sunnudagur, desember 17, 2006

Þarf að fara að gera jólainnkaupin

Tók mig til og labbaði í vinnuna í morgun. Kom reyndar til af illri nauðsyn, þar sem að Gulla endaði óvart með bíllyklana mína eftir gærkveldið, en var engu að síður afskaplega hressandi og heilsusamlegt. Vel þess virði að velta því fyrir sér af hverju maður gerir þetta ekki oftar...

Held það sé aðallega svefnpurkuháttur, nenni ekki fram úr hálftíma fyrr en ég kemst upp með þegar ég fer á bíl. En úr því mér tókst það í morgun, eins lítið og ég er búin að sofa síðustu nætur, þá ætti það nú að ganga eftir fullan nætursvefn. Á göngu minni eftir Blómvallagötunni heyrði ég vekjaraklukku bölsótast við opinn glugga í að minnsta kosti tvær mínútur áður en eigandinn bærði á sér... einhvern veginn var illgirnislega notalegt að vita að það ættu fleiri erfitt með að rífa sig á fætur en ég.

Annars er þetta síðasti vinnudagurinn minn á Hótel Klöpp!! Nema ég asnist til að taka aukavakt hér eða skipta við einhvern, sem ég ætla að reyna að halda í lágmarki. Eftir jól fer ég á hið nýja Hótel Þingholt þar sem ég fæ að ganga í einkennisbúningi og díla við gesti sem tíma að borga þrjátíuþúsund fyrir hótelherbergi án morgunverðar. Vei! En það verður ágætt að breyta til og endurnýja kannski metnað sinn í þessu starfi.

Vika til jóla... jahá!