miðvikudagur, mars 14, 2007

Velkomin heim

Mér finnst alltaf jafn skondið þegar flugfreyjurnar bjóða mann velkominn heim við lendingu í Keflavík. Svo voðalega kammó eitthvað. Sama hvað við reynum að sannfæra okkur um að við séum stór og mikilvæg held ég að Íslendingar geti ekki neitað því að þeim finnst ágætt að vera smáþjóð.

Ég er sem sagt orðin 22 ára, búin að halda afmælisveislu og liggja í rúminu vegna þynnku daginn eftir, fara til Danmerkur, skoða skólann sem ég stefni á að fara í næsta vetur, labba Strikið þó nokkrum sinnum fram og til baka, sjá ógrynni af dönskum lögreglubílum og eitthvað töluvert minna af mótmælendum, reyna mitt besta til að lesa leiðabók í rigningu án þess að skemma hana og án þess að líta óhóflega mikið út eins og túristi, elda tælenskan mat (eða hjálpa til allavega), drekka einhver ósköp af tuborg og fyrst og fremst njóta þess að hafa Þóri í töluvert minni fjarlægð en venjulega :) Hvernig getið þið haldið að ég hafi haft tíma til að blogga? ;)

En allt hefur sitt gjald - frá og með gærdeginum er ég flutt upp á Bókhlöðu þar sem ég geri heiðarlega tilraun til þess að minnka heimavinnuskuldir mínar eitthvað. Bara svo þið vitið hvar þið eigið að leita þegar þið farið að sakna mín...