mánudagur, mars 10, 2008

Jeg keder mig...

Já, mér hálfleiðist. Í augnablikinu allavega, þó ég hafi varla ástæðu til þess, gæti verið að lesa fullt af (mis)skemmtilegum námstengdum bókum, horfa á I, Claudius, hanga á Facebook, ganga frá eftir kvöldmatinn eða skúra gólfið... en ekkert af þessu hljómar neitt of heillandi þessa stundina og ég sit bara fyrir framan skjáinn og hangi.

Í ljósi þess sem að ofan er talið líkar mér reyndar ágætlega hvernig Danir orða þetta ástand, jeg keder mig gefur mun betri mynd en mér leiðist, þar sem sögnin er ópersónuleg og fornafnið í þágufalli... hjá Íslendingum er leiði eitthvað sem þvingað er upp á fólk og það hefur lítið sem ekkert um málið að segja - Danir horfast aftur á móti í augu við það að leiði er sjálfskapað ástand sem ég kalla yfir mig.

Jámm, einmitt, þessi litla hugleiðing vakti ykkur væntanlega til íhugunar og fyllti hjörtun gleði... ef ekki þá mæli ég með að þið tékkið á myndaalbúmunum, þar sem ég er loks búin að láta verða af því að dæla inn öllum Finnlandsferðarmyndum m.m. - meira að segja búin að skrifa undirtexta við allt nema myndirnar frá Tallinn, það gerist kannski einn daginn þegar ég er í stuði :)

Bendi á að albúmið "heimilismyndir" er alltaf í smávegis endurnýjun, ýtti því aðeins ofar í röðina til að undirstrika það ;)