þriðjudagur, september 27, 2005

Klukk-klukk...

Það er langt síðan ég hef bloggað. Ástæðan er sú að ég hef ekki nennt að skrifa fimm staðreyndir um sjálfa mig, en ekki haft brjóst í mér til að svíkjast um í þessum klukk-leik. Svo hér koma þær :

1. Mér finnast límmiðar skemmtilegir. Líka litir. Og yfirstrikunarpennar. Almennt séð allt sem lífgar upp á stílabækurnar mínar... eða bara hvað sem er. Ég meina - hafiði komið inn í eldhúsið mitt?

2. Ég er ótrúlega veik fyrir latínu. Mér finnst latína sniðugasta tungumál sem ég þekki, það er til svo mikið af fallegum textum á latínu. Þetta birtist meðal annars í því að bæði nafnið á blogginu mínu og flest lykilorðin mín inn á hitt og þetta eru á latínu. Ég er líka veik fyrir gregoríönskum kirkjusöngvum. Þeir gefa mér alltaf hroll. Þetta tvennt er líklega ástæðan fyrir því að ég hef jafn mikinn áhuga á kirkjutónlist og raunin er og hugleiddi jafnvel að taka guðfræði sem aukafag í háskólanum.

3. Ég á kanínu sem heitir Tara. Svo á ég eiginlega líka aðra kanínu sem heitir Eyrnalangur, en hann geymi ég úti í garði hjá pabba og mömmu því að hann var svo óþægur og illa upp alinn að hann var ekki húsum hæfur. Það er samt ekki mér að kenna því að ég fékk hann ekki fyrr en hann var meira en eins árs. Í staðinn er ég í vetur að passa Nemó, sem er systir Töru. Þær eru samt eiginlega næstum jafn óþægar og Eyrnalangur... Svo á ég kisu sem heitir Vaka og er líka hjá pabba og mömmu, því að ég má ekki vera með kisu í kjallaranum mínum, og þrjár kisur til viðbótar á himnum. Mig langar í labrador. Og hest. Reyndar fæ ég hana Kolfreyju í fóstur eftir áramótin, svo að þá á ég næstum því hest :) Svona er að vera ættuð úr sveit... ;)

4. Þegar ég byrjaði í MH tók það mig einn dag að byrja að tala við einhvern, þrjá og hálfan mánuð að fá símann hjá einhverjum og alla fyrstu önnina að hitta einhvern utan skólans. Þegar ég byrjaði í HÍ tók það mig 4 daga að byrja að tala við einhvern, viku að fá símann hjá einhverjum og 2 og hálfa viku að hitta einhvern utan skóla. Og ég veit þetta!!

5. Mér finnst gaman að hneyksla fólk. Verst að ég hef hagað mér svo illa innan um ykkur flest að það er varla margt sem ég get gert til að hneyksla ykkur lengur...

Þá get ég aftur farið að blogga reglulega með góðri samvisku - ví :D