föstudagur, desember 05, 2008

Tilraun til upprisu

Jæja, þá er komið að því að reyna að endurvekja þetta auma blogg, þegar meira að segja mamma mín er farin að tjá sig um þögnina sem hér hefur ríkt...

En ég er sem sagt, eins og ég vona að flestir viti nú, löngu komin heim frá Póllandi og snúin frá Danmörku til Íslands. Það var ekki alveg sársaukalaust, þó að það hafi verið indælt að hitta alla Íslendingana sína á ný tók við ansi langdreginn og leiðinlegur kafli þar sem árangurslaus atvinnuleit og húsnæðisleit ásamt almennum blankheitum og óvissu gerði sálartetrinu gramt í geði. Því er ekki að neita að ég óskaði þess oft á þessum vikum að ég hefði bara verið kyrr í Skandinavíu og þyrfti ekki að pæla í öllu þessu rugli... Hress og sjúskuð partý um hverja helgi bættu ástandið nú samt að einhverju leyti ;) Kórinn hefur alltaf staðið fyrir sínu!

En allt rugl tekur enda um síðir... eða dregur úr því að minnsta kosti. Síðustu 2 vikurnar hef ég verið að kenna forföll upp á næstum hvern dag í Skólanum á Heimsenda og á morgun er stefnan að hitta verðandi leigusalann okkar og skrifa undir húsaleigusamning... Ef allt gengur að óskum verður svo flutt öðru hvoru megin við næstu helgi :D

Akkúrat núna sit ég svo bara með snakk og gos og drekk í mig hámenninguna Mamma Mia með tveimur gelgjum og veikum ketti. Það er þó aldrei að vita nema kvöldið beri eitthvað annað og meira með sér, partý sem býður og spurning að kíkja, þó ekki sé nema til að skála fyrir Þóri - sem rúllaði upp mastersvörninni sinni í morgun og er nú opinberlega orðinn verkfræðingur :D Til hamingju með það, ástin mín ;*