þriðjudagur, mars 27, 2007

Áætlanir. Mikið af þeim.

Ég er löt að blogga þessa dagana. Gallinn við það er að þegar mann loks langar að fara að skrifa eitthvað þá er annað hvort frá allt of mörgu að segja og þá nennir maður því varla, eða þá að það er ekki frá neinu að segja og þá nennir maður því ekki heldur. En jæja...

Ég hætti við að vera meira dugleg á Hlöðunni og ákvað að vera frekar dugleg á Árnastofnun. Ástæða? Ég ætla að eyða rúmlega einum þriðja af apríl í Danmörku og þar sem ég get tekið námsefnið með mér en öllu síður pakkað segulbandasafninu og öllum græjunum sem því tilheyra ofan í tösku er víst betra að klára sem mest af vinnuskyldunni þar áður en ég fer og geyma próflestur/verkefnavinnu frekar. Hvort ég verð svo jafn dugleg við að heimsækja bókasöfn og lessvæði KUA og ég er að plana verður svo að koma í ljós... jú, ætli það ekki, andskotinn hafi það, ef það er einhvern tímann tími til að slugsast er það víst áreiðanlega ekki síðustu tvær vikur annarinnar.

Ég þarf svo víst líka að nota tímann í Danmörku til að koma mér í viðtal hjá Thomas nokkrum Højrup (sem er þekktasti núlifandi þjóðfræðingur Dana eða þar um bil) og sannfæra hann um að ég megi sitja masterskúrs sem hann hefur yfirumsjón með að kenna næsta haust. Á maður að reyna þykjast vera ógurlega klár og tjá sig á dönsku......? Annars er allt að skýrast varðandi næsta ár, ég þarf víst að vera skráð í 10 einingar í fjarnámi plús BA ritgerð hérna heima og svo þessar 30 ETCS einingar sem er lágmark að taka til að fá að vera með í Erasmus dæminu. Sem þýðir að ég verð komin með 99,5 einingar næsta vor. Veit ekki alveg hvernig ég fór að því... lélegt skipulag alltaf hreint. En ef ég fæ að taka þetta MA námskeið fæ ég það vonandi metið inn í masterinn hérna heima og þá eru bara tvær einingar sem eru "ónýtar".

Hressandi ekki satt? Ef einhver var að velta því fyrir sér var ég s.s. að koma úr viðtalstíma hjá yfir-þjóðfræðikennaranum... eftir á að hyggja kannski ekki sniðugasti tíminn til að blogga ;D