fimmtudagur, maí 10, 2007

Just so typically me

Hversu mikill klaufabárður er hægt að vera á einu kvöldi? Ansi mikill greinilega þegar ég á í hlut...

Raunasagan byrjaði á því að mér þótti ekki nóg að skera niður lauk í matinn minn heldur varð ég að sneiða svolítið framan af einum fingri líka. Jæja, ekkert stórmál, slíkt gerist þegar ég og hnífar eru annars vegar svo að ég skellti bara plástri á puttann og hélt áfram að elda.

Eftir matinn ákvað ég að það væri sniðug hugmynd að færa til eins og eina bókahillu sem mér fannst ekki vera á nógu góðum stað. En efsta hillan ("þakið") var greinilega ekki sérlega vel föst og ég tók eitthvað vitlaust á henni svo að hún hreinlega rifnaði af og naglarnir, sem ekki gat þóknast að halda hillunni saman, réðust á næsta putta. Vei.

Jæja. Þegar ég var búin að skella plástri á fingur númer tvö, þrífa blóðið af hillunni og negla hana betur saman kom mamma í heimsókn svo að ég ákvað að laga kaffi. Slæm hugmynd... Það var víst eitthvað pappírssnifsi undir kaffikönnunni, sem byrjaði að brenna á hellunni með tilheyrandi brunalykt, svo að ég kippti könnunni upp til að finna út hvað væri að. En hún var auðvitað full af sjóðandi kaffi sem mér tókst að sulla yfir hendina á mér og fyrstu viðbrögð við þeim sársauka voru að leggja könnuna frá mér. Á gólfið. Sem er með plastdúk. Æjæjæj...

Svo nú sit ég uppi með plástra á fjórum fingrum, kringlótt gat í eldhúsgófinu og samsvarandi kringlótt plaststykki undir botninum á kaffikönnunni minni. Föstudagurinn þrettándi hvað...