þriðjudagur, maí 08, 2007

Kosningar

Það hringdi í mig stelpa í gær og byrjaði samtalið á því að óska mér til hamingju með kosningaréttinn. Ég tilkynnti henni, sármóðguð að sjálfsögðu, að ég væri nú búin að njóta þess réttar í þónokkur ár. Kannski hef ég verið voðalega grimm og leiðinleg, allavega voru tilraunirnar til að sannfæra mig um hvað ég ætti að kjósa, sem fylgdu í kjölfarið, frekar aumingjalegar.

Ég verð að viðurkenna að ég er agalega lítið spennt fyrir komandi kosningum. Ég nenni ekki einu sinni að fylgjast nógu vel með til að vera með á nótunum hvað það er sem hinir pólitískari vinir mínir eru að þræta um á bloggsíðum sínum. Kannski ætti ég að gera það samt, þar sem að ég hef enn voða litla hugmynd um það hvað ég ætla að kjósa. Reyndar finnst mér alltaf ógurlega lítið upp úr því að hafa hverju stjórnmálamenn lofa og hóta síðustu vikur fyrir kosningar. Mun betra að fylgjast með því hvað þeir gera af sér restina af kjörtímabilinu.

En ég tók þó allavega svona próf:
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 50%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 23%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Hvað ætli sé svo að marka þetta?