mánudagur, október 31, 2005

Morguninn eftir

Helgin er liðin og vikan líka - partýið búið og ég stend ein eftir með fullt hús af blöðrum, gjafapappír í rúminu mínu og einmana sokk sem varð eftir inni í eldhúsi.

Í tilefni vonda veðursins á föstudag og ýmissra Domino's ófara sem af því leiddu sótti ég pizzasendilinn minn í vinnuna og við fórum og leigðum okkur spólur, Clerks og Mallrats. Mér fannst Clerks betri, þó að Mallrats væri fyndnari.

Á sunnudaginn fékk ég það svo staðfest, að suma daga fer einfaldlega allt úrskeiðis. Og ég er ansi hrædd um að ef Nobili kórinn hefur haft eitthvað álit á mér fyrir hafi það snarlega versnað þá fjóra tíma sem ég átti að vera á æfingu en eyddi að mestu leyti í að díla við bilaða bíla og hugsa um veik börn.

Ég auglýsi hér með eftir einhverjum til að fara með mér á skauta á miðvikudaginn, á sýninguna Gestur, síðasta máltíðin næsta laugardag og á tónleika í salnum á fimmtudaginn eftir viku! Call me...

Já, svo hef ég víst verið klukkuð á ný... og þar sem mér finnst svo gaman að ljóstra upp hlutum um sjálfa mig get ég ekki sleppt því að vera með. En svo er líka nóg komið! Vinsamlegast ekki klukka mig aftur...

1. Ég eyði óratíma í furðulegustu hluti, eins og til dæmis að búa til stundatöflur, breyta blogginu mínu, skipuleggja eldhússkápana og þess háttar. Í gær ætlaði ég að læra en endaði í staðinn á að eyða 2 tímum í að "taka til" í tölvunni minni. Ég hef afar ríka þörf fyrir að sortera hluti og raða þeim upp, skipuleggja og skrifa lista. Samt er ég ekkert sérlega skipulögð manneskja og yfirleitt er allt í drasli í kringum mig.

2. Mér er illa við skó. Helst vil ég vera berfætt og er það eins oft og hægt er miðað við að búa í borg 27 gráðum frá norðurpólnum. Sandalar eru ágætis málamiðlun, líka vegna þess að það er hægt að vera berfætt í þeim. Mér finnst ógeðslegt að vera berfætt í skónum, en annars er mér meinilla við sokka líka.

3. Ég hendi flöskum, dagblöðum og mjólkurfernum. Ekki vegna þess að mér sé illa við umhverfið, heldur er ég bara ekki nógu samviskusöm til að nenna labba með það í Sorpu.

4. Ég geri hluti á síðustu stundu. Ekki stundum eða oft, heldur alltaf. Allavega næstum alltaf. Svo að ef ég mæti of seint í afmælið ykkar því að ég var að kaupa afmælisgjöfina þá þýðir það ekki að mér þyki ekki vænt um ykkur...

5. Ég er háð internetinu, msn og símanum mínum. Án þeirra hrynur allt samskiptanet mitt við umheiminn og ég stend uppi ein og vinalaus. Sorglegt, kannski, en satt, allt of satt.