Too much reading will fuck you up
Þar sem ég er að reyna að vera duglegur námsmaður þessa dagana sat ég fram á nótt við að lesa Tolkien. Ætlaði reyndar að komast út fyrir kaflann um Beren og Lúthien en endaði á að sofna ofan í frásögnina af Dagor Bragollach - "The Battle of Sudden Flame".
Að sjálfsögðu dreymdi mig svo orustur í anda Tolkiens alla nóttina. Eftir mikla baráttu um fjöll og sléttur voru hetjurnar króaðar af í einhvers konar gettói þar sem barist var á bílskúrsþökum og gangstéttarhellur notaðar sem barefli. En herir Morgoths urðu greinilega eitthvað þreyttir á þessu á endanum og tefldu fram flota af rauðum flugvélum sem vörpuðu sprengjum yfir allt saman. Þeir einu sem komust af voru þeir sem földu sig í stigagangi afskaplega blárrar blokkar, þar sem stóð með stórum stöfum að íbúð 3A ætti þrif á sameign þessa viku.
Ætli svona draumur tákni eitthvað...?