þriðjudagur, október 18, 2005

Nýtt útlit :D

Vonda skapið mitt er liðið undir lok (takk Anna Guðrún!) og þá fannst mér ekki seinna vænna að fara að lappa aðeins upp á grey síðuna mína. Hún er nú ekki alveg fullgerð ennþá, ætla að setja inn fleiri síður og myndir og eitthvað svona en útlitið er held ég bara komið! mér finnst hún allavega koma vel út... veit að þú vildir hafa hana bleika Kristrún, en það bara passaði svo illa við drekann ;) það eina sem ég er ekki nógu hress með er profile-inn, veit ekki alveg hvað ég ætla að gera við hann, hmmhmm...

Ég er annars farin að skilja áhyggjur mömmu minnar af því að ég borði aldrei neitt. Komst að því þegar ég mætti í vinnuna klukkan fjögur að það eina sem ég var búin að borða í dag var eitt glas af ávaxtasafa (lesist: drekka, borðaði ekki glasið) og ég vaknaði klukkan sex... Fór samt heim til foreldranna í gær að sníkja mat og hitti einmitt á ákafa ræðu mömmu um leikskóla - það er víst þannig á flestum leikskólum Kópavogs að börnin fá bara að vera þar 4 daga í viku, 1/5 sendur heim á hverjum degi sem sagt, vegna starfsmannaskorts. Skyndilega greip Hildur fram í (með fullan munninn) : Það verður bara að borga leikskólafólkinu meiri laun, þá mundi það alveg vilja koma í vinnuna! Jahá... kannski maður ætti bara að senda hana á þing.