þriðjudagur, október 04, 2005

Um samhengisleysi hlutanna

Það má alltaf treysta því ef ég blogga tvo daga í röð, þá er ég að vinna. Veit ekki hversvegna, þar sem mér finnst ég nú vera ágætlega dugleg í vinnunni minni.

Hefturum er illa við mig. Orgelkennurum líka. Að minnsta kosti tók orgelkennarinn minn síðasta vetur sér 3ja mánaða veikindaleyfi yfir miðjan veturinn og nýji orgelkennarinn minn er farin til Tékklands um óákveðinn tíma þar sem pabbi hennar er veikur. Æjæjæj...

Það er gaman að fylgjast með börnum í strætó. Um daginn sat ég fyrir aftan lítinn strák og afa hans, sem voru eitthvað að spjalla saman, þegar sá litli snýr sér allt í einu við, horfir beint á mig og segir : Pabbi minn er sko með svört augu! Nokkrum dögum síðar var stór hópur af sirka tíu ára krökkum aftast í strætó og töluðu auðvitað hvert upp í annað eins og alltaf, en það eina sem ég heyrði greinilega var að einn strákurinn sagði aftur og aftur : þessi stelpa var í Toscu, þessi stelpa var í Toscu. Svo ég endaði á því að eyða allri ferðinni heim í að velta því fyrir mér hvort það væri einhver nýr barnatími eða tölvuleikur sem héti Tosca, eða hvort strákurinn hefði í alvöru séð óperuna.

Annars er ég svo búin að ná að afreka það að horfa þrisvar á Pirates of the Carribean á þrem dögum. Ég verð að fara að skila þessum DVD disk...