fimmtudagur, apríl 10, 2008

Einbeitingarleysi og aðrir kvillar

Mér er ekkert að ganga að einbeita mér að þessari bók sem ég á að vera að lesa (og ER að lesa... svona inn á milli þess sem ég blogga, hleð myndum á netið og geisladiskum inn í iTunes...) - sem er afar slæmt þar sem ég þarf að skila ritgerð um hana fyrir helgi og á að mæta í vinnuna á morgun! Reyndar hef ég meiri áhyggjur af annarri ritgerð sem ég á að skila á þriðjudaginn, og svo á ég víst líka að fara í heimapróf í næstu viku, úr lesefni sem ég á enn eftir að útvega mér að hluta til... frá Íslandi :s Fjarnám er flókið fyrirbæri, ekki nóg með að það vanti það aðhald og hvatningu sem efnisleg nálægð við skólastofur, kennara og aðra nemendur veitir og aðgangur að námsefninu sé misgóður, heldur skortir mig einhvern veginn allan áhuga, innblástur og lærdómslöngun þegar ég er svona úr sambandi við allt og alla sem náminu við kemur. Finnst þetta allt svo tilgangslaust og dautt eitthvað... þó námsefnið sé ekkert leiðinlegt þá er það svo líflaust og sneytt öllu því sem venjulega gerir hlutina áhugaverða, þegar maður er bara alltaf einn með sjálfum sér :( Pleh... Auðvitað væri ég líklega í betri málum ef ég hefði meira af innbyggðum sjálfsaga og einbeitingu - en ég er greinilega of háð því að þurfa að hafa gaman af hlutunum til að nenna þeim.

En jæja, back to reading! Og vona til að enda þetta á aðeins hamingjusamari nótum þá vorum við Þórir í Noregi um helgina, og það eru komnar myndir á netið :) Vantar reyndar alveg myndir frá laugardagskvöldinu, þá var ég of önnum kafin við að vera hölt til að mega vera að því að veifa myndavélinni, vonast til að fá einhver afrit frá Hafdísi bara ;)