælt svolítið í því hvað það þætti súrrealískt á Íslandi að halda svona samkomu í skóla, gert eina árangurslausa tilraun til að komast á þetta eina kvennaklósett, flúið tvo útúr drukkna sagnfræðinema og einn fornleifafræðinema sem vildu endilega tala við mig en voru í engu standi til að halda uppi samræðum... þá settist ég niður og ákvað að skrifa eitt sms heim til Íslands og væla yfir því að mig vantaði einhvern að djamma með, svona áður en ég færi að koma mér heim. Ég var rétt sest þegar einhver slær í öxlina á mér og segir "hey, á ekki einu sinni að segja hæ?!" Ég sný mér við, eitt spurningamerki, og horfi framan í einhvern strák sem ég hef aldrei séð áður. "Manstu ekki eftir mér, við hittumst síðasta föstudag?"

Ehm... Þannig hófust s.s. kynni mín af Frank Jensen og vini-hans-Jensen (sem hét einhverju ómögulegu nafni sem ég gat ekki borið fram) sem stóðu á því fastar en fótunum að ég hefði hitt þá í einhverju partíi í Hvidovre síðasta föstudag og fannst allt tal um að ég hefði nú eiginlega verið veik heima á Íslandi það kvöld bara vera léleg afsökun fyrir að muna ekki eftir þeim. En þar sem ég var frekar desperat eftir einhverjum félagsskap þarna og þeir voru þó aðeins minna drukknir en aðrir sem höfðu gert tilraun til að tala við mig fram að þessu, og vildu þar að auki endilega kynna mig fyrir einhverju fólki lét ég til leiðast og settist með þeim hjá einhverjum hóp af krökkum við næsta borð.

...úps, ég þarf að mæta í færeyskutíma, framhald verður birt að því loknu, eða kannski í kvöld... eða kannski bara eftir svona hálftíma ef tíminn skyldi falla niður, sem hafa verið örlög allra færeyskutímanna minna fram að þessu. En allavega... sagan er ekki búin ;)