mánudagur, maí 14, 2007

Ópersónulegu sagnirnar ráða ríkjum

Mig verkjar í ljóta brunasárið sem ég fékk í síðustu viku. Akkúrat núna lítur það frekar mikið út eins og helmingurinn af skinninu á fingrinum hafi ákveðið að deyja og rotna af. Ekki geðslegt og fjandi vont.

Mig langar út í góða veðrið. Á hestbak, í sund, að spila fótbolta eða bara liggja í leti einhvers staðar og láta sólina skína á mig. Vona að það verði gott veður í allt sumar svo að ég geti gert eitthvað skemmtilegt þegar fleiri eru komnir í frí :)

Mig skortir algerlega einbeitingu við að læra. Fussumsvei. Á eftir að klára eina fjandans ritgerð sem að þýðir ekki að sitja endalaust yfir. Þyrfti að fá smá spark í rassinn til að koma mér af stað.

Mig dreymir tóma vitleysu þessa dagana. Aðfaranótt laugardagsins dreymdi mig ógurlega langloku um sjóræningja og risaeðlur sem hefði sómt sér vel í hrollvekju fyrir börn. Var ekki einhvern tímann einhver sem fékk svo miklar martraðir að hann ákvað að hafa skrifblokk við rúmið og skrifa alltaf niður draumana sína um leið og hann vaknaði og meikaði svo milljónir á því að skrifa handrit að hryllingsmyndum? Kannski það sé góð leið til að safna fyrir afborgunum af námslánunum...