mánudagur, október 08, 2007

Hangsað í tölvuveri KUA

Það er ekkert ógurlega snemmt að mæta í skólann klukkan tíu, en samt tekst mér alltaf að koma ca. fimm mínútum of seint í færeyskutímana mína. Fyrstu vikurnar kenndi ég því um að þar sem við bjuggum nánast í næstu götu við skólann hélt ég alltaf að ég væri bara svona 3 mínútur að labba, en var í rauninni svona 5-8 mínútur. Síðan við fluttum hef ég svo haldið því fram að metro ferð (+ labb til og frá lestarstöðvum) taki svona 25-30 mínútur, þegar það tekur í raun nær 35 mínútum. Uss, uss, lélegar afsakanir, ég veit.

Færeyskutímarnir eru samt svo indælir og afslappaðir, við erum ekki nema 6 nemendur - og þar af bara "hálfur" Dani (hinn helmingurinn af honum er færeyskur, en hann talar samt bara dönsku). Svo eru þar tveir Þjóðverjar, einn Tékki, einn Króati og svo ég. Kennarinn eyðir oftast meira en helmingnum af tímanum í að segja okkur furðusögur af sögu og menningarlífi Færeyja (þetta er sko svona færøsk sprog og kultur námskeið) og svo sitjum við í hring lesum við færeyska texta og æfum framburð. Stundum velti ég því fyrir mér af hverju ég fór að læra félagsvísindi, hefði örugglega blómstrað í einhverjum svona málvísinda/hljóðfræði/tungumála nördisma 8-)

Þar sem það stóð, aldrei þessu vant, ætur hádegismatur til boða í kantínunni ákvað ég að borða og heimsækja svo tölvuverin og sjá hvort mér tækist að finna eitthvað út úr prófaskráningunni á netinu... Það tókst (að sjálfsögðu) ekki, en hér sit ég samt enn, einum og hálfum tíma síðar og hangsa á netinu. Skamm skamm... mér væri hollara að koma mér heim að læra og þvo þvott. En ég verð nú að halda í við Hjalta í blogg-keppninni ;)