fimmtudagur, október 11, 2007

Pælingar

Svona sirka einu sinni á önn rennur upp sá tími að mér finnst ég nauðsynlega þurfa að pæla ótrúlega mikið í því hvernig ég eigi að raða námsmatinu mínu upp til þess að fá sem gáfulegasta niðurstöðu út úr einingunum mínum.

Þessa önnina liggur pælingin aðallega í því hvort ég eigi að reyna að fá að taka eitt námskeið í skiptinámi á næstu önn, eða bara láta mér nægja þessar 10-12 einingar sem ég er skráð í heima. Ég hef reyndar ekkert við fleiri einingar að gera, en óttast aftur á móti að það geti haft ýmsa miður skemmtilega hluti í för með sér að vera bara í 10 eða 12 einingum, öllum í fjarnámi. Má þar nefna vesen með námslán (fengi ekki nema 75% lán), vesen með húsnæði (gæti orðið bögg að fá pláss á kollegíi ef ég er ekki í námi hérlendis), vesen með bókasafnsaðgang, prent- og ljósritunaraðstöðu (allt svoleiðis hjá mér gildir til 31.janúar...) og góðan möguleika á óhóflegri leti, sinnuleysi og leiða, sem mig grunar að myndi leiða af því að sitja alla daga ein heima eða á CBS. Auk þess langar mig eiginlega bara að fá að vera aðra önn í skólanum hérna, loksins þegar ég er búin að læra á allt (tókst m.a.s. að skrá mig í prófin í dag, víhí!), skil dönskuna orðið betur og áherslurnar í náminu sömuleiðis. Það eru ýmsar skemmtilegar pælingar í gangi hér og það væri gaman að geta komist aðeins betur inn í þær, meðan maður hefur tækifæri til.

Auðvitað er líka möguleiki í stöðunni að sitja námskeið án þess að fá þau metin, en það er hætt við að það verði hálf ómarkvisst (ég er t.d. búin að skrópa í einhverja 3-4 færeyskutíma, en bara einu sinni í hinum námskeiðunum samanlagt... og það var daginn sem við vorum að flytja), auk þess sem það leysir ekkert af tæknilegu vandamálunum með húsnæði, námslán og bókasafns- og tölvuþjónustu.

Púff... stundum pæli ég allt of mikið í hlutunum held ég ;)