mánudagur, apríl 14, 2008

Fljúgandi rottur og afklipptir fingur

Það er eitt sem mér hefur tekist að þróa með mér megna andúð á þessa mánuði hér í Kaupmannahöfn; það eru dúfur. Ég veit ekki alveg hvað það er, sem mér líkar svona illa við. Þær eru bara einhvern veginn allstaðar og mér finnst þær svo... óhreinar, eða eitthvað. Sóðalegar kannski betra orð. Ég er allavega komin með ógurlega sterka tilfinningu fyrir því að dúfur séu ógeðslegar, smá dæmi um það er að eftir að ég sá fyrir nokkrum vikum tvær dúfur setjast á rekka með ávöxtum fyrir utan eina búðina hérna í hverfinu þá hef ég ekki getað hugsað mér að kaupa neitt matarkyns sem hefur verið óvarið utandyra. Kæri mig sko ekki um að borða neitt sem einhverjar ógeðslegar dúfur hafa verið að skríða á, takk fyrir! Lestarstöðva-dúfurnar eru samt verstar, og með lestarstöðina hér gnæfandi yfir okkur þá er sko nóg af þeim, en þeirra helsta einkenni (fyrir utan að vera enn úfnari og sóðalegri en hinar) er að það vantar oftast á þær nokkrar tær, svo þær skakklappast um á mislöngum löppum og eru enn meira krípí en ella. (Ég vorkenni þeim samt stundum pínu og fæ á tilfinninguna að það hljóti að fylgja því sársauki í hverju skrefi að stíga í stúfinn þar sem kannski er bara 1 tá eftir...). Þetta dúfuhatur er samt pínu erfið tilfinning, því að mér er venjulega vel við flest dýr og fugla og finnst þau voðalega sæt og indæl. Fyrir svona 10 dögum tók ég eftir því að það voru dúfur búnar að gera sér hreiður undir þakskegginu á lestarstöðinni beggja vegna við teinana - og ég fann hvernig ég klofnaði í tvennt inni í mér og hugsaði á sama tíma "aww, litlir sætir ungar" og "oj, ekki fleiri ógeðslegar dúfur"!

Ég gerði annars tilraun til þess að klippa eins og centimeter framan af vinstri þumlinum á mér í gær - en það mistókst og í staðinn sit ég uppi með skurð frá naglabandi og niðrúr og bláa og krumpaða nögl sem er enn ekki búin að ákveða hvort hún ætlar að tolla á eða detta af. Svona er að vera klaufabárður.