föstudagur, nóvember 02, 2007

Eru þá að koma jól?

Ég varð náttúrlega að taka mér smá verðskuldaða pásu eftir allt bloggbrjálæðið þarna snemma í október, er það ekki? ;)

Annars endaði bloggkeppnin mikla nú eiginlega bara með jafntefli, fannst ekkert gaman að halda áfram að dæla inn færslum eftir að Hjalti hafði opinberlega gefist upp! ...og nennti því kannski ekkert heldur... Þannig að í staðinn fyrir að annað hvort okkar splæsti bjór á hitt keyptum við bara fullt af áfengi í sameiningu og fórum á ógurlegt fyllerí, ásamt Virpi og Kaisu... og það á sunnudagskvöldi! ;) Það var hressandi, þrátt fyrir að dagurinn þar á eftir hafi verið einkar óhress. Ég var næstum búin að gleyma hvað er vont að vera þunnur, úff púff. (Og já, Hjalti, ef þú lest þetta máttu segja Virpi að ég er komin með Facebook svo hún getur leitað að mér þar...) En við gerðum nú líka marga gáfulega hluti, við fórum til Tallinn og í Suomennlinna (sem er virki á eyju, mjög töff), og í skemmtigarðinn Linnanmäki og á Nutor forum í Kangasala, þar sem ég lærði að juggla og búa til blöðrudýr og var trúður á grímuballi.

Morguninn eftir að ég sneri aftur frá Finnlandi kom Hafdís í heimsókn, við rændum Birnu úr dönskuskólanum og héldum stelpu-náttfata-chill-partý alla helgina :D Birna fór aftur til Íslands á sunnudegi en Hafdís var fram á þriðjudag og við afrekuðum m.a. að finna konungshöllina og Litlu Hafmeyjuna í kolniðamyrkri, horfa á agalega hryllingsmynd og mæla götur miðbæjarins meðan við óskuðum þess að við værum ríkar og gætum keypt allt sem okkur langaði í... ;)

Á miðvikudeginum komu foreldrar mínir og litlu systur í heimsókn og voru fram á sunnudag, dröslaði þeim m.a. líka að skoða konungshöllina og Litlu hafmeyjuna - úff, hvað ég er hugmyndasnauð greinilega - að þessu sinni reyndar í dagsbirtu. Svo fórum við á tilraunasetrið (Eksperimentarium) í Hellerup og á náttúrugripasafn Háskólans, elduðum Flæskesteg og bökuðum köku, þvældumst í "nokkrar" búðir og heimsóttum elstu krá Kaupmannahafnar.

Ég er sem sagt búin að vera ógurlega upptekin, við eitthvað allt allt annað en duglegir námsmenn eiga að eyða tíma sínum í. Eftir rúmlega tveggja vikna extended haustfrí hefur þessi vika að mestu farið í að gíra sig inn á að vera ekki lengur í fríi og með gesti, heldur vinna fyrir námslánunum sínum. Dugnaðurinn er svona smám saman að snúa aftur, og ekki veitir af...

Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur hvað í ósköpunum titillinn á færslunni hafi með þetta allt að gera, þá er svarið við því eiginlega barasta ekki neitt. Hún fór bara óvart að fjalla um eitthvað allt annað en hún átti upphaflega að gera. Humm...

En í dag er sem sagt J-dagurinn, einn af helstu hátíðisdögum í Danaveldi, en þá fer jólabjór Tuborg í dreifingu. Magasin du Nord er líka búið að setja upp jólaljósin, og í flestum matvöruverslunum er búið að leggja 1-2 rekka undir jólapappír, litla jólasveina, jóladagatöl og gylltar stjörnur. Það eru sem sagt að koma jól, eftir 53 daga, og maður verður víst að gjöra svo vel að gera sér grein fyrir því, svona inn á milli þess sem maður les sér til um óríentalisma og kyntengdar sjálfsmyndir í tónlist, skrifar ritgerðir, tekur viðtöl, leitar að heimildum um glókaliseringu og fankúltúr og reynir að berja færeyska framburðinn inn í hausinn á sér.
Hvað langar ykkur að fá í jólagjöf? ;)