fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Svipmynd af fimmtudagskvöldi

Fúli Ítalinn á horninu var ekki hrifinn þegar ég skaust inn klukkan tíu mínútur í tíu og sagðist ætla að fá tvær litlar pizzur. Hann horfði grunsemdaraugum á klukkuna og bölvaði mér í hljóði meðan ég settist niður og blaðaði í Sterling Magazine.

Afgreiðslustrákurinn í 7-11 var öllu glaðbeittari og sérstaklega hýrnaði yfir honum þegar ég sagðist ætla að borga með korti, enda bannað að vera með nema lágmarksskiptimynd á kvöldin og þungbúni rapparinn á undan mér kláraði hana sjálfsagt alla með því að nota 200 kall til að verlsa hálfan sígarettupakka.

Kúnnaleit hórunnar í kjallaranum hinumegin við götuna hefur væntanlega borið árangur, þegar ég labbaði til baka var búið að loka bílskúrsdyrunum sem annars standa vanalega í hálfa gátt. Það var þó að minnsta kosti ekki heill sportbíll af vinum að bíða fyrir utan og blasta hip hop í þetta sinn.

Eftir að hafa velt því fyrir mér í milljónasta sinn hvort að konurnar tvær sem ég mætti við hornið á blokkinni minni væru að tala sín á milli á arabísku, tyrknesku, persnesku eða einhverju allt öðru máli blasti við mér plömmerinn á einum nágrannanum sem sat og grúfði sig yfir einhverja pappíra innan við upplýstan glugga og minnti mig á af hverju ég ætla aldrei að búa á stuen.

Meðan ég bölvaði ofurbjörtu ljósunum í lyftunni enn eina ferðina velti ég því fyrir mér hvort að ég ætti eftir að sakna hverfisins þegar við flytjum héðan eftir rúmlega mánuð...