miðvikudagur, maí 30, 2007

Sumar

Já, sumarið hætti sem betur við að hætta við að koma og það er orðið skaplega hlýtt aftur. Skilst að við eigum bráðum að fá að finna fyrir áhrifum hitabylgjunnar í Rússlandi og þar sem ég er agaleg kuldaskræfa finnst mér það hið besta mál. Bara betri ástæða til að fara í sund og borða ís, sem er að sjálfsögðu það sem sumarið snýst um. Fyrir utan að fara í ferðalög og skemmta sér, en það lítur út fyrir að það verði coverað ágætlega líka :)

Ég er komin á nýjan bíl sem er hinn ágætasti fyrir utan að mér líður agalega mikið eins og ég sé 35 ára þriggja barna móðir á leiðinni að sækja einhvern á fótboltaæfingu eða í tónlistartíma þegar ég rúnta um á honum. Þið munuð vita hvað ég á við ef þið sjáið mig einhvern tímann á honum ;) En það venst... örugglega. Allavega nóg pláss í honum, og hann er hvorki yfir tíu ára gamall né rétt að fara að gefa upp öndina eins og síðustu tveir bílar sem ég hef haft afnot af. Og hver hefði trúað því að mér tækist að skrifa tíu línur um bíla!? ekki ég...

Annars mótmæli ég hér með harðlega kommenta-letinni sem er í gangi hér! Ekki nema ein athugasemd við síðustu fjórar færslur, þarf ég kannski að halda dramatíkinni hér á hærra stigi til að þið nennið að tjá ykkur...? ;)