fimmtudagur, desember 20, 2007

Þrátt fyrir allt sem íþyngir...

Síðasta skólatörnin fyrir jól fór nú ekki alveg eins og ég hafði ætlað mér... Eftir lítinn og lélegan svefn, litla og lélega næringu, stress svo lá við uppköstum og vonlausa baráttu við tímann og allt sem ég átti eftir að gera til að þessi ritgerð mín kæmist á skilanlegt form gafst ég grátandi upp á mánudagsmorguninn og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég hefði klúðrað þessu verkefni. Ég hafði hangið saman á þrjóskunni fram að því, en það er víst bara ekki alltaf nóg...

En þótt þetta sé kannski ekki skemmtilegasta leiðin til að komast í jólafrí, þá er ég nú samt komin í eitt slíkt. Var reyndar ansi svekkt og súr á mánudeginum (plús svefnleysi og orkuleysi, sem ekki var til að létta skapið), og fékk svo aftur skell á þriðjudeginum, þegar veskinu mínu var stolið í strætó, þrem tímum áður en ég átti flug heim, svo ég fékk að enda Danmerkurdvöl mína þessa önnina á símtölum í kortafyrirtæki og skýrslugerð hjá hægvirkustu (langar helst að segja tregustu, en þeir virtust nefnilega ekki beint heimskir, bara sjúklega nákvæmir, ekki baun að flýta sér og ekki of flinkir á tölvukerfið sem þeir notuðu við að fylla út skýrsluna) lögreglumönnum sem ég hef fyrir hitt. Flugið heim var svo heldur ekki til að hrópa húrra fyrir, vatn lekandi úr loftinu, sætaraðir sem voru svo þröngar að það var varla pláss fyrir mínar litlu lappir og loftræsting sem vildi bara annað hvort hafa 30°hitamollu eða 12 vindstiga blástur með tilheyrandi loftkælingu...

EN! ég er allavega komin heim í frí, búin að vera rúman sólarhring á landinu og nýt þess að kúra í gamla herberginu mínu hjá pabba og mömmu, búin að lesa heila sakamálasögu, baka laufabrauð og hitta þjóðfræðinema, hlusta á systur mína spila á jólatónfundi og fara í jólaklippingu... á morgun er það svo jólaskemmtun í skólanum hjá hinni systur minni (sem á að vera Sandy í Grease í einhverri sýningu - ofur töff auðvitað!), jólagjafainnkaup og fleira jólalegt stúss :) Kannski tekst mér m.a.s. að draga eitthvað af því fólki sem hefur verið að hóta að hitta mig á kaffihús!

Já, jólin fara að koma... þrátt fyrir allt :)