laugardagur, október 04, 2008

Fréttir, fréttir og myndir!

Jæja, hvað varð nú um bloggdugnaðinn mikla... Best að reyna að halda honum við ;)

Um síðustu helgi fórum við Hjalti, Marta og Tomek til Lanckorona, gamals smábæjar við rætur fjallanna. Lögðum af stað um hádegi á laugardag að leita að rútunni okkar á ansi frumstæðu og óskipulögðu rútubílastæði niðri í bæ, þar sem smárútur komu og fóru án þess að það virtist vera nein regla í gangi. Þegar við mættum á staðinn var bíllinn okkar hvergi sjáanlegur og ekki hressti það okkur mjög mikið þegar maður vatt sér upp að okkur og útskýrði að næsta rúta á undan, sem átti að fara kl. 10, hefði bara aldrei komið! Allt fólkið sem hafði ætlað með henni var s.s. bara enn að bíða... Við stóðum því og tvístigum í svona 20 mínútur, þar til bölvaður bíllinn mætti loks örfáum mínútum fyrir eitt, þá tók við kapphlaup og troðningur að koma sér inn, þar sem að bíllinn var ekki alveg að höndla þennan tvöfalda skammt af fólki. Það tókst samt og við náðum í sæti aftast í bílnum, sem varð á endanum frekar mikið troðinn...!

Við sátum svo bara eins og sardínur í dós þar til við komumst á leiðarenda. Það kom í ljós að það var einhvers konar ljósmyndanema-ráðstefna í gangi í þessum bæ og í þeim hóp voru krakkar sem Tomek kannaðist við, svo við byrjuðum á að þramma með þeim inn í skóg að leita uppi gamla sundlaug - þurftum hvort eð er að bíða 2-3 tíma eftir að komast inn á hostelið, sem var bara lok lok og læs til kl. 17. En sundlaugin í skóginum var nú bara frekar flott, gat alveg séð fyrir mér að það væri kúl að baða sig þarna á heitum sumardögum...

Alveg sniðið fyrir sundlaugarpartý líka, væri hægt að hafa grill og drykki á bakkanum og svona ;)

En hún hefur víst ekki verið notuð í mörg ár, og stendur venjulega tóm, bara vatn í henni núna því að það var búið að rigna svo mikið. En þetta var einmitt fyrsta helgin í nokkrar vikur sem var gott veður, við heppin :D veðrið var svo reyndar fínt meira og minna í vikunni, nema í dag var hellirigning á ný, ógurlega haustlegt veður og laufin hrundu af trjánum...

Tomek að fara að stinga sér til sunds :D

Eftir að við komumst svo inn á hostelið fórum við og fengum okkur að borða í bænum, sem var voða lítill og sætur með fullt af gömlum tréhúsum frá 19.öld, um kvöldið var svo drukkið á hostelinu, fyrst með ljósmynda-nemunum, en þegar þau (og Tomek) voru farin að ljósmyndanördast full mikið, setja upp stúdíó í einu herberginu og fara út að taka myndir af stjörnunum og svona (grunar að ég viti núna hvernig ekki-kórfólk upplifi söng stemninguna í kórpartýum! :p) enduðum við Marta og Hjalti bara á kojutrúnó í staðinn ;)

Daginn eftir þrömmuðum við upp að kastalarústum sem eru í hlíðinni ofan við bæinn, byggður af Kazimierz mikla á 14.öld skildist mér, og þrömmuðum svo eitthvað meira gegnum skóginn, týndumst smá í leit að einhverri kirkju (sem ég held samt við höfum fundið á endanum, eða þá að við fundum allavega einhverja aðra kirkju) og lágum svo í leti í sólinni á bæjartorginu meðan við biðum eftir rútunni til baka. Myndasyrpa...:

Kastali.

Marta og Tomek í skóginum.

Kirkjugarðurinn við þessa kirkju sem við fundum svo á endanum var frekar voldugur.

Marta, Tomek og Hjalti í sólinni.

Gömlu húsin í Lanckorona.

Við biðum reyndar víst eftir rútunni á vitlausum stað, en hún stoppaði nú samt þó við fengjum smá tiltal fyrir að vera ekki á "réttu stoppistöðinni". Það reyndist aftur á móti vera afar heppilegur misskilningur hjá okkur þar sem að allt ljósmyndara liðið kom upp í þar og bíllinn var á endanum enn troðnari en í fyrra skiptið, en þá vorum við löngu búin að koma okkur vel fyrir í sætunum ;)

Á mánudaginn héldum við svo aftur í skólann. Seinnipartinn fórum við í mjög áhugaverða skoðunarferð til Nova Huta, hverfis sem var planað og byggt að fyrirskipan Stalíns á 6.áratugnum og er hugsað sem eins konar útópísk kommúnistaborg, en ég gleymdi því miður myndavélinni heima :( stefnum samt á að fara þangað aftur seinna, skoða aðeins meira á okkar eigin vegum og taka þá myndir... sjálfsagt nóg overload af myndum í þessari færslu samt! ;)

Síðan þá höfum við bara eytt tíma okkar meira og minna í skólanum á daginn og á kaffihúsum og börum á kvöldin ;) Ég hef ekki verið alveg nógu dugleg að veifa myndavélinni við svoleiðis tækifæri, en suma staði eigum við nú pottþétt eftir að heimsækja aftur, t.d. einn æðislegan stað í Kazimierz hverfinu þar sem allt er skreytt með (mis)gömlum hljóðfærum, mjög töff - og góður matur líka :D Þar smakkaði ég annars einmitt afar spes útgáfu af bjór, hélt ég væri bara að panta venjulegan bjór "með djús" (þá er sett síróp, yfirleitt með hindberjabragði, út í bjórinn, voða vinsælt stelpu-dæmi hér) en þá reyndist hann vera heitur! Mjög sérstakt, og ekki eins vont og það hljómar, en kannski ekki eitthvað sem ég mun leggja í vana minn að drekka heldur ;)

Eitt kvöld tók ég þó myndavélina með, aðallega til að festa nýja háralitinn minn á filmu ;D

Ótrúlega mikið í stíl við vegginn...!

Í gær, föstudag, var svo síðasti kennsludagur úr þessu námskeiði, sem endaði með prófskírteinaafhendingu og kveðjuhófi. Þar var teigaður ókeypis bjór milli 2 og 4, svo þegar við komum heim fannst okkur ekkert taka því að hætta að drekka svo við skelltum í okkur því sem til var af bjór í ísskápnum og héldum svo niður í bæ um sexleytið. Það var þó greinilega ekki mínútu of snemma - háskólinn er nýbyrjaður og allir stúdentarnir greinilega mættir á djammið, svo að það var með naumindum að við fengum borð. Marta og Tomek joinuðu svo aftur síðar um kvöldið, og við sátum að sumbli fram undir miðnótt. Dagurinn í dag fór svo bara í þynnku, pizzuát, þvæling í Galeria Krakowska og árangurslausa sokkaleit, og svo videógláp nú í kvöld. Á morgun stefnum við á að vera hressari, túristast í Smocza Jama (drekahellirinn undir Wawel kastalanum) og hugsanlega tékka á sunnudagsstemningunni á börunum ;) Eftir helgina byrjar nýtt námskeið og þá förum við í framhaldshóp, en þeir byrja ekki fyrr en á þriðjudag, svo það er um að gera að nýta 3 daga helgina ;D

ps. Hef greinilega smitast frekar mikið af mynda-brjálæðis-bloggum frá Birnu, sorry Birna mín að ég sé að herma!