sunnudagur, ágúst 27, 2006

Slæmir hlutir sem geta hent túrista á fylleríi

- Þú vaknar með þynnku dauðans rétt um hádegi, færð vægt sjokk þegar þú kemst að því að flugið þitt fór klukkan tuttugu mínútur yfir sjö og töluvert verra sjokk þegar í ljós kemur að einu flugmiðarnir sem fáanlegir eru til heimalands þíns samdægurs kosta rúmar 80 þúsund krónur
- Þú endar sem strandaglópur uppi í Breiðholti eftir að einhver húmoristi sannfærir þig um að það sé eftirpartí í Dúfnahólum tíu og sambland af tungumálaerfiðleikum og of mikilli drykkju verður til þess að þú og leigubílstjórinn eruð ekki alveg að ná saman
- Þú tekur leigubíl til Keflavíkur beint af djamminu en fattar þegar þú ert að fara að tékka inn að þú gleymdir að koma við á hótelinu og sækja farangurinn þinn, svo að þú þarft að láta senda hann á eftir þér með öðrum leigubíl
- Þú vaknar nakinn í hrúgu af óhreinum handklæðum í þvottahúsi hótelsins þegar þernurnar mæta til vinnu morguninn eftir
- Þú manst ekki herbergisnúmerið þitt, biður um vitlausan lykil og næturvörðurinn sem hefur aldrei séð þig áður lætur þig fá hann, þú uppgötvar síðan mistökin þegar manneskjan sem fyrir er í rúminu fer að öskra á þig
- Þú kemur heim dauðadrukkinn um miðja nótt, rétt í tíma til að ná flugrútunni og ert að flýta þér svo mikið að þú skilur allan farangurinn eftir á ganginum fyrir framan herbergið þitt
- Þú vaknar með blátt hár, og ekki nóg með það heldur eru sængurfötin, helmingurinn af húsgögnunum og veggirnir á baðherberginu líka þaktir slettum af bláum hárlit

...og örugglega margt fleira. I love working weekends!