laugardagur, desember 08, 2007

Nokkrar staðreyndir úr lífi mínu þessa stundina

Ég er þreytt.

Ég má samt ekki vera að því að vera þreytt því að fyrir hádegi á mánudag þarf ég bæði að vera búin að taka lokapróf í færeysku og skila drafti að 15 síðna rannsóknarritgerð á dönsku (sem ég er auðvitað ekki komin of langt með, frekar en mér er lagið þegar svona verkefni eiga í hlut) ásamt fylgiskjölum, þ.á.m. viðtölum og spurningalistum sem ég þarf líka að þýða á dönsku.

Það væri því mun gáfulegra að afneita þreytunni og fara að læra, en að liggja hér og blogga um það að ég sé þreytt.

Eftir 9 daga verð ég búin (eða er að minnsta kosti eins gott að ég verði búin...) að skila öllu af mér sem ég þarf að klára í skólanum fyrir jól.

Eftir 10 daga, að kvöldi 18.desember kem ég heim í jólafrí, og þarf þá ekki að hugsa meira um dönsku, verkefni, próf eða neitt annað í svona 2-3 vikur. Einhvern tímann milli 7. og 14.jan. þarf ég samt að snúa aftur og halda áfram með verkefnavinnu og prófundirbúning, held að ég verði ekki formlega búin í prófum fyrr en um 20.jan. En a.m.k. svona aðeins fram yfir áramót ætla ég að leyfa mér að vera áhyggjulaus í jólafríi.

Ég er búin að ákveða að framlengja Erasmus samninginn minn um eina önn, til að geta tekið eitt auka námskeið hér, og náð þar með nógu mörgum einingum til að ég fái sumarlán. Bæði alþjóðaskrifstofan hér og heima virðast bara voða happy með það að ég verði skiptinemi áfram, en ég á samt eftir að ganga frá því... vona að það verði ekki of seint loks þegar ég kem því í verk.

Við erum búin að flytja, og meira að segja koma okkur sæmilega fyrir. Nú búum við víst orðið á mörkum Nørrebro og Bispebjerg (sem er hverfi í NV-Kaupmannahöfn). Hef alla trú á að hér verði gott að vera, sérstaklega þegar sólin fer að hækka á lofti við getum farið að liggja í sólbaði á svölunum.

Einhvern tímann þegar ég er ekki þreytt og á að vera að pikka inn viðtöl eða læra fyrir færeyskupróf þá kannski set ég inn myndir af nýju heimkynnunum. Og jafnvel, hugsanlega Finnlandsferðinni minni og einhverju fleiru sem gerst hefur síðan um mánaðamótin september-október, svona í leiðinni.

Oh... ég er samt svo þreytt...