mánudagur, nóvember 20, 2006

Eirðarleysi og ófærð í Reykjavík

Nú er alvöru snjór í Reykjavík... með tilheyrandi skemmtilegheitum í umferðinni þar sem annar hver bíll er á sumardekkjum og önnur hver gata falin undir sköflum. Bíllinn minn var einmitt inni í einum slíkum skafli í gær, svo við gátum skemmt okkur við að moka hann út... og tókst síðan að festa hann í einhverri botnlangagötu. Og samt er ég á nöglum!

Annars tókst mér líka að krækja mér í veikindi í snjónum... það er sem sagt ansi takmarkað sniðugt að vaða skafla berfættur í sandölum, þó mér hafi fundist það góð hugmynd á sínum tíma.

Og með hálsbólgu, hita og hósta undir sæng í gær fékk ég fyrsta panic kastið yfir því að þessi önn væri að verða búin og ég yrði væntanlega að fara að gera eitthvað dramatískt í málunum ef ég ætlaði að klára hana með ásættanlegum árangri... sem leiddi svo af sér frekar dapurt andlegt ástand þar sem ég sat og vorkenndi mér yfir því að vera búin að koma mér í þetta klandur og lét allt fara í taugarnar á mér (já, ég á það til að fá svona "allt er ómögulegt" köst þegar ég er lasin og leið). Eeeeen.... það dugar víst ekki að væla og gera ekkert í málunum. Mun líklegra að skapið batni ef ég pakka eirðarleysinu, kæruleysinu og einbeitingarleysinu niður og dríf mig í að ljúka þessu með stæl!

Engin ástæða til að láta sér leiðast þegar þrjár ritgerðir og jafnmörg próf bíða manns... er það nokkuð? ;)